Drýgindalegar hótanir

Greinar

Verkalýðsrekendur landsins virðast ekki ætla að ríða feitum hesti frá tilraunum sínum til að feta í fótspor formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Drýgindalegar yfirlýsingar þeirra um óhjákvæmileg átök á vinnumarkaði eru smám saman að verða að spjalli um vöruverð.

Dagsbrúnarformaðurinn hefur löngum tamið sér stíl, sem felst í að sofa á verðinum mestan hluta ársins og vakna síðan til meðvitundar um skamman tíma í senn og flytja þjóðinni þá drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir um, að hans fólki láti sko ekki að sér hæða.

Þessar uppákomur, sem eru skemmtilegastar í sjónvarpi, hafa verið marklausar með öllu. Þær eru vanmáttug tilraun til að sýnast sterkur. Þær blekkja tæpast félagsmenn, hvað þá aðra. Áreiðanlega eru áratugir síðan Dagsbrún hafði einhvern árangur, sem máli skiptir.

Kosningareglur í Dagsbrún eru svo þunglamalegar, að mótframboð gegn formanni fela í sér, að menn verða að setja fram heilan lista yfir stjórn og trúnaðarmenn, án þess að neitt nafnið sé hið sama og á lista stjórnar. Þetta jafngildir eins konar æviráðningu formannsins.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna formaðurinn heldur áfram að vera formaður. Það er ekki vegna drýgindalegra ummæla hans og innihaldslausra hótana í sjónvarpi með löngu millibili, heldur þrátt fyrir þær. Þess vegna geta þær tæpast orðið öðrum til eftirbreytni.

Þegar forustumenn annarra stéttarfélaga og Alþýðusambandsins í heild fara að tala drýgindalega og hóta út í loftið að hætti þessa lata og lélega formanns, er eitthvað meira en lítið orðið að í hreyfingu launafólks. Hún er þá greinilega komin í erfiða tilvistarkreppu.

Staðreyndir kjaramála eru tiltölulega einfaldar að þessu sinni. Einu sinni sem oftar hafa Alþýðusambandið og helztu aðildarsambönd þess staðið að þjóðarsátt, sem ekki tryggir hagsmuni umbjóðenda þeirra. Launajöfnunarstefna sáttarinnar endurspeglast ekki hjá ríkinu.

Forustumenn launafólks gátu ekkert aðhafzt, þegar ríkið samdi betur við sitt fólk en atvinnurekendur höfðu samið við sitt. Forustumenn launafólks höfðu gleymt að setja fyrirvara í þjóðarsáttina um, að ríki og vinnuveitendasamband tækju ábyrgð á launajöfnunarstefnunni.

Síðan ætluðu forustumenn launafólks að bjarga sér út úr mistökunum með því að hengja hagsmuni sína á almenna reiði fólks í sumar út af tilraunum Alþingis til að koma alþingismönnum undan hörðum lögum, sem það hafði sjálft sett um almenning í þjóðfélaginu.

Reiði almennings hafði þau áhrif, að Alþingi hætti við sérstök skattsvik alþingismanna. Þar með var ekki lengur hægt að kvarta yfir öðru en því, að laun þingmanna hækkuðu meira en fólks eins og raunar laun embættismanna og ýmissa hópa opinberra starfsmanna.

Erfitt er að byggja kjarabaráttu á, að sumir hafi fengið of mikið, og enn síður á því, að draga þurfi þá launahækkun til baka. Enda eru málsaðilar nú farnir að tala um þá niðurstöðu úr upphlaupi verkalýðsrekenda, að ríkisstjórnin afturkalli nýlega verndartolla á búvöru.

Auðvitað er hið þarfasta mál, að ríkisstjórnin verði knúin til að víkja frá stefnu aukinnar verndar innlends landbúnaðar og lækki þar með matarverð í landinu. En það er ekki beinlínis sú kjarajöfnun, sem menn héldu, að þeir væru að semja um í síðustu þjóðarsátt.

Drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir verkalýðsrekenda að hætti formanns Dagsbrúnar um átök á vinnumarkaði stinga í stúf við spjall þeirra um vöruverð.

Jónas Kristjánsson

DV