ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir og Árni Mathiesen ráðherrar slettu 150 milljónum króna í víkingasetur í Reykjanesbæ, þótt slíkt setur sé á fullu í Hafnarfirði, einkarekið. Nær hefði verið að efla víkingaferðaþjónustu í Hafnarfirði.
ÞETTA KALLAR á fjárfestingu einkaaðila í Reykjanesbæ í samkeppni við fjárfestinguna í Hafnarfirði og rýrir verðgildi fjárfestingarinnar á síðari staðnum. Ráðherrarnir eru að nota ríkið til að trufla gangverk einkaframtaksins.
ÞEGAR ÞORGERÐUR Katrín kemur með tíu þumalputta og fjögur handabök inn á markaðinn, er það auðvitað ekki frjálshyggja og ekki heldur markaðshyggja. Það er gamla ríkisforsjáin, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur raunar rekið frá ómunatíð.
EF RÍKIÐ HEFUR ráð á að sletta 150 milljónum í víkingaþátt ferðaþjónustunnar, áttu peningarnir auðvitað að fara á þann stað, sem kominn var fyrir löngu í gang, í Hafnarfjörð. Þar eiga að koma innviðir, sem einkaframtakið ræður illa við.
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN hefur margsannað, að hann er ekki flokkur einstaklingsframtaks, heldur flokkur embættismanna, sem taka ríkisforsjá fram yfir einkaframtak. Afskipti ráðherranna eru skýrt dæmi um þennan hornstein flokksins.
ERFITT ER AÐ flokka þessa stefnu flokksins. Hún er ekki beinlínis kommúnismi og ekki heldur beinlínis fasismi, þótt hún fari nálægt hvoru tveggja. Þetta er sérstök ríkisdýrkun, sem hefur verið einkenni yfirstéttar landsins um aldabil.
HITT ER SVO athugunarefni, hvort ríkisdýrkunin sé ekki í þessu máli blönduð dómgreindarskorti. En kannski gleyma Hafnfirðingar fljótt kveðjunni frá ráðherrunum. Það væri Hafnarfjarðarbrandari.
DV