Árlega óperuballið í Vínarborg í fyrradag var aðeins svipur hjá fyrri sjón. Erlend stórmenni Evrópu létu ekki sjá sig. Austurríkismenn urðu að sætta sig við bananakónginn Nursultan Nazarbayev frá Kazakhstan og Ludmillu Kuchma, eiginkonu bananakóngsins í Úkraínu.
Vestrænir stjórnmálamenn, sem áður höfðu tekið boðinu, drógu sig í hlé eftir stjórnarskiptin í Austurríki. Sama gerðu stórfyrirtæki, sem höfðu tekið á leigu óperustúkur fyrir rúma milljón króna stykkið. Catherine Deneuve og Claudia Cardinale neituðu að koma.
Yfirstéttin í Austurríki reytir hár sitt í örvæntingu. Sendiherrar landsins fá ekki lengur að taka þátt í matarboða-sirkusum utanríkisráðuneyta og fína fólksins á Vesturlöndum. Landið er í selskapslegri einangrun eftir innreið útvatnaðra nýnazista í ríkisstjórn.
Þótt ýmsir segi, að Evrópusambandið og ráðamenn í sumum vestrænum löndum hafi farið offari í viðbrögðum við stjórnarskiptunum í Austurríki, sjást engin merki þess, að frystingunni linni. Þvert á móti hefur hún fallið í fastan farveg, sem meðal annars lýsti sér á óperuballinu.
Á margan hátt er Austurríki hentugur blóraböggull. Nazisminn átti þar rætur sínar. Eftir stríðið spöruðu Austurríkismenn sér heilaþvottinn, sem Þjóðverjar tóku á sig. Austurríkismenn hafa aldrei horfzt í augu við fortíð sína, meðan Þjóðverjar hafa gert upp sakirnar við hana.
Flokkur Jörgs Haider er sem útvatnaður nýnazistaflokkur alvarlegra fyrirbæri en útvatnaður nýfastistaflokkur Gianfrancos Fini, sem komst um tíma í ríkisstjórn á Ítalíu. Ítalski fasisminn var mun vægara tilfelli en austurríski nazisminn og var til dæmis lítið fyrir kynþáttahatur.
Því er eðlilegt, að viðbrögðin við stjórnarskiptunum í Austurríki séu nú harðari en þau voru við stjórnarskiptunum á Ítalíu fyrir hálfum áratug. Þau snerta viðkvæmari strengi í stjórnmálalífi Evrópu, afstöðu almennings til innflytjenda frá fátækum og fjarlægum löndum.
Með frystingu Austurríkis eru vestrænir stjórnmálamenn og Evrópusambandið að senda skilaboð til almennings í eigin löndum. Verið er að segja öfgasinnuðum Belgum og Frökkum, Dönum og Þjóðverjum að gæta sín. Stuðningur við öfgaflokka geti skaðað viðkomandi þjóðir.
Eftir uppistandið út af öfgaflokki Haiders geta menn ekki lengur gamnað sér við, að taka megi vesturevrópska öfgaflokka í ríkisstjórnir. Gefið hefur verið fordæmi, sem ekki gefur mikið svigrúm til undanbragða. Flokkar kynþáttahaturs hafa varanlega verið settir í frystikistuna.
Vesturlönd verða jafnframt að taka á vandamálum, sem eru uppspretta fylgisaukningar slíkra flokka. Innflytjendur eiga víða erfitt með og vilja helzt ekki aðlagast nauðsynlegu lágmarki af siðum og hefðum þeirra þjóða, sem sýna þeim gestrisni. Þeir mynda undirheima, stundum hættulega.
Vesturlönd þurfa að verja miklu meiri orku og fé í að gera innflytjendum grein fyrir, hver sé lágmarksaðlögun að siðum og hefðum hvers umhverfis, og gera þeim kleift að öðlast þessa lágmarksaðlögun, til dæmis með starfsfræðslu, félagsfræðikennslu og tungumálanámi.
Með þessum fyrirvara verður ekki séð, að Evrópusambandið og ráðamenn ýmissa aðildarríkja þess séu á hálum ís í aðgerðunum gegn Austurríki. Þær takmarkast við selskapslíf og mannleg samskipti innan ríkjasambands, sem hefur æðri markmið en flokkur Jörgs Haider.
Aðgerðirnar gegn Austurríki voru ekki stundaræði, heldur markviss aðgerð á takmörkuðu sviði til að brjóta brýr að baki Vesturlanda í baráttu gegn kynþáttahatri.
Jónas Kristjánsson
DV