Dimmifjallgarður

Frá Fremri-Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði um Dimmafjallgarð til Grímsstaða á Fjöllum.

Þetta var aðalleiðin úr Vopnafirði til Gömlu-Grímsstaða á Fjöllum, áður en Grímsstaðir voru fluttir þangað sem þeir nú eru. Þetta er langur, óvarðaður og erfiður fjallvegur, sem oft hefur reynzt hættulegur. 10. febrúar 1874 fóru tveir menn af Hólsfjöllum austan úr Vopnafirði með hesta og æki á Dimmafjallgarð. Stórhríð brast á og urðu mennirnir úti. Fundust ekki fyrr en eftir tvær vikur. Stóð þá hesturinn yfir þeim með tauminn frosinn við jörð. Hann lifði af.

Byrjum við þjóðveg 915 í Vesturárdal við Fremri-Hlíð. Förum norðvestur upp á Vesturárdalsháls og síðan vestsuðvestur á Búrfell. Frá tindi Búrfells förum við vestur að Selá og vestsuðvestur með henni sunnanverðri. Förum vestsuðvestur þvert yfir Vegafjall og niður á Sléttasand. Þaðan áfram vestsuðvestur að Dimmafjallgarði og förum þar inn í Dimmagil og þaðan vestur um Selárbotna og fyrir norðan Svartfell og Einbúa. Áfram vestur yfir fjallgarðinn að Bæjargróf á Fjöllum. Síðan norðnorðvestur um Viðarlandsbrekkur að Grímsstöðum á Fjöllum.

55,4 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Vopnafjörður, Haugsleið, Heljardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort