Hér á landi gætir þeirrar skoðunar eins og víða annars staðar, að dónaskapur á netinu og þá sérstaklega á vefnum sé alvarlegt mál, sem þurfi að bregðast við með einhverjum hætti. Hefur meðal annars verið lögð fram á Alþingi ályktunartillaga um meiðyrði á netinu.
Þegar fjallað er um þessi mál, er gott að gera greinarmun á samgöngutækjunum annars vegar og samgönguleiðinni og tækninni að baki samgöngutækjanna hins vegar. Þetta má skýra af dæmum af öðrum sviðum samgangna, sem geta verið dónaleg og ofbeldishneigð.
Vegakerfi landsins er notað af glæpamönnum á leið þeirra til dóna- og ofbeldisverka og frá þeim. Engum dettur í hug að kæra Vegagerðina fyrir þessa hættulegu notkun vegakerfisins, né heldur dettur nokkrum í hug að kæra framleiðendur bíla fyrir sama athæfi.
Pósturinn er gamalkunnug samgönguleið dónaskapar og ofbeldisáráttu. Menn senda frá sér alls kyns póst, bæði til þeirra, sem vilja fá slíkan póst, og til hinna, sem kæra sig ekkert um hann eða eru honum jafnvel andvígir. Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun.
Síminn hefur frá upphafi verið notaður af glæpamönnum til að skipuleggja verk sín. Ennfremur er hann töluvert notaður af ýmiss konar geðbiluðu fólki til að koma á framfæri sjúkleika sínum, til dæmis til starfsmanna Þjóðarsála af ýmsu tagi og annarra, sem hlusta vilja.
Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun símans. Menn geta hins vegar kært Þjóðarsálir og starfsmenn þeirra fyrir að ritstýra ófögnuðinum út í ljósvakann. Og menn geta kært beint þá geðbiluðu, ef þeir hringja með ófögnuðinn í þá, sem vilja ekki hlusta á hann.
Pappír hefur öldum saman verið ein merkasta samgönguleiðin. Hann er notaður af alls konar fólki til að skrifa alls konar hluti, suma dónalega eða ofbeldishneigða. Sumt af þessu er fjölritað með ýmsum hætti og jafnvel prentað og fer í tímarit, blöð og bækur.
Pappírnum eða framleiðendum hans er ekki kennt um misnotkun hans, né heldur framleiðendum fjölritunar- og prentunartækja. Það er ekki fyrr en einhver fer að fjölfalda dónaskapinn og dreifa honum, að unnt er að gera einhvern ábyrgan, ritstjóra eða útgefanda.
Filmur og myndbönd eru mest notuðu samgönguleiðirnar til að koma á framfæri dónaskap. Ábyrgðin á því efni liggur hjá framleiðendum kvikmynda og dreifingaraðilum, en ekki í samgönguleiðunum, sem þeir nota, hvorki filmum og myndböndum né ljósvakanum.
Þegar til sögunnar kemur ný samgönguleið, til dæmis netið og sú sérstaka hlið þess, sem kölluð er vefurinn, er skynsamlegt að átta okkur á, að þetta er bara samgönguleið og sem slík ekki ábyrg fyrir innihaldinu. Það er ekki einu sinni, að menn sendi neitt á vefnum.
Eðli vefsins er, að efnið liggur í tölvum manna hér og þar um heiminn. Til þess að fá dónaskapinn til sín verða menn að sækja hann á vefnum inn í tölvur annarra. Dreifingin er af völdum viðtakenda en ekki framleiðanda. Þeir deila því með sér ábyrgðinni á athæfinu.
Það erfiða í þessu eins og í annarri fjölmiðlun er, að foreldrar geta ekki stýrt notkun barna sinna, þegar þeir eru ekki viðlátnir. Börn ná því í dónablöð og dónaspólur, opna dónapóst, hlusta á dónasímalínur, kveikja á dónarásum sjónvarps og sækja dónaskap á neti og vef.
Til úrbóta er bezt að framleiða hugbúnað í tölvur, síma og sjónvarpstæki, sem gerir foreldrum kleift að grisja dónalegt efni, þannig að það komist síður þar í gegn.
Jónas Kristjánsson
DV