Dragnótin blífur.

Greinar

Eitt hatrammasta deilumál á Faxaflóasvæðinu er hin langvinna trúarbragðastyrjöld um, hvort leyfa skuli dragnót í flóanum. Fá mál hafa framkallað annan eins tilfinningahita árum saman af beggja hálfu í umræðum.

Dragnótarmenn hafa síðustu árin verið að síga á, eftir fyrra bann við þessari veiði. Í fyrra heimilaði Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra tveimur fiskvinnslustöðvum að gera út samtals fimm báta á skarkola í Faxaflóa.

Vertíðin stóð frá 1. júlí fram í nóvember, stunduð af gömlum og afllitlum bátum sem nýttust vel til veiða af þessu tagi. Aflinn varð um 1100 tonn eða svipaður og talinn hafði verið hæfilegur og veitti um 100 manns atvinnu.

Enn hafa risið úfar með mönnum, er sjávarútvegsráðherra reynir að fá alþingi til að samþykkja endurtekningu tilraunarinnar frá í fyrra. Ljóst virðist, að frumvarpið nái fram að ganga gegn harðvítugri andstöðu nokkurra þingmanna.

Helzta orsök óbeitar margra á dragnót er, að fyrr á árum voru stundaðar taumlausar veiðar með smáriðnum dragnótum á grunnslóð. Komst þá á kreik trúarsetningin um, að dragnótin rótaði upp botninum og spillti miðunum.

Nú er hins vegar miðað við 155 millimetra möskva og veiðar á takmörkuðu svæði undir vísindalegu eftirliti Hafrannsóknastofnunar. Slíkt úthald er gerólíkt því, sem varð svo óvinsælt fyrr á árum, að leiddi til veiðibanns.

Fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa um langt skeið verið sannfærðir um, að dragnótin væri létt og meinlaust veiðarfæri, sem gerði okkur kleift að nýta skarkolann, einn af sárafáum vannýttum fiskistofnum við landið.

Skarkolinn, sem margir þekkja betur sem rauðsprettu, er einhver mesti herramannsmatur, sem hér er dreginn á land, einkum á vertíðartímanum síðari hluta sumars og haust. Skyldur honum og ekki síðri matfiskur er sólkolinn, sem ekkert er veiddur.

Af ýmsum ástæðum hefur okkur reynzt erfitt að gera rauðsprettuna verðmæta til útflutnings. Hún hefur tapað sér í frystingu og ekki gefið nema brot af því verði, sem útlendingar hafa greitt fyrir hana ferska af heimaslóðum.

Samt er reiknað með, að veiðin og vinnslan í fyrra hafi staðið undir sér og muni gera það áfram, ef ekki verður lagt í fjárfestingu til afkasta langt umfram þörf. Og það ætti að mega tryggja með varfærnu frumvarpi sjávarútvegsráðherra.

Hitt væri svo óneitanlega spennandi, ef unnt væri að koma skarkola og sólkola ferskum í flugi á erlendan markað. Vegna óvenjumikils verðmunar á þessum fiski í fersku og frystu ástandi, ætti hér að vera verðugt viðfangsefni fyrir framtakssama.

Fáránlegt er, að andstæðingar dragnótar geti talað um herramannsmatinn sem skít, er sé aðeins tækur í gúanó. Sé svo, hlýtur pottur að vera brotinn einhvers staðar í veiðum, vinnslu eða dreifingu. Það er bara verkefni til að leysa.

Þegar skarkolafræðingar og veiðarfærafræðingar Hafrannsóknastofnunar þykjast vera búnir að fullreyna, að óhætt sé að veiða skarkola í dragnót í Faxaflóa, er kominn tími til að slíðra sverð og láta af trúarbragðadeilum.

Um leið er nauðsynlegt að fara varlega í undanþágum og beita ströngu eftirliti, svo ekki verði í þessum veiðum gerð nein mistök í líkingu við þau, sem gerð hafa verið við veiðar í suma aðra stofna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið