Davíð er enn reiður

Punktar

Í átta síðna drottningarviðtali Morgunblaðsins við leiðtoga lífs þess kemur fram, að hann er enn reiður. Í viðtalinu bölsótast Davíð að venju út í nokkra helztu athafnamenn og fjölmiðla landsins. Hann hefur ekkert lært og engu gleymt við að segja af sér starfi landsföður í daglegri pólitík.

Við vitum, hvernig jámenn hoppa kringum sterka leiðtoga og reyna að lesa hug þeirra. Þannig hafa síkkófantar ævinlega hagað sér. Þannig hefur Davíð óbein áhrif á Björn Bjarnason, sem líka er gefinn fyrir hatur. Björn hefur svo óbein áhrif á hinn umsvifamikla Harald Johannessen ríkislögreglustjóra.

Í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins hafa valdamenn lengi verið gefnir fyrir refsingar. Þeim finnst, að refsa þurfi mönnum, sem haga sér ekki eins og til er ætlazt. Hinir refsiglöðu halda fundi á borð við fundi Styrmis, Kjartans og Jóns Steinars, þar sem skipulagðar eru refsiaðgerðir.

Kannski verður Geir Haarde fljótlega eins og Davíð. En til að byrja með hefur hann haldið sér til hlés í eltingaleik valdamikilla flokksmanna við valdamikla auðmenn og fjölmiðla úti í bæ. Vonandi er það merki þess, að meiri friður verði í þjóðfélaginu á hans valdatíma en verið hefur undanfarin ár.

Eftir dóm Hæstaréttar er kominn tími til, að menn nái sönsum og geti aftur farið að rífast um hefðbundna pólitík. Þjóðin vill fara að fá frið fyrir síkkóföntum og hatrinu mikla.

DV