Draumaverksmiðjur

Greinar

Vinsældir kvikmyndarinnar, sem flestir hafa séð í vetur, eru í beinu samhengi við auglýsinga- og markaðskostnað hennar. Titanic sýnir, að langdregin miðlungskvikmynd getur rakað saman peningum og jafnvel hlotið ótal Óskarsverðlaun, ef áróðurinn tekst vel.

Þekking og tækni ímyndarfræðinga, markaðsfræðinga og auglýsingafræðinga í að villa um fyrir fólki eykst hraðar en þekking og geta fólks til að vernda sig gegn atvinnumönnunum. Í vaxandi mæli stjórna fagmenn kauphegðun og neyzluvenjum fákæns almennings.

Stjórnendur draumaverksmiðjanna í Hollywood hafa löngum haft forustuna. Framarlega eru einnig atvinnumenn gosdrykkjamerkja, sem hafa náð ótrúlegri tækni við að tengja koffínblandað sykurvatn við alls konar óskyld atriði, sem ungt fólk sækist eftir.

Frægt er, að Íslendingar hafa löngum fallið einu sinni á ári fyrir fótanuddtækjum, segularmböndum og öðru slíku, sem reynist vera gersamlega gagnslaust, þótt flest sé það ekki beinlínis skaðlegt eins og koffínblandaða sykurvatnið, sem er raunar hættulegt fíkniefni.

Ef litið er í innkaupakörfur fólks í stórmörkuðum, má sjá óeðlilegar neyzluvenjur, sem stýrt er af ímyndar-, markaðs- og auglýsingafræðingum. Fólk kaupir rándýrar vörur á borð við tilbúna rétti óæta, en sniðgengur flest það, sem bragðgott er og heilsusamlegt.

List atvinnumannanna felst einkum í að tengja óskyld atriði. Með auglýsingum er notkun vöru eða þjónustu tengd ýmsum óskyldum lífsgæðum, sem markhóparnir sækjast eftir, félagsskap, vináttu, ást, kynlífi, hamingju, öryggi, auði, fríi, sólskini, valdi og virðingu.

Hástigi nær þetta í töfraorðunum “it’s the real thing”, sem hafa megnað að telja fólki trú um, að hin hreina ímyndun sé hinn hreini raunveruleiki. Milljónir ungmenna um allan heim hlaupa eftir hljóðpípu rottufangarans, sem bjó til þessa vel heppnuðu þverstæðu.

Síðustu misserin hefur tækni tryggðarbanda haldið innreið sína hér á landi. Með ýmsum girnilegum tilboðum er fólk fengið til að halda tryggð við ákveðna vöru eða þjónustu, sem annað hvort er dýrari en sambærileg vara og þjónusta eða óþörf með öllu.

Þúsundir Íslendinga hafa fallið fyrir tryggðarkortum og ganga fyrir þeim, þótt almenningur hafi haft greiðan aðgang að málflutningi með þeim og gegn. Það gildir raunar um flesta tækni á þessu sviði, að fólk hefur aðgang að upplýsingum gegn moldviðrinu.

Allt skiptir þetta máli, því að fólk hamast við að vinna fyrir hinum ímynduðu lífsgæðum og ver fé sínu í þau. Fólk hefur því hvorki tíma né fé til raunverulegra lífsgæða. Fólk velur sér líka á sama hátt kolranga leiðtoga, sem sumir hverjir skaða umbjóðendur sína.

Almenningur á erfitt með að átta sig á, að þeir, sem bezt koma fyrir, hafa liðugastan talanda og einlægastir virðast á svipinn, eru oft einmitt þeir, sem sízt er treystandi. Þannig tókst til dæmis að tvíselja Bandaríkjamönnum lélegan og siðlítinn Clinton forseta.

Fátt væri betur til þess fallið að auka raunveruleg lífsgæði alls almennings en að neyzlu- og kaupafræðsla yrði sett til jafns við lestur, skrift og reikning í skólum, svo að unga fólkið geti fengið nasasjón af þeirri tækni og þeirri list, sem notuð er til að hafa fólk að fífli.

Slík innsýn í raunveruleikann að baki ímyndana stríðir gegn sérhagsmunum í stjórnmálum og viðskiptum og mun því miður ekki ná fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV