Við sjáum oft hesta í sjónvarpinu. Við sjáum þá í kapphlaupi, í stökki yfir hindranir eða í dansæfingum. Allt þetta gera þeir betur en íslenzkir hestar. Hér voru kappreiðar eftir seinna stríð, en þær lognuðust út af. Íslenzki hesturinn er of mikill kubbur fyrir íþróttir. Hann er fyrst og fremst ganghestur, hefur margs konar gang, fet og brokk og tölt og skeið og stökk og valhopp. Hann er rólegri en erlendir sýningarhestar og hentar betur sem fjölskylduvinur og ferðahestur. Einkum er hann rosalega þolgóður. Stóð sig vel í þolkeppni yfir Bandaríkin þver og endilöng, lenti þar í efsta sæti.