Davíð og Gorbatsjov

Greinar

Davíð Oddsson hefur komizt að raun um, að erfiðara er að fást við lénsherrana í þingflokki sjálfstæðismanna en áður var að fást við liðsforingjana í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og að agaleysi þingflokksins getur líka hlaupið í hlýðinn borgarstjórnarflokk.

Davíð hefur rekið sig á kerfisbundinn vanda, sem á rætur í kjördæmaskipuninni. Efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í hverju kjördæmi má heita öruggur um þingsæti, hvað sem tautar og raular. Hann sækir vald sitt til kjördæmis, en ekki til flokksformanns.

Efsti maður á lista flokksins í hverju kjördæmi þarf helzt að skaffa, ef kjördæmið er ekki Reykjavík eða Reykjanes. Hann þarf að gæta þess, að kjördæmið verði ekki út undan, þegar úthlutað er herfangi hafnarsporða og skólahúsa. Það gerir hann traustan í sessi.

Þingmaðurinn þarf ekki að vera vinsæll meðal almennings í héraði. Hann þarf að hafa sæmilegt traust meðal helztu oddvita sinna heima í héraði og vera duglegur við að leysa vanda sveitarstjórna. Að öðru leyti þarf hann ekki að vinna sig í álit meðal kjósenda.

Sverrir Hermannsson var svo óvinsæll, að fylgishlutdeild Sjálfstæðisflokks á Austurlandi minnkaði kosningar eftir kosningar, meðan hann var efsti maður listans, og varð að lokum langminnst á landinu. Samt var hann traustur í sessi, varð ráðherra og síðan bankastjóri.

Þegar Sverrir var hættur, byrjaði fylgishlutdeild flokksins í kjördæminu að vaxa á nýjan leik. Hið sama gerist sennilega með fylgishlutdeild flokksins á Norðurlandi eystra, sem hefur minnkað undir forustu Halldórs Blöndal. Þegar hann hættir, fer fylgið aftur að vaxa.

Það var ekki Egill á Seljavöllum, sem var verðlaunaður með ráðherratign fyrir aukna fylgishlutdeild á Austurlandi. Það var Halldór Blöndal, sem fékk ráðherraverðlaun fyrir ósigur á Norðurlandi eystra og fyrir met í útstrikunum. Markaðslögmálin eru skrítin í pólitík.

Þingflokkur sjálfstæðismanna er fullur af svona smákóngum. Þeir réðu því, að andstæðingar Davíðs Oddssonar frá formannskjöri fengu þrjú ráðherraembætti af fimm, og að enginn stuðningsmaður Davíðs náði slíku embætti. Þingflokkurinn fór sínu fram gegn vilja Davíðs.

Smákóngar, sem sækja vald sitt heim í hérað, en ekki til flokksformanns, réðu því líka, að frambjóðandi formannsins til formennsku í utanríkismálanefnd féll fyrir fyrrverandi talsmanni flokksins í nefndinni. Hann fékk fimmtán atkvæði gegn ellefu atkvæðum hins.

Ofan á allt þetta á hinn nýi formaður afar erfitt með að standa við samkomulag við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Halldór Blöndal neitar að láta af hendi landgræðslu og skógrækt til hins nánast verkefnislausa umhverfisráðuneytis. Og við þessa neitun situr.

Í gömlum smákóngaklúbbi á borð við þingflokk sjálfstæðismanna gilda óskrifuð lögmál um starfsaldur og langvinna slípun í samstarfi smákónga. Í þessum hópi er hinn nýi formaður eins og hver annar nýliði, sem siða þarf og laga að venjum og háttum þingflokks.

Á sama tíma hefur losnað svo um tök formannsins á liði hans í borgarstjórn, að það neitar að samþykkja borgarstjóraefni hans. Því máli hefur nú verið skotið á frest, meðan reynt verður að sætta málið. Þegar kötturinn er farinn, bregða mýsnar á leik.

Valdasöfnun Davíðs minnir á Gorbatsjov í Sovétríkjunum, sem hleður á sig titlum, en fær samt ekki við neitt ráðið, því að ýmsir smákóngar ráða ferðinni.

Jónas Kristjánsson

DV