Hæstiréttur er orðinn skotspónn sérstakrar ádeilubókar eftir þekktan lögmann, auk fyrri gagnrýnisgreina í tímaritum lögfræðinga og laganema. Ennfremur hafa fimm saksóknarar sent dómsmálaráðherra bréf og kvartað yfir ruglingslegum hæstaréttardómum.
Hæstiréttur er ekki eini skotspónninn í réttarkerfi Íslands. Um þessar mundir er rekið mál gegn því fyrir mannréttindadómstóli Evrópuráðsins í Strasbourg. Ennfremur ríkir vaxandi óánægja með stjórnleysi og seinagang hjá Borgardómi og Sakadómi í Reykjavík.
Samanlagt segir allt þetta þá sögu, að taka megi til hendinni í réttarkerfinu. Sumpart þarf að setja lög, til dæmis um aðskilnað stjórnsýslu og dómsvalds. Einnig verða dómstólar að bæta starf sitt innan ramma núgildandi laga, einkum með því að vinna meira og hraðar.
Borgardómur og Sakadómur bera stundum svip bandalags smákonungsríkja. Sumir dómarar virðast ekki nenna að vinna neitt að ráði og komast upp með að liggja á einstökum málum langt umfram hefðbundinn tíma. Yfirmenn þeirra þykjast engu ráða um þetta.
Ef allir dómarar ynnu verk sín af samvizkusemi og hóflegum dugnaði og væru skemur í kaffi, má fullyrða, að enginn umtalsverður málahali væri stíflaður hjá dómstólum landsins. Gera þarf yfirmönnum dómstóla kleift að aga doðnu dómarana eða losa sig við þá.
Það er líka doði, en ekki fyrirlitning á mannréttindum, sem veldur því, að Ísland er dregið fyrir dómstól Evrópu. Dómsmálaráðuneytið hefur einfaldlega ekki nennt að hafa frumkvæði að lagafrumvörpum um aukinn skilnað framkvæmda- og dómsvalds í landinu.
Hinar skammarlegu fréttir frá Strasbourg hafa knúið ráðuneytið til bragarbótar. Gera má ráð fyrir, að á þessu þingi verði sett lög, sem samræmi íslenzka kerfið vestrænum mannréttindahefðum. Hinn nýi ráðherra hefur lagt áherzlu á, að þessi merki árangur náist.
Hugsanlegt er, að doðinn, sem hér hefur verið nefndur, setji einnig svip á Hæstarétt. Hinn fátæklegi rökstuðningur réttarins fyrir dómum sínum getur hreinlega stafað af, að dómararnir nenni ekki eða telji sig ekki hafa tíma til að fara ofan í svokölluð smáatriði.
Forseti Hæstaréttar er ekki sannfærandi, þegar hann heldur fram, að ekki þurfi að fjalla um allar hliðar málsins, ef dómstóllinn telur, að ein málsástæða nægi til að komast að niðurstöðu. Í löndum eins og Bandaríkjunum og Noregi eru ítarleg rök talin nauðsynleg.
Enn síður er traustvekjandi, er forseti Hæstaréttar segir dæmin um óhóflega hollustu dómstólsins við ríkisvaldið vera of ný til að vera marktæk um 67 ára sögu hans. Vandinn er ekki sagnfræðilegur, heldur lifandi vandi, sem brennur á þjóðfélaginu þessa dagana.
Hitt má svo segja Hæstarétti til málsbóta, að hann hefur á síðari árum ekki haft eins mikla tilhneigingu til að draga taum ríkisvaldsins og hann hafði fyrr á árum. Á þetta hafa bent sumir þeir, sem hafa fjallað um ádeiluna á Hæstarétt og viðbrögð forseta réttarins.
Umræðan í þjóðfélaginu á öndverðum þessum vetri um vandamál í réttarkerfinu hefur verið nytsamleg og mun áreiðanlega leiða til endurbóta í mörgum eða jafnvel flestum þáttum þess. Það sýnir, að þjóðin hefur burði til að koma lýðræði sínu í sómasamlegt horf.
Annmarkarnir eru fæstir kerfisbundnir, heldur stafa fyrst og fremst af doðanum, sem löngum hefur einkennt dómsmálin í landinu, dómstólana og einstaka dómara.
Jónas Kristjánsson
DV