Do do í sandkassanum.

Greinar

Ráðherrar eru nú farnir að haga sér eins og börnin í sandkassanum, líkt og gerðist, þegar Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn sátu saman í síðustu vinstri stjórn. En nú eru það Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn.

Á sínum tíma mátti deila um það, hvort ósættið væri meira Alþýðubandalaginu eða Alþýðuflokknum að kenna. En í báðum tilvikum er Alþýðubandalagið annar málsaðilinn, svo að böndin hljóta að berast að því sem óhæfum stjórnaraðila.

Sérstaklega er það Hjörleifur Guttormsson orkuráðherra, sem nú hefur misst ráð og rænu við að sjá Ólaf Jóhannesson utanríkisráðherra komast upp með að halda áfram undirbúningi að smíði olíugeyma hersins í Helguvík.

Almenna verkfræðistofan hafði tekið að sér þætti hönnunarinnar, þar á meðal töku jarðvegssýnishorna. Á miðvikudaginn var samdi stofan við Orkustofnun um afnot af jarðbor í hálfan annan mánuð í þessu skyni.

Á föstudaginn lét orkuráðherra svo stöðva málið í bili eða að minnsta kosti fram yfir næsta fund í ríkisstjórninni. Þar hyggst hann þrasa með Svavari Gestssyni félagsmálaráðherra um, að þetta sé skipulagsskylt mál.

Á meðan mun hinn bandaríski aðalverktaki fá bor að utan til að framkvæma þennan þátt verksins. Og Almenna verkfræðistofan kannar, hvort höfða beri mál gegn Orkustofnun fyrir samningsrof, ef orkuráðherra situr áfram í sandkassanum.

Það sem eftir mun sitja af framtaki Hjörleifs er, að innlendur rannsóknaraðili víkur fyrir erlendum. Ekki fær hann Ólaf Jóhannesson til að gefa eftir í málinu, svo mjög sem Ólafur hefur mátt þola skítkast Alþýðubandalagsmanna.

Allt er þetta í “fresta og stöðva”-stíl orkuráðherra, sem hefur haft meira dálæti á skriffinnsku en framkvæmdum, allar götur síðan hann sendi Landsvirkjun bréfið með fyrirspurninni um, hvort ekki mætti fresta virkjun Hrauneyjarfoss.

Hingað til hefur Alþýðubandalagið virzt átta sig á, að það hefur innan við 20% fylgi þjóðarinnar og getur því ekki ráðið ferðinni í málum hersins, þar sem hinir flokkarnir og kjósendur þeirra eru saman á öðru máli.

En það er eins og Hjörleifur og Svavar Gestsson séu ekki nógu lífsreyndir til að átta sig á þessum einfalda hlutfallareikningi. Þeir brjótast um hart, alveg eins og samstarfið í ríkisstjórn skipti þá engu máli.

Ólafur Jóhannesson hefur bæði í Helguvíkurmálinu og flugskýlamálinu gætt þess að auka ekki umsvif varnarliðsins og þar með haldið sér við þann ramma, sem samkomulag er um, að gildi, meðan Alþýðubandalagið er í ríkisstjórn.

Samt hafa ráðherrar Alþýðubandalagsins samspil um, að Svavar Gestsson segi Helguvíkina skipulagsskylda og Hjörleifur Guttormsson segi Orkustofnun ekki mega flækja sig inn í mál, þar sem brotin kunni að vera skipulagsskylda.

Allt eru þetta tilraunir til að koma í veg fyrir eða tefja að minnsta kosti þessar framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Ólafur Jóhannesson telur réttilega, að þeir félagar hafi seilzt of langt, og heldur því ótrauður áfram.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra segir mál þetta ekki munu valda stjórnarslitum. Eigi að síður hljóta fíflalætin í sandkassanum að valda nokkurri eitrun í stjórnarsamstarfi, sem að öðru leyti hefur haldizt nokkuð gott.

Jónas Kristjánsson.

DV