Dalai Lama

Greinar

Ef Tíbetar öðlast sjálfsforræði að nýju, verður munkaveldi fyrri alda ekki endurreist, heldur komið á fót lýðræði, sagði Dalai Lama fyrir nokkrum dögum á fundi í Delhi á Indlandi með ritstjórum vestrænna fjölmiðla. Hlutverk hans sjálfs yrði þá eingöngu trúarlegt.

Dalai Lama hefur verið trúarlegur og pólitískur leiðtogi Tíbeta síðan 1940, en hefur verið landflótta síðan 1959, þegar hann flúði með 80.000 manns yfir Himalaya-fjöll undan fyrirhuguðu áhlaupi kínverska hersins á stjórnarhöllina Potala í höfuðborginni Lhasa í Tíbet.

Síðan hefur útlagastjórn Dalai Lama setið í Dharmsala í Indlandi. Að fyrirmynd sjálfstæðishetju Indverja, Mahatma Gandi, hefur hann boðað friðsamlegt andóf án valdbeitingar gegn ofbeldi Kínverja. Fyrir þá einbeittu stefnu fékk hann friðarverðlaun Nóbels árið 1989.

Dalai Lama gengur ekki langt í sjálfstæðiskröfum Tíbeta. Hann einskorðar sig við þá kröfu, að þeir fái sjálfstjórn innan Kína, rétt eins og Skotar hafa sjálfstjórn innan Bretlands. Hann flytur mál sitt af óvenjulegri sanngirni og ótrúlega léttri lund miðað við aðstæður.

Framferði Kínverja í Tíbet síðustu hálfa öldina hefur verið skelfilegt. Það er eins konar ýkt útgáfa af framferði Ísraela í Palestínu. Skipulega hefur verið unnið að innflutningi Kínverja til landsins. Þeir mynda núna yfirstéttina, en Tíbetar eru annars flokks í eigin landi.

Kínastjórn hefur lagt sérstaka áherzlu á að spilla minnisvörðum aldagamallar og sérkennilegrar menningarsögu Tíbets. Þúsundir klaustra hafa verið jafnaðar við jörðu til að reyna að þurrka út minningar um fortíðina, þótt sjálf stjórnarhöllin Potala hafi sloppið við æðið

Tugþúsundir Tíbeta hafa verið drepnar og aðrar tugþúsundir sætt pyntingum. Í höfuðborginni Lhasa eru Kínverjar orðnir fleiri en Tíbetar. Tilraunir fólks til að halda siðum og venjum eru barðar niður með harðri hendi. Tugþúsundir sitja inni af stjórnmálaástæðum.

Kínverskar ógnir hafa ekki kúgað Tíbeta til hlýðni. Stuðningurinn við útlagastjórn Dalai Lama er öflugri en nokkru sinni fyrr. Tíbetar hafa farið inn í skelina og iðka siði sína og venjur í kyrrþey. Að fyrirsögn Dalai Lama iðka þeir friðsamlegt andóf án valdbeitingar.

Helzti ógnvaldur Tíbeta er fjöldamorðinginn Li Peng, sem Íslendingar þekkja vel af ruddaskap, sá hinn sami er stóð fyrir morðunum á Torgi hins himneska friðar í Beijing, svo sem sannazt hefur af opinberum leyniskjölum Kínastjórnar, sem nýlega var smyglað úr landi.

Ofbeldisstefna Kína gagnvart Tíbet minnir á framgöngu ríkisins á öðrum sviðum. Umgengni Kína við umheiminn byggist mest á hótunum og heimboðum, svo sem Íslendingar þekkja vel frá þeim tíma, er íslenzk stjórnvöld þorðu að sýna gestrisni ráðamönnum á Taívan.

Ísland er eitt þeirra ríkja, sem hefur kiknað undan hótunum og heimboðum Kínastjórnar. Þótt viðskipti við Taívan séu meiri og betri en við Kína, höfum við að fyrirmælum Kína ekki stjórnmálasamband við Taívan, en höfum komið á fót tilgangslausu sendiráði í Beijing.

Að launum fyrir stuðninginn við ríkisstjórn, sem er hættuleg umheiminum, þiggja íslenzkir áhrifamenn í mútur ferðalög um Kína, veizlur í Beijing og skoðunarferðir til kínverska múrsins. Í staðinn láta íslenzkir mútuþegar sér örlög Tíbeta í léttu rúmi liggja.

Dalai Lama er orðinn aldraður. Kínastjórn bíður eftir, að hann deyi. Þá hyggst hún sjálf stjórna vali eftirmannsins og útrýma þar með tíbetska vandanum.

Jónas Kristjánsson

DV