Ísland er farið að minna á Undraland og Steingrímur Hermannsson á drottninguna, sem var með nefið ofan í hvers manns koppi og gaf marklausar fyrirskipanir í allar áttir. Á heimleið í flugi minna Íslendingar á Lísu, þegar þeir lesa dagblöðin um borð í vaxandi undrun.
Dæmigerð sjónhverfing síðustu og verstu ríkisstjórnar lýðveldisins er yfirlýsing forsætisráðherra um, að verkfallsbannið verði fellt úr bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þetta á að draga úr líkum á, að Steingrími verði áfram líkt við Jaruzelski hinn pólska.
Í rauninni er brottfallið marklaust, þar sem það heimilar aðilum vinnumarkaðarins aðeins að ræða saman, sem þeir hefðu auðvitað hvort sem er getað gert. Eftir sem áður eru samningar aðilanna framlengdir til miðs febrúar á næsta ári og aðgerðir bannaðar á þeim tíma.
Í dag opinberast hugsanlega örlög bráðabirgðalaganna. Ef enginn huldumaður kemur í ljós í neðri deild Alþingis, verða þau felld eða dregin til baka. Þá mun Steingrímur yppta öxlum og halda áfram að ráðskast með landshagi, eins og í rauninni hafi ekkert gerzt.
Ljósasta dæmið um draumaheim ríkisstjórnarinnar er vaxtastefna hennar. Hún ákvað til dæmis, að vextir ríkisskuldabréfa skyldu verða 77,3% og skyldaði bankana til að taka við þeim á þeim vöxtum og koma þeim út. Afleiðingin sést í óseldum og óseljanlegum bréfum.
Bankarnir hafa neyðzt til að bjóða 8% vexti til að koma bréfunum út. Þannig greiða þeir niður draumavexti ríkisstjórnarinnar, svo ekki er furða, þótt bankar séu dýrir í rekstri. Samt er reiknað með, að tæpir tveir milljarðar króna í bréfum verði óseldir um áramót.
Nú er drottningin í Undralandi farin að ræða við forviða lífeyrissjóði um 5% raunvexti af peningum, sem þeir lána til sjóða á vegum ríkisins. Þetta gerist í umheimi, þar sem raunvextir eru 810% og þar sem ástand efnahagsmála er mun fastara fyrir en er hér á landi.
Annað nýlegt dæmi um draumaheiminn eru skattahækkanir, sem fjármálaráðherra segir sumpart ekki vera hækkanir og jafnvel lækkanir. Í frumvörpum hans um þessi efni er vandlega reynt að fela eðli og umfang breytinganna á skattbyrði fólks og fyrirtækja.
Þar er gefið í skyn, að fólk með 60.000 króna mánaðartekjur verði skattlaust, þótt það muni í raun borga um 45.000 króna skatta. Ennfremur gefur hann í skyn, að skattar séu lægri hér en annars staðar, þótt þeir séu hinir tíundu hæstu aðildarríkja OECD-hagstofnunar.
Fleira vekur furðu Lísu. Drottningin í Undralandi hefur lengi lagt áherzlu á, að reglum verði breytt um útreikning vísitalna og að þær verði síðan lagðar niður. Allir, sem um breytingarhugmyndir hans hafa fjallað, eru á einu máli um, að þær séu gersamlega út í hött.
Ríkisstjórnin umgengst efnahagsmál eins og töframaður, sem dregur dauðar kanínur upp úr hatti. Meginatriði stjórnarstarfsins er sviðsframkoman, enda eru sumir helztu ráðherrarnir sérfræðingar í að slíta stjórnarsamstarfi í beinni útsendingu sjónvarps.
Athyglisýki ráðherra er helzta haldreipi stjórnarinnar. Formenn stjórnarflokkanna eru ábyrgðarlitlir og vilja gjarna baða sig í sviðsljósi. Þeir munu því halda áfram skaðlegu brambolti sínu og hljóðfæraslætti, þótt Róm brenni og þótt meirihluta skorti á Alþingi.
Sérkennilegastir í Undralandi drottningarinnar eru þó kjósendur sjálfir, sem hafa kallað yfir sig athyglisjúka ráðamenn og leitt ímyndunina til hásætis.
Jónas Kristjánsson
DV