Eftir lýsingum Clintons Bandaríkjaforseta í hita leiksins að dæma hefur Kína tekið við af Japan sem helzti bandamaður Bandaríkanna í Asíu. Jafnframt vill hann, að Taívan verði sameinað Kína, að vísu á friðsamlegan hátt. Loks telur hann Indland vonda kallinn í Asíu.
Kínaferðir fyrri forseta Bandaríkjanna hafa sumar fallið í gleymsku, þegar frá líður, og svo kann að verða um þessa. Markmið hennar er fyrst og fremst að komast í bandarískar fréttir fyrir annað en meint kvennafar og vafasöm fjármál. Það hefur tekizt bærilega.
Bandamaður Bandaríkjanna hefur efnahagsstyrk á stærð við Spán og fer illa með erlenda fjárfesta. Hann á eftir að ganga gegnum hremmingaskeið, sem fylgir innreið lýðræðis og ýmis önnur ríki hafa þegar gengið gegnum, svo sem Japan, Rússland og Indland.
Meðan Bandaríkjaforseti baðar sig í ljósi hins himneska friðar eru þessi ríki og fleiri að færa sig á taflborði heimsmálanna. Það gerist samkvæmt reglunni um, að leikur á einum stað leiði til mótleikja á öðrum stöðum. Bandalag við einn leiðir til árekstra við aðra.
Ekki er heil brú í bandalagi Bandaríkjanna og Kína, ekki hugmyndafræðibrú, ekki viðskiptabrú, ekki mannréttindabrú, ekki kjarnorku-afvopnunarbrú og alls ekki heimsveldisbrú. Kínaferð Clintons hefur skaðað hagsmuni Bandaríkjanna á öllum þessum sviðum.
Að sjálfsögðu lítur Rússland núna á sig sem innikróað af þessu bandalagi og sömuleiðis Indland. Japan telur sig hafa verið niðurlægt af Bandaríkjunum á erfiðum fjármálatíma gengislækkana og bankahruns. Þessi breyttu viðhorf kosta eitthvað á taflborði heimsvaldanna.
Sí og æ hafa Bandaríkin fallið fyrir þeirri freistingu að leggja lag sig við einræðisherra og harðstjóra af dálæti á friði og ró í ríkjum þeirra og af hræðslu við hverja höndina upp á móti annarri í öðrum ríkjum, sem hafa lagt í þrautagönguna á þrönga veginum í átt til lýðræðis.
Sí og æ hafa Bandaríkin lent í vanda, þegar einræðisherrarnir og harðstjórarnir hafa hrunið af valdastóli. Þannig hata Indónesar Bandaríkin fyrir Suharto og þannig hata Persar Bandaríkin fyrir Reza. Og þannig munu Kínverjar um síðir hata Bandaríkin fyrir Jiang.
Kínabandalagið er afleiðing minnisleysis. Langtímaminni skortir í bandaríska utanríkisstefnu, sem dettur sí og æ í sömu gryfjurnar. Þetta gerir ríkinu ókleift að reka skynsamlega heimsveldisstefnu að hætti rómversku og brezku heimsveldanna, sem stóðu um aldir.
Sumpart stafar þetta af áhugaleysi Bandaríkjamanna á utanríkismálum. Greiðslur á skuld við Sameinuðu þjóðirnar voru í vetur felldar á þingi með viðauka um fóstureyðingar. Þannig eru utanríkismálin fangi innanríkismála og Kínaferðin afleiðing meintra kvennamála.
Lík börn leika bezt, einnig í alþjóðamálum. Vesturlöndum kæmi bezt að efla tengsl við þau ríki þriðja heimsins, þar sem stjórnvöld sækja vald sitt til þjóðarinnar eins og á Vesturlöndum. Án lýðræðis verður markaðsbúskapur veikur og viðskipti áhættusöm.
Til langs tíma litið borgar sig að sinna betur ríkjum á borð við Rússland og Indland, Tyrkland og Persíu, þar sem stjórnir hvíla á lýðræðisgrunni, heldur en að leggja lag sitt við ríkisstjórnir, er sitja ofan á púðurtunnu almannavilja, sem enga fær eðlilega útrás.
Árangur Kínaferðar Clintons varð enn skelfilegri en óttazt var. Hann hefur þar látið draga sig fram og aftur á asnaeyrunum til að fá frið frá fréttum um konur.
Jónas Kristjánsson
DV