Dregið í land

Greinar

Ríkisstjórn okkar er komin á fremur óvirðulegan flótta undan ákvörðuninni um að taka upp stjórnmálasamband við Litháen. Forsætisráðherra fer undan í flæmingi, ef minnzt er á Litháen, og utanríkisráðherra missti skyndilega málið, aldrei þessu vant.

Ríkisstjórnin virðist um síðir hafa fundið þann hundalógíska millileik í stöðunni, að Jeltsín Rússlandsforseti þurfi fyrst að viðurkenna Litháen fyrir hönd Rússlands, svo að Ísland geti siglt í kjölfarið. Hún vill heldur stunda sporgöngu en forgöngu í málinu.

Steingrímur Hermannsson hefur flest á hornum sér, þegar minnzt er á þá frelsissinna, sem flokksbróðir hans, Páll Pétursson þingflokksformaður, kallaði “mótþróalið” fyrir einu ári. Þeir félagar þykjast enn hafa hald-reipi í, að Danmörk viðurkenndi Litháen árið 1922.

Fyrir tæplega sjö áratugum tóku dönsk stjórnvöld ákvarðanir fyrir okkar hönd, því að við vorum þá undir dönsku krúnunni. Viðurkenningin frá 1922 var fyrst og fremst dönsk viðurkenning, ekki íslenzk. Og meira eða minna fallin úr gildi eftir marga ónotaða áratugi.

Forsætisráðherra spyr, hvað Sovétríkin geti gert okkur, ef við fylgjum sannfæringu okkar í málum Eystrasaltsríkjanna. Hann spyr til dæmis, hvort Sovétríkin muni slíta stjórnmálasambandi við Ísland. Verður sendiherra okkar rekinn frá Moskvu? Og svo framvegis.

Hugsanlegur mótleikur í þeirri stöðu er að óska eftir stjórnmálasambandi við Rússland og fela sendiherra okkar í Moskvu að undirbúa slíkt samband. Ef sendiherrann verður samt rekinn, getum við altjend losnað við sovézka sendiráðið hér og væri það landhreinsun.

Ef sovétstjórnin sliti stjórnmálasambandi við Ísland, mundi vegur okkar fremur en hitt vaxa á alþjóðlegum vettvangi. Og þar á ofan yrði minni hætta en ella á viðskiptum við Sovétríkin, sem yrðu okkur skaðleg, því að þau munu lítið eða ekkert borga á næstu árum.

Ömurlegust er sú kenning forsætisráðherra, að Litháar séu svo vitgrannir, að þeir viti ekki sjálfir, hvað sé þeim fyrir beztu, enda hafi hann orð sænskra stjórnvalda fyrir því, að þau telji varhugavert og raunar jafnvel skaðlegt að viðurkenna Litháen að svo stöddu.

Stundum er talað um, að börn og unglingar viti ekki, hvað þeim sé sjálfum fyrir beztu. En stjórnmálamenn ættu að fara varlega í að tala á svo móðgandi hátt um erlendar þjóðir, svo sem Steingrímur Hermannson hefur gert í blaðaviðtölum og haft af lítinn sóma.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, að Ísland og Litháen geti skipzt á formlegum nótum um tvö mikilvæg og brýn atriði. Í fyrsta lagi, að viðurkenningin frá 1922 sé enn í gildi. Og í öðru lagi, hvernig standa skuli að verklegri endurnýjun hennar gagnvart hersetnu ríki.

Íslendingar hafa fengið ótímabært hrós í erlendum fjölmiðlum fyrir að ganga fram fyrir skjöldu í stuðningi við Litháen og önnur Eystrasaltsríki, á sama tíma og Finnar og Svíar hafa fengið skömm fyrir að gera það ekki. Og orðstír okkar verðum við að varðveita.

Vont er, ef ríkisstjórnin ætlar að hlaupast undan merkjum, eftir að hafa farið vel af stað, knúin almenningsáliti Íslendinga. Þá er verr af stað farið en heima setið. Menn verða að hafa innri kraft til að standa við sín góðu áform og leggjast ekki í ósæmilegt undanhald.

Viðurkenning Litháens er óbein ítrekun réttar íslenzku þjóðarinnar til eigin sjálfstæðis. Hún er óbein staðfesting á okkar tilverurétti í eigin þjóðríki.

Jónas Kristjánsson

DV