Dómstólaráð er ung stofnun, skipuð dómurum, sem hefur reynt að draga úr aðgangi almennings að dómum. Það er liður í víðtækri tízku meðal valdamanna í kerfinu að slá slæðu yfir gangverk ríkisins, draga úr gegnsæi þess og þar með minnka lýðræðið. Fyrirbærið Persónuvernd fer þar fremst í flokki.
Dómstólaráð gerir það með því að setja nýjar reglur um, að héraðsdómstólar skuli nota heimasíðu ráðsins til að birta dóma í útvötnuðu formi, þar sem felld séu út nöfn og önnur atriði, sem mestu máli skipti. Þetta er afsakað með því, að Pétur og Páll hafi ekki þroska til að hafa aðgang að netinu.
Þessar nýju reglur hafa komið til framkvæmda hjá Héraðsdómi Vestfjarða, sem túlkar þær á þann hátt, að þrengingin, útstrikanirnar, niðurfelling nafna og annarra markverðra upplýsinga, gildi líka um fjölmiðla. Héraðsdómur Norðurlands eystra vísar blaðamönnum á skammstafanir á heimasíðu sinni.
Auðvitað reyna blaðamenn að fá þessar upplýsingar með öðrum hætti. Þeir hafa lítið gagn af að vita, að sökudólgurinn NN hafi í götunni PP fyrir framan húsið RR tekið upp hlutinn SS og notað hann til að skaða TT. Frá sjónarmiði blaðamanna er ný reglugerð Dómstólaráðs alvarleg tilraun til meinsemi.
Nú er það spurning, hvaðan Dómstólaráði og héraðsdómum á landsbyggðinni kemur réttur til pólitískrar ákvörðunar um að minnka gegnsæi í dómakerfinu, um að stefna í þá átt, að dómar verði leynilegt samtal milli dómara og málsaðila. Er hægt að taka slíka prinsípákvörðun í einfaldri reglugerð?
Auðvitað eiga Dómstólaráð og héraðsdómstólar ekki að hafa vald til að setja séríslenzkar reglur um aukinn hjúp leyndar yfir dómum, reglur sem eiga sér hvorki stoð í lögum eða stjórnarskrá né í sams konar gögnum ríkja, sem búa við hliðstætt þjóðskipulag, það er að segja lýðræði og gegnsæi.
Vekja þarf athygli stjórnmálaafla, sem eiga að stjórna þessu og verja lýðræðið, að óviðeigandi stofnanir í kerfinu eru kerfisbundið að vinna gegn helztu hornsteinum lýðræðis, einkum gegn því gegnsæi, sem á síðari árum hefur í auknum mæli verið talið vera mikilvægasti hornsteinn lýðræðis.
Því miður er þetta ekki tilviljun. Valdaaðilar í kerfinu, svo sem héraðsdómarar, telja henta sér, að almenningur fái sem minnst að vita um, hvað þeir eru að bralla í vinnunni.
DV