Dapur endir á dýru stríði

Greinar

Nú er friður brostinn á Persaflóasvæðið og hætturnar farnar að magnast á nýjan leik. Sannast mun, að marg-falt erfiðara verður að vinna friðinn heldur en stríðið. Markmið bandamanna eru svo ólík og þverstæð, að fremur ólíklegt er, að niðurstaðan verði góð.

Vegna vestrænna olíuhagsmuna tekur stjórn Bandaríkjanna allt of mikið tillit til hagsmuna hinna afturhaldssömu emíra við Persaflóann og hinna róttæku afturhaldsmanna í konungsætt Saúda. Þessir hagsmunir minnka líkur á, að reynt verði að efna til lýðræðis í Írak.

Þess sjást nú merki, að bandarísk stjórnvöld eru að frysta úti landflótta stjórnmálamenn frá Írak með því að neita að tala við þá. Þetta er gert í þágu Saúda og emíra, sem óttast, að lýðræði í Írak muni þrýsta á lýðræðisþróun í afturhaldsríkjunum við Persaflóa.

Saúdar vilja ekki, að minnihlutahópar Sjíta og Kúrda fái aukna aðild að stjórn Íraks. Þeir vilja helzt, að herforingi úr röðum Súnníta taki við völdum og haldi áfram að vera á varðbergi gegn Sjítum og Kúrdum, sem hafa sætt miklum ofsóknum á valdaskeiði Saddams Hussein.

Í meira samræmi við hagsmuni Vesturlanda væri að efla lýðræðissinna til valda í Írak og reyna að koma á fót stjórnkerfi, sem taki tillit til Sjíta og Kúrda og veiti þeim hlutfallslega sanngjarna aðild að stjórn landsins. Svo virðist sem Saúdar muni koma í veg fyrir þetta.

Bandaríkjastjórn hyggst ná markmiðum sínum með því að halda suðurhluta Íraks á sínu valdi og halda áfram efnahagsþvingunum meðan þrýst verður á stjórnarbreytingu í Írak. Hún vill hrekja Saddam Hussein frá völdum, en vill ekki sleppa lýðræði inn í staðinn.

Við munum senn fá að heyra gamla ruglið um, að Írakar sü svo frumstæðir, að þeim henti ekki lýðræði, heldur þurfi þeir sterka stjórn herforingja, alveg eins og sagt var um Grikki í Morgunblaðinu fyrir áratug, þegar herforingjaklíka hafði völd þar í landi.

Þvert á móti er mikill fjöldi Íraka vel menntaður eins og raunar margir fleiri íslamar. Styrjöldin við Persaflóa var gullið tækifæri til að stuðla í Írak að svipuðu hálfgildings-lýðræði og því, sem hefur smám saman verið að halda innreið sína í Tyrkland og festa rætur þar.

Vinnubrögð Bandaríkjastjórnar hafa leitt til, að óargadýrið Saddam Hussein er enn við völd í skjóli morðsveitanna í kringum hann. Ekkert bendir til, að hann sé fær um að læra eitthvað og gleyma einhverju. Hann byrjar umsvifalaust að framleiða ný vandamál.

Eftir ósigur Saddams Hussein í árárarstríðinu gegn Íran kom í ljós, að hann gat haldið fólkinu í landinu í skefjum, þótt mannfallið í herjum hans væri margfalt meira en það hefur orðið í árásarstríði hans gegn Kúvæt. Hann mun halda dauðahaldi í völd og ógnarstjórn.

Þjáningar Íraka munu því framlengjast um ófyrirsjáanlegan tíma. Ef Saddam Hussein verður hrakinn frá völdum, kemur til skjalanna annar herforingi, sennilega úr Ba’at stjórnmálaflokknum, sem er afar fjandsamlegur lýðræði og öðrum vestrænum hugmyndum yfirleitt.

Niðurstaðan af þessu verður, að engin markverð póli-tísk opnun verður í Írak eða við Persaflóa, en hins vegar verður borgið skammtíma olíuhagsmunum Vesturlanda og hagsmunum yfirstéttarinnar í afturhaldsríkjum svæðisins, þar á meðal emírsins í Kúvæt.

Ekki hafði fyrr verið unninn sigur á vígvellinum við Persaflóa en merki fóru að sjást um, að bandamenn mundu tapa friðnum. Það væri dapur endir á dýru stríði.

Jónas Kristjánsson

DV