Svo virðist sem rétt hafi verið frétt þýzka fréttablaðsins Spiegel um, að Frakkland og Þýzkaland séu að undirbúa tillögu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um flugbann á flugher Íraks, þreföldun vopnaleitarmanna og þyrlur og hermenn þeim til aðstoðar. Þetta á að leiða til þess, að þeir finni ólöglegu vopnin, sem Bandaríkin fullyrtu með myndasýningu í öryggisráðinu, að Saddam Hussein væri að fela. Bandaríkin hafa þegar tekið tillögunni afar illa og kalla hana “fáránlega”. Klofningurinn í Atlantshafsbandalaginu er dýpri en nokkru sinni fyrr og verður tæpast læknaður úr þessu. Belgíumenn hafa tilkynnt, að þeir muni beita þar neitunarvaldi gegn því, að Tyrkjum verði sendur vopnabúnaður til að auðvelda þeim að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Í International Herald Tribune í dag segir Joseph Fitchett frá dauðateygjum Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin eru að reka sig á, að þau geta ekki farið með alla bandamenn sína eins og hunda.