Ítrekað finnur ríkisstjórnin leiðir gerræðis til að sauma að góðu regluverki. Nýja uppfinningin er landsréttur milli héraðsdómstóla og hæstaréttar. Samkvæmt frumvarpinu má innanríkisráðherra skipa dómarana án þess að dómnefnd hafi áður raðað umsækjendum í hæfnisröð. Alvarlegt frávik frá regluverki nágrannaríkja. Afturför til fyrri alda, þegar pólitíkin átti dómstólana. Um þetta segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipun: „Ráðherra er í þessum drögum, sem nú liggja fyrir, veitt raunverulega algjörlega óheft pólitískt vald til að ákveða hvern hann skipar í dómaraembætti. Og með þessu tel ég vera horfið langt aftur til fortíðar, til tíma pólitískra embættisveitinga í dómskerfinu.“