Aldrei er friður fyrir kerfiskörlum, sem vilja stýra fólki og láta það standa og sitja eins og þeir vilja. Dómstjórinn í Reykjavík er einn þeirra og vill núna leggja niður gamla hefð um ljósmyndir og kvikmyndir á göngum dómhúsa og fyrir utan dómhús. Sú hefð er eins gömul og ljósmyndavélin sjálf.
Í sjálfu sér er ekki ástæða til að taka mark á Helga Jónssyni dómstjóra. Hann er forvígismaður hóps, sem má muna fífil sinn fegurri. Um langt skeið hefur safnast upp í embættum héraðsdómara skrautlegt lið, sem ekki getur unnið fyrir sér í atvinnulífinu og gefur út dóma í þeim stíl.
Héraðsdómur Reykjavíkur er frægastur fyrir andstöðuna við, að yfirheyrslur yfir börnum fari fram í Barnahúsi, þar sem þau eru í vernduðu umhverfi. Helgi Jónsson og félagar heimta að fá börn í nauðgunarmálum niður á Lækjartorg í það kalda og ómanneskjulega umhverfi, sem þeir hafa komið þar upp.
Einna þekktasti dómarinn er Pétur Guðgeirsson, sem upp á síðkastið setur ljósmyndafælni inn í dómsorð sín. Fyrsta tilefni hans var, þegar Ástþór Magnússon réðst með tómatsósuflösku að ljósmyndara á gangi héraðsdóms. Hefði þó staðið dómaranum nær að gagnrýna skrítið framferði Ástþórs.
Dómarar eiga við fjölmörg önnur vandamál að stríða. Sumir þeirra telja, að barsmíðar á eiginkonum séu eðlileg afleiðing þess, að þær reiti eiginmenn sína til reiði. Aðrir telja nauðganir, barsmíðar og annað ofbeldi eðlilegan gang lífsins, svo framarlega sem um undirstéttir sé að ræða.
Dómarar eru teknir upp á því að falsa dómblöð, sem gefin eru út um málflutning hvers dags. Farið er að sleppa málum, sem talið er, að blaðamenn hafi áhuga á ,og sleppa nöfnum í öðrum málum af því tagi, jafnvel þótt um opin réttarhöld sé að ræða. Þess vegna þurfa blaðamenn núna að vakta dómsali.
Auðvitað fylgir slíku meira áreiti en ella, en dómstjórar geta sjálfum sér um kennt. Auk þess komast þeir ekki hjá því að átta sig á, að allt áreiti í þjóðfélaginu er meira en áður, bílar eru fleiri, tímahrakið meira, málaferli fleiri og fjölmiðlarnir fleiri. Ekki er hægt að banna tímans rás.
Skoðun dómstjórans í Reykjavík er alvarleg, þótt hún sé ekki málefnaleg. Hún felur í sér tillögu til viljugra kerfiskarla um að semja og láta samþykkja frumvarp um bann við hefð.
DV