Dreifum áhættunni

Greinar

Við erum of háð fiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum. Hann hefur áratugum saman verið okkar mesta gullkista og þess vegna stækkað úr hófi fram, meðan annar markaður hefur verið vanræktur, einkum í Evrópu og Japan. Þetta bindur hendur okkar á öðrum sviðum.

Okkur þykir alltof sjálfsagt, að frysti fiskurinn hafi ótakmarkaðan og tollfrjálsan aðgang að bandarískum markaði. Ýmislegt getur breytzt. Aðstæður verða aldrei endalaust hinar sömu. Við sjáum þess einmitt merki núna, að hætta getur verið á ferðum.

Við teljum sanngjarnt, að teflt verði fram í haust nýjum, íslenzkum lögum um siglingar kaupskipa til landsins til mótvægis við gömul einokunarlög í Bandaríkjunum. Við verðum að gera ráð fyrir hugsanlegum gagnhótunum, sem gætu beinzt gegn freðfiskinum.

Við teljum oft, að Bandaríkin mundu aldrei beita okkur ofríki vegna hernaðaraðstöðu þeirra hér á landi. Sum okkar vilja jafnvel beita þeirri stöðu til að sýna Bandaríkjunum ofríki. Til lengdar verður þó báðum farsælast að halda varnarsamstarfi utan við kaupskap.

Við megum heldur ekki gleyma, að einangrunarstefna blómstrar um þessar mundir í Bandaríkjunum. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum heimtar, að bandarískt herlið verði flutt frá Vestur-Evrópu. Ástæða er til að búast við, að senn verði meirihluti á þingi fyrir fækkun.

Vægi austurstrandarinnar í almenningsáliti Banda ríkjamanna hefur minnkað og vægi vesturstrandarinnar aukizt. Þar er Evrópa fjarlægari og gjarna litið á hana sem ríka álfu, er ekki tími að verja sig sjálf, en noti féð til að stunda viðskiptastríð gegn Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn eru ófáanlegir til að átta sig á, að heimurinn er ekki vondur við þá. Verndarstefna er hvergi í hinum iðnvædda heimi Vesturlanda meiri en í Bandaríkjunum, nema hugsanlega í Frakklandi og Japan. Þess vegna myndast vítahringur verndarstefnu.

Bandarískir þingmenn sjá almennt rautt í alþjóðaviðskiptum. Frá þinginu má á næstu misserum búast við röð laga um aukna atvinnuvernd og tilheyrandi viðskiptaofsóknir gegn öðrum ríkjum. Þessi lög munu kalla á skjót viðbrögð Evrópubandalagsins og Japans.

Hefndaraðgerðir þessara bandamanna Bandaríkjanna munu svo verða túlkaðar þar vestra sem einhliða ofsóknir og kalla á enn harðari einokunar- og verndarlög. Ef til vill munu menn átta sig á fánýti þess, en fátt bendir til slíks, eins og tónninn er um þessar mundir.

Við vitum aldrei, hvenær eða hvernig við getum sogazt inn í slíkan vítahring, annaðhvort óvart eða vegna gerða okkar. Bandaríkin gætu viljað vernda veikburða sjávarútveg sinn eða veita Kanada og Rómönsku Ameríku forgang umfram aðrar álfur.

Þegar viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hótaði okkur refsiðagerðum vegna hvalveiða, var kominn tími til, að við áttuðum okkur á, hversu hverfull heimurinn er. Ef við ætlum að halda áfram að veiða hval, eigum við á hættu bandarískt bann við fiskkaupum af okkur.

Auðvitað er illþolandi að hafa slíkt sverð hangandi yfir höfði okkar. Það bindur hendur okkar í hvalveiðum og í öðrum ágreiningsefnum okkar við Bandaríkin. Því er bezt að dreifa markaðsöflun okkar svo um heiminn, að við verðum mun minna háð Bandaríkjamarkaði.

Hækkun japansks og evrópsks gjaldeyris, lækkun dollarans og aukin tækni við flutning á ferskum fiski á að auðvelda okkur að dreifa áhættunni.

Jónas Kristjánsson

DV