Drepinn í styrkjadróma?

Greinar

Vandamál Íslendinga í sjávarútvegi eru heimagerð og stafa ekki af samkeppni af hálfu Norðmanna og Kanadamanna’ sagði dr. Björn Dagbjartsson í einkar athyglisverðri kjallaragrein hér í Dagblaðinu & Vísi á fimmtudaginn var.

Björn bendir á, að í framantöldum nágrannalöndum sé sjávarútvegurinn ekki alvöru atvinnuvegur, heldur félagsleg byggðastefna. Aðrir hafa kallað þetta dulbúið atvinnuleysi. Útgerðin á að halda uppi atvinnu og byggð á vonlausum stöðum.

Björn segir það liðna tíð, að Norðmenn haldi uppi samkeppni við okkur í sölu fiskafurða á erlendum markaði. Síðan þeir tóku upp hina margumræddu og vonlausu styrkjastefnu, hafi þeir ekki verið samkeppnisfærir á þessu sviði.

Ástand norska þorskstofnsins sé orðið slíkt, að norskur þorskur muni ekki þvælast fyrir okkur á erlendum markaði í náinni framtíð, jafnvel þótt styrkir við norska útgerð verði enn auknir til að vernda atvinnu og byggð.

Kanadamenn séu sumir hverjir að átta sig á, að þeir sitja í sömu súpunni og Norðmenn. Ástandið á austurströndinni er þannig, að vonlaust sé að finna fiskveiðistefnu, er geti tryggt 75.000 manns og 32.000 fleytum þolanlega afkomu.

Formaður Fiskifélags Kanada segir, að um árabil hafi sjávarútvegsstefna stjórnvalda einkum beinzt að meintum félagslegum þörfum þjóðfélagsins, en heilbrigð efnahagsþróun fyrirtækja í sjávarútvegi hafi setið á hakanum.

Kanadíska styrkjastefnan hafi þær afleiðingar einar að halda uppi of fjölmennum og of fjárfrekum sjávarútvegi. Björn rökstyður, að samkeppnisaðstaða batni ekki við þetta, heldur versni því lengur sem þessu sé haldið áfram.

Reynsla margra atvinnugreina í mörgum löndum er, að opinberir styrkir hamla gegn hagþróun og viðhalda dulbúnu atvinnuleysi. Reynt er að breiða yfir vandaun með undirboðum á erlendum markaði. Samt sökkva þessir atvinnuvegir alltaf dýpra.

Atvinnuvegur, sem stendur á eigin fótum, getur keppt við hliðstæðan, styrktan atvinnuveg í öðrum löndum. Sá fyrri sigrar, af því að hann fylgir heilbrigðum arðsemiskröfum. Hinn síðari tapar, af því að hann er í rauninni bara byggðastefna.

Björn bendir á nokkur atriði, sem draga úr möguleikum íslenzks sjávarútvegs á að standa á eigin fótum. Það er samkeppnin um vinnuaflið hér heima, samkeppnin um fjármagnið hér heima og samkeppnin um takmarkaðan fiskinn í sjónum.

Hættulegast af þessu er vafalaust samkeppnin um fiskinn. Alltof mörg skip hafa verið keypt með opinberri fyrirgreiðslu til að berjast um takmarkaðan afla, stunda ofveiði. Allir tapa auðvitað í þessari ríkishvöttu samkeppni og rányrkju.

Á síðustu árum hefur æ oftar heyrzt það markmið í sjávarútvegi að tryggja búsetu í ákveðnum plássum með jöfnum og þéttum löndunum fiskafla. Byggðastefnan er að víkja til hliðar þeirri skoðun, að sjávarútvegur sé til að græða á.

Því miður er ekki nægur fiskur í sjónum til að tryggja búsetu í öllum víkum, né til að tryggja öllum atvinnu. Fækka verður skipum og mannskap, svo að sjávarútvegurinn haldist arðbær og að ofveiði verði stöðvuð.

Grein Björns er gott dæmi um, að þoka byggðastefnu og rányrkju er ekki allsráðandi hér á landi. Hér og þar skín gegnum þokuna í hugsun, sem gefur okkur nokkra von um, að hið opinbera nái ekki að drepa sjávarútveginn í styrkjadróma.

Jónas Kristjánsson.

DV