Santa Maria della Salute
Santa Maria della Salute er skrautleg hlaðstílsterta úr hvítum kalksteini, hönnuð af Baldassare Longhena, reist 1631-1687. Hún stendur á bezta stað, við austurodda Dorsoduro hverfis, þar sem Canal Grande mætir Feneyjalóni, og blasir við úr öllum áttum. Hún er áttstrend og ofhlaðin skrauti, með sextán risavöxnum bókrollustoðum á þaki.
Að innanverðu er kirkjan hófsamlegri. Hún hefur að geyma altaristöflu og loftmálverk eftir Tiziano og verk eftir fleiri kunna listamenn, svo sem Jacopo Tintoretto. Steinfellugólfið er óvenjulega fallegt, með ýmsum tilbrigðum í hringlaga mynztri.
Baldassare Longhena var einn helzti hlaðstílsarkitekt F
eneyja á 17. öld. Hann hannaði líka höllina Ca’Pesaro og byrjaði á Ca’Rezzonico.
San Gregorio
Við göngum beint inn í hverfið vestan við kirkjuna. Af kirkjutorginu förum við á trébrú milli San Gregorio kirkju og klausturs.
San Gregorio eru leifar voldugs klausturs heilags Gregoríusar, sem lagt var niður fyrir löngu. Kirkjan er einföld og látlaus múrsteinskirkja í gotneskum stíl.