Djúpavík

Veitingar

Á ferðum um Ísland er tryggastur hinn gamli siður að hafa með sér tjald og prímus og ótryggastur hinn enn eldri siður að stanza hjá veitingastöðum við þjóðveginn. Þar er samkeppnin lítil og meðferð ferðamanna harkalegust. Flestir veitingastaða í þjóðbraut sérhæfa sig í illa matreiddu ruslfæði á hærra verðlagi en er á vandaðri ruslfæðisstöðum í Reykjavík.

Ástríða eða atvinnubót

Önnur ferðaþjónusta á landsbyggðinni er mörg hver ekki upp á marga fiska, enda oftar orðin til af handafli en ástríðu. Menn lesa og heyra, að búgreinar nútímans séu refaeldi, laxarækt og ferðaþjónusta, og í vali milli þessara kosta ræður kylfa kasti. Þannig verður niðurstaðan oft meira í ætt við atvinnubótavinnu en athafnamennsku.

Í umbúnaði ferðaþjónustu ráða heimavistarskólarnir ferðinni. Of margir þeirra, einkum hinir eldri, hafa verið innréttaðir og búnir húsgögnum eins og fangelsi eða hæli. Hin mannfjandsamlegu sjónarmið koma skýrt fram í sjúkrahúshvítum veggjum, óhóflegri notkun einföldustu stál- og plasthúsgagna, of stuttum og mjóum rúmum og skorti á leslömpum við höfðagafla, svo að dæmi séu nefnd. Svefnherbergi eru kuldaleg og borðsalir beinlínis frystikistulegir. Þetta þurfa aumingja skólabörnin að þola á veturna, en ferðamenn ekki endilega á sumrin.

Þar sem gisting af ýmsu tagi er rekin af heimafólki í atvinnubótavinnu, má víða reikna með góðlátlegu getuleysi. Leita þarf uppi fólk til að fá sundlaugar opnaðar á auglýstum opnunartíma. Tímaskyn er víða af skornum skammti, einkum á morgnana. Dæmi hef ég um, að morgunverður hafi fyrst verið tilbúinn klukkan hálftíu.

Annars er morgunmatur öruggasta máltíðin úti á landi, því að hann er bara að litlu leyti eldaður. Þó er algengast, að egg séu soðin, unz þau verða græn. Og nú eru farnar að sjást frá Sláturfélaginu blautar og grunsamlegar þynnur, sem kallaðar eru “fitulítið hangikjöt”.

Miklir eldunartímar eru einkennisatriði matreiðslu utan allra stærstu þéttbýlisstaða. Kjöt og fiskur verða hart úti. Nákvæmni í eldunartíma er framandi fólki í ferðaþjónustu á stórum svæðum úti á landi. Þá virðist einnig algengt, að súpur séu taldar því betri, sem meira hveiti er í þeim. Niðurstaðan getur verið ótrúlega fráhrindandi.

Vinalegt hótel

Eftir hálfs annars klukkutíma akstur um óbyggða strönd frá Bjarnarfirði norður Strandir til Djúpuvíkur má búast við öllum ofangreindum vandamálum, því að engin er samkeppnin á svæðinu. Engra kosta er annarra völ en hótelsins í hinum gamla kvennabragga síldarverksmiðjunnar. Þeim mun ánægjulegra er að uppgötva þar eina af undantekningunum, sem sanna reglurnar, er hér hafa verið settar fram.

Hótelið er vinalegt að innan sem utan. Sjálf byggingin er ekki ríkmannleg, enda upphaflega reist sem verbúð. Trégólfin eru einkar fátækleg. En húsbúnaðurinn bætir þetta upp. Í borðsalnum eru þægileg nútímahúsgögn og skemmtilegir forngripir á borð við stóra kolaeldavél. Lúinn stigi liggur upp á loft, þar sem notalegum húsgögnum hefur verið komið fyrir í nokkrum svefnherbergjum fyrir gesti. Þarna búa Ásbjörn og Eva með börnum sínum og hafa rekið hótel í þrjú ár.

Djúpavík er svo sem engin Mekka í matargerðarlist, en forðast þó helztu galla íslenzkrar strjálbýlismatreiðslu. Maturinn er betri en víðast hvar við þjóðveginn. Við prófuðum steiktan þorsk, steiktar hakkbollur og steiktar lambakótilettur, allt saman sómasamlegt.

Skemmtilegast var, að staðurinn bauð upp á nýja alvörumjólk úr kú af næsta bæ í stað hinnar gömlu og fúlu, fitusprengdu og gerilsneyddu verksmiðjumjólkur, sem Íslendingar verða að þola. Þetta er sérstætt, því að víðast hvar úti á landi er mjólk flutt aðra áttina af sveitabæjum langar leiðir í ostagerð og hina áttina er svo flutt enn lengri leiðir verksmiðjumjólk frá Reykjavík eða Akureyri.

Dulrænn staður

Djúpavík er sérkennilega dulrænn staður vegna samspils náttúrunnar og hins mikla kastala síldarbræðslunnar gömlu. Þaðan eru líka skemmtilegar gönguleiðir, til dæmis út ströndina til hins gamla kaupstaðar í Kúvíkum. Einnig er akvegur áfram norður til Trékyllisvíkur, þar sem er ein af elztu timburkirkjum landsins, afar vönduð rekaviðarkirkja, sem nú er verið að sýna sóma í viðhaldi, gegn vilja sóknarnefndar og vinar míns, Guðmundar P. Valgeirssonar. Nálægt vegarenda á ströndinni rétt norðan Norðurfjarðar er fræg sundlaug í sjávarkambi Dumbshafs. Frá vegarenda sést í góðu skyggni til hinna mögnuðu Drangaskarða.

Þótt Djúpavík sé á mörkum eða handan marka hins byggilega heims og vegurinn lokaður meirihluta ársins, er hótelið rekið allt árið, enda stutt til flugvallar á Gjögri, þangað sem flogið er tvisvar í viku. Í Djúpuvík er berjaland, rjúpnaland og skíðagönguland, svo og sjóstangaveiði. Íslenzkir ferðamenn eru rétt að byrja að átta sig á tilveru þessa alvöruhótels, sem er svo þægilega ólíkt þeim, er ferðamenn á Íslandi þurfa yfirleitt að þola.

Munurinn er, að hótelreksturinn í Djúpuvík er ekki atvinnubótavinna, heldur ástríða.

Tveggja manna herbergi kostaði 1.900 krónur, morgunverður 360 krónur, þorskur 550 krónur, hakkbollur 650 krónur, lambakótilettur 740 krónur og kaffi eftir mat 60 krónur. Síminn er 95-3037.

Jónas Kristjánsson

DV