Drekinn

Veitingar

Íslenzkt og víetnamskt

Drekinn er enn minna kínverskur en Zorba er grískur. Sem dæmi um vestrænu þessa litla veitingahúss á horni Laugavegar og Klapparstígs má nefna, að matseðillinn býður upp á kaffi en ekki te. Hef ég aldrei fyrr heyrt um kínverskt veitingahús án tes.

Annað dæmi er, að Drekinn býður upp á súpu dagsins og viðamikinn aðalrétt í einu verði, svo sem algengt er á Vesturlöndum, en fátítt í kínverskum veitingahúsum, sem flest leggja áherzlu á syrpur af smáum réttum. Þar á ofan reyndist dag eftir dag súpa dagsins vera þykk, en ekki tær, eins og kínverskar súpur eru yfirleitt.

Ekta þjóðernisstöðum í öðrum löndum er haldið við efnið af hópum útlaga, sem borða í þessum veitingahúsum og vilja fá sama mat og þeir fengu heima í gamla daga. Hér er ekkert um slíka viðskiptavini. Því er skiljanlegt, að Drekinn hefur eins og Zorba lagað sig að neyzluvenjum Vestur-Evrópu.

Sætsúrir réttir og ostrusósa benda til, að Drekinn sé af þeim meiði kínverskrar matargerðar, sem kenndur er við borgina Kanton. Sú skilgreining stenzt þó ekki alveg, því að ekki er boðið upp á neina gufusoðna dim-sum smárétti, sem einkenna flesta kantonska veitingastaði. Þeim mun meira er djúpsteikt, sem ekki er kantonskt.

Karríréttir Drekans rugla síðan skilgreininguna enn frekar. Karrí er indversk kryddblanda, en ekki kínversk. Skýringin er sennilega sú, að milli Kína og Indlands er skaginn Indókína, þar sem meðal annars er ríkið Víetnam. Matreiðslan er sem sagt frekar víetnömsk en kantonsk.

Hin kínverska hefð leynir sér samt ekki í hinni nærfærnu eldamennsku, sem vel kemur fram í fiskréttum Drekans. Hún lýsir virðingu fyrir viðkvæmu hráefni, sem íslenzkir matreiðslumenn mættu sumir hverjir læra. Jafnvel við djúpsteikingu er skorpan yfirleitt þunn og létt í maga.

Fyrsta flokks fiskisúpa

Hápunktur prófunarinnar í Drekanum var fiskisúpan, heil máltíð út af fyrir sig. Það var sætsúr súpa, tær, með léttsoðnum smálúðubitum, stinnri papriku, grænni og rauðri, blaðlauk og spírum. Þetta var fyrsta flokks máltíð á aðeins 125 krónur.

Súpa dagsins var sæmileg hveitisúpa með grænmeti. Hún var líka í boði daginn eftir og virtist þá einnig vera nýlöguð.

Staðlað meðlæti var borið fram með öllum aðalréttunum. Það fólst í góðum, hvítum hrísgrjónum, venjulegu hrásalati, smátt söxuðu, bandarískri sósu, salatblaði, sítrónu og tómati.

Allir aðalréttirnir voru bornir fram snarpheitir og allir með hníf og gaffli, en ekki prjónum. Allar sósur voru mildar á bragðið.

Djúpsteiktur skötuselur með blaðlauk og grænmetis-ostrusósu, svo og stinnri papriku, var hinn ljúfasti matur, bezti aðalréttur prófunarinnar.

Smálúðan djúpsteikta var líka góð, borin fram með skemmtilegri, hnetublandaðri ostrusósu. Djúpsteikti karfinn í hádeginu daginn eftir hafði hins vegar of mikinn og fitugan steikarhjúp, enda kokkurinn sennilega annar. Karfinn var samt góður, þegar búið var að taka hjúpinn frá.

Nautakjöts-vorrúlla með sætsúrri sósu var stór og matarmikil með þunnri og stökkri skorpu. Sama var að segja um þá rúlluna, sem var með karrísósu.

Kjúklingur chow mein fólst í þunnum kjötræmum á spaghetti-beði með sætsúrri sósu. Þetta var frambærilegur matur, ekki of mikið eldaður. Lambakjöt chow mein var svo þunnar kjötflögur á karríhrísgrjónum. Það kjöt var of mikið eldað, orðið grátt og þurrt.

Orðin chow mein voru hið eina, sem ekki var á íslenzku á matseðlinum. Á Drekanum virtust þau ýmist þýða spaghetti eða hrísgrjón, það er að segja, hvað sem vera skal.

Allt í ljósum og bláum lit

Drekinn er lítil og notaleg, 42 sæta veitingastofa, innréttuð í ljósu og bláu. Sléttpússað trégólf er ljóst, panilveggir ljósir, strigaloft ljóst, plastborð ljós og klappstólar á efra palli ljósir. Bekkir á neðra palli eru með ljósblárúðóttu áklæði eins og gluggatjöldin. Bláir listar ramma glugga, skilrúm og veggsúlur. Útihurðin er blá.

Í gluggum eru illa málaðar eftirlíkingar af glerseindum dreka, sem hangir yfir afgreiðsluborði. Kínverskur glottkarl situr á skilrúmi yfir litlu barnahorni við innganginn. Í lofti eru kínverskar sólhlífar og blævængir, óróar og leikbrúður. Í heild er þetta hið þægilegasta umhverfi, því að kínverskan í skreytingunni er ekki ofhlaðin.

Þótt Drekinn sé í lægsta verðflokki veitingahúsa, er þar veitt full þjónusta til borðs, svo að gestir þurfa ekki að hanga við afgreiðsludiskinn eins og á flestum stöðum í sama verðflokki.

Þjónustan var afar góð og raunar betri en á sumum stöðum, sem hafa lærða þjóna. Sem dæmi má nefna, að stúlkan vissi upp á hár, hver hafði pantað hvað við sex manna borð, þótt engir tveir hefðu pantað hið sama. Þarna var enginn “hver pantaði þetta” vandræðagangur, sem setur niður sum íslenzk veitingahús.

Á matseðli dagsins var súpa og sjö aðalréttir. Miðjuverð súpu og aðalréttar var 210 krónur. Á fastaseðli eru fimm súpur á miðjuverðinu 125 krónur og 22 aðalréttir á miðjuverðinu 187 krónur. Af aðalréttunum eru sex konar vorrúllur, fjórir sætsúrir réttir, tveir chow-mein réttir, fjórir karríréttir, fjórir ostrusósuréttir og tveir aðrir réttir. Enginn eftirréttur er á seðlinum, enda eru Kínverjar lítið fyrir slíkt. Kaffi kostar 30 krónur.

Drekinn er góð tilbreytni í veitingamennsku landsins. Þar er boðið upp á ágætan og ódýran mat við góða þjónustu í þægilegu umhverfi. Hann er að vísu ekki eins kínverskur og hann segist vera. En ég gleymdi að spyrja, hvort hægt væri að fá prjóna til borðs.

Jónas Kristjánsson

DV