Deyja smátt og smátt

Greinar

Langt er síðan síðast voru teknar tímamótaákvarðanir um afstöðu ríkis og einstaklinga á Íslandi. Við höfum lengi búið við lítt breytta stöðu þess, sem sumir kalla velferð þjóðarinnar og aðrir kalla forsjá ríkisins. Við lifum í fátæklegri útgáfu af sænsku mynztri, sem hefur líkað vel.

Þrátt fyrir græðgisvæðingu þjóðarinnar virðist ekki vera mikill hljómgrunnur fyrir hörðu og grimmu mynztri að hætti Bandaríkjanna. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki, að minnsta kosti ekki sem þingflokkur, til að standa fyrir skilgreindri atlögu gegn velferðarkerfinu sem slíku.

Í staðinn gildir þúsund sára dauðinn. Höggvið er hér og þar í velferðarkerfið, dregið úr þjónustu Landsspítalans, komið á skólagjöldum við Háskólann og hækkuð hlutdeild foreldra í kostnaði við leikskóla. Í hverju tilviki fyrir sig er árásin skilgreind sem nauðsynlegt aðhald í rekstri ríkissjóðs.

Við vitum af öðrum dæmum, að nógir peningar eru til í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, svo sem vopnaðar sveitir grímumanna og eftirlaunahækkun forsætisráðherra. Alltaf eru einhver slík atriði ofar í forgangsröðinni en velferð eða forsjá. Þess vegna rýrnar velferðin frá ári til árs.

Hér er óafvitandi stefnt að velferðarkerfi hinna vel stæðu. Tannlækningar eru gott dæmi um það. Ef þú hefur ráð á að borga þinn hluta af tannviðgerðum barnanna, færðu mótframlag ríkisins. Ef þú hefur ekki ráð á að borga þinn hluta, fá börnin þín ekki tannlæknaþjónustu, aðeins “kostnaðarvitund”.

Lítið er af vel grunduðum skýrslum um þá kosti, sem eru í stöðunni, þegar innbyggð verðbólga þenur út kostnað velferðar, eins og greinilegast má sjá í sjúkrageiranum. Læknisfræðin getur alltaf meira og meira, sem kostar mikið fé. Við vitum ekki, hvort við höfum ráð á slíkum framförum.

Við megum ekki láta reka á reiðanum, heldur taka meðvitaða afstöðu til, hvað skuli gera mikið fyrir aldraða sjúklinga. Dæmigerð spurning er, hversu miklu fé megi verja til að halda fólki á lífi, sem ekki er mikils virði að lifa. Hvert má vera hlutfall lengingar ævitíma og kostnaðar við það?

Við verðum líka að ákveða, hvort þjóðfélagið vilji, að börnum fjölgi eða fækki. Barnafækkun er að verða mikið vandamál allt í kringum okkur. Eigum við að beita velferð til að draga úr gífurlegum kostnaði útivinnandi foreldra við að ala upp ríkisborgara og hvetja þannig til barneigna?

Í stað þess að takast á um erfiðar forsendur og komast að meðvitaðri niðurstöðu eins og oft var gert í pólitíkinni á síðustu öld, leyfum við kerfinu að deyja smátt og smátt.

Jónas Kristjánsson

DV