Hér verða eingöngu talin hótel í hjarta miðbæjarins, í öllum verðflokkum, frá lúxushótelum yfir í B&B. Öll eru þau góð og bjóða flest þægindi, sem menn eiga nú að venjast á hótelum.
Bloom’s
Kjörhótel okkar í Dublin er fremur ódýrt og lítið, 86 herbergja Bloom’s, sem heitir eftir söguhetjunni í Ódysseifi eftir James Joyce.
Það er afar vel í sveit sett í miðbænum, í brekku milli Dame Street og Temple Bar, tæpum 100 metrum frá veitingagötunni Temple Bar og 300 metrum frá Grafton Street, burðarási miðbæjarins.
Þetta er þægilegt og örlítið þreytulegt hótel í gamaldags nútímastíl, með lífsreyndum og góðum reddurum í anddyri, fremur þröngt niðri, en rúmgott á herbergjum. Þjónusta er allan sólarhringinn og góð aðstaða fyrir kaupsýslumenn, svo og bílgeymsla.
Herbergi 506 er hátt uppi, með þreföldu gleri í gluggum, tvískipt í svefnhluta og setuhluta, sem mynda vinkil við svalir. Það er vel búið, með stóru skrifborði, buxnapressu og hárþurrku, beinum síma og sjónvarpi, rauðvínsflösku og dagblaði. Baðherbergi er vandað og vel búið.
Verðið var £71 fyrir tvo með morgunverði.
(Bloom’s, Anglesea Street, sími 671 5622, fax 671 5997, C4)
Westbury
Bezta og bezt staðsetta hótelið í Dublin er dýrt og stórt og nýtízkulegt, 195 herbergja Westbury, aðeins 30 metrum frá Grafton Street. Verzlanakringlan Powerscourt er að hótelbaki.
Hvorki meira né minna en þrír af beztu veitingasölum miðbæjarins eru á hótelinu, Russell, Sandbank og Rajdoot, sem allra er getið í veitingakafla þessarar bókar. Einnig er verzlanagata innan dyra, svo að hótelið er hentugur heimur út af fyrir sig í stórrigningu.
Anddyrið á tveimur hæðum er stór og kuldaleg marmarahöll með glæsilegum stiga milli hæða.
Herbergi 606 er ákaflega stórt og einstaklega vandað að húsbúnaði, mahóní og bláum litum, góðum lömpum og miklum speglum, virðulega stílhreint. Baðherbergi er fullflísað og fallegt, tvískipt með baði og salerni á innra svæði, en sturtan var ekki öflug.
Verðið var £149 fyrir tvo með morgunverði.
(Westbury, Grafton Street, sími 679 1122, fax 679 7078, C3)
Shelbourne
Dýrasta hótelið í Dublin er Shelbourne, sögufræg höll frá árinu 1824 við miðbæjargarðinn St Stephen’s Green, 300 metrum frá Grafton Street. Í þessari rauðu og hvítu höll 150 herbergja var samin stjórnarskrá írska lýðveldisins, og kaflar í þekktum skáldsögum eru látnir gerast þar.
Hótelið er gamalt og fínt, en samt líflegt, með brakandi gólfum, sem halla á ýmsa vegu undir þykkum teppum. Notalegir almenningssalir hafa verið endurnýjaðir í upprunalegri mynd og herbergi gesta eru afar glæsileg. Ein þekktasta krá borgarinnar, Horseshoe, er lengst til hægri á jarðhæðinni.
Helzti galli hótelsins er, að þjónustu hrakaði við sölu þess til Forte-keðjunnar. Reddarar í anddyri voru til dæmis sjaldan viðlátnir og burðarkarlar sjaldséðir, hvort tveggja lítt hugsanlegt á hóteli í þessum flokki.
Herbergi 222 er ákaflega stórt og raunar tvískipt í setustofu og svefnstofu, afar smekklega innréttað glæsilegum húsbúnaði, nýlega endurnýjuðum, með stórum gluggum út að miðbæjargarðinum. Baðherbergi er með glæsilegasta móti.
Verðið var £170 fyrir tvo með morgunverði.
(Shelbourne, St Stephen’s Green North, sími 676 6471, fax 661 6006, D2)
Buswell’s
Skemmtilegasta hótelið í Dublin er gamalt, þreytulegt og lítið, 70 herbergja þingmannahótelið Buswell’s, eins konar Hótel Borg, andspænis anddyri írska þinghússins, steinsnar frá nokkrum helztu söfnum hennar og 300 metrum frá Grafton Street.
Þótt hótelið sé vel í sveit sett, er gatan við hótelið róleg og lágvær. Starfslið var einkar vingjarnlegt og þægilegt, fljótt að leysa úr öllum vanda, einna bezta hótelfólk borgarinnar.
Herbergi 103 er gamaldags, lítið og fremur slitið, svo sem gólflistar. Það er vel búið, til dæmis buxnapressu og hárþurrku, beinum síma og sjónvarpi. Baðherbergið er líka lítið, en fullflísað og vel búið, en sturta var ekki öflug. Annars eru herbergi hótelsins afar misjöfn að gerð og búnaði.
Verðið var £102 fyrir tvo með morgunverði.
(Buswell’s, Molesworth Street, símar 676 4013, 676 4016 og 661 3888, fax 676 2090, D2)
Temple Bar
Fjörlegt og vel staðsett nútímahótel í hjarta borgarinnar er 108 herbergja Temple Bar, 50 metrum frá samnefndri veitingahúsagötu og um 400 metrum frá Grafton Street. Margir Íslendingar hafa búið þar á vegum Samvinnuferða í seinni tíð.
Hótelið var nýtt og óslitið með öllu, þegar bókarhöfundur bjó þar. Innréttingar eru vandaðar og stílhreinar, svo sem morgunverðarstofa í garðstofustíl á jarðhæð. Anddyrið er fremur lítið og stundum annasamt, þegar hópar koma eða fara.
Starfsfólk er vinsamlegt og þægilegt, en sumt ekki mjög þjálfað í starfi, einkum í morgunverðarstofu.
Herbergi 115 er vandað, stílhreint, notalegt og vel búið, til dæmis með góðu skrifborði, buxnapressu og kaffivél. Baðherbergi er glæsilegt, en sturtan varð ekki hættulega heit.
Verðið var £100 fyrir tvo með morgunverði. Afsláttarverð í ferðapökkum Samvinnuferða var £62, sem er afar hagstætt, eitt lægsta verð þessarar bókar.
(Temple Bar, Fleet Street, sími 677 3333, fax 677 3088, C4)
Grey Door
Afar vandað agnarhótel í borgarmiðju lætur lítið yfir sér og frægum veitingasal sínum, 7 herbergja Grey Door í sendiráðahverfinu. Það er 300 metrum frá St Stephen’s Green, 400 metrum frá Baggot Street og 700 metrum frá Grafton Street.
Anddyri er nánast ekkert nema lyftulaus stigagangur, en setustofa hótelgesta á annarri hæð er rúmgóð og vel búin fornum húsgögnum. Starfslið var afar þægilegt. Útidyr eru jafnan læstar og hótelgestir fá lykil að húsinu.
Um samnefndan veitingastað er fjallað í viðeigandi bókarkafla. Morgunverður er snæddur þar.
Herbergi 3 er glæsilegt og einstaklega notalegt, skipt með súlnariði í svefnhluta og setuhluta, með afar vönduðum innréttingum, tveimur sjónvarpstækjum, buxnapressu og kaffivél, góðu skrifborði og þremur hægindastólum. Baðherbergi er lagt afar fínum, hvítum flísum, búið gylltum krönum og þykkum baðsloppum.
Verðið var £95 fyrir tvo með morgunverði.
(The Grey Door, 23 Upper Pembroke Street, sími 676 3286, fax 676 3287, D1)
Staunton’s
Traust, en nokkuð dýrt og hljóðbært smáhótel í þremur húsum við St Stephen’s Green er Staunton’s on the Green, við hlið utanríkisráðuneytisins, 500 metrum frá miðbæjarásnum Grafton Street. Frá hótelinu er útsýni yfir götuna til St Stephen’s Green og frá bakhliðinni til Iveagh Gardens.
Anddyri er lítið, lyfta engin og stigar brattir, herbergi fremur lítil, en bjóða aftur á móti gott útsýni, sem eykur rýmið. Morgunverður er framreiddur í kjallara.
Herbergi 301 er afar lítið og þunnveggjað, en búið ýmsum þægindum, þar á meðal sjónvarpi og kaffivél. Baðherbergi er lítið og ekki fínt, dúklagt og óflísað, en í góðu lagi, sturta til dæmis ágæt, en engin kerlaug. Hljóðbært er milli herbergja.
Verðið var £88 fyrir tvo með morgunverði.
(Staunton’s on the Green, 83 St Stephen’s Green South, sími 478 2300, fax 478 2263, C1)
Georgian
Afar skemmtilegt og fremur ódýrt smáhótel í fjórum átjándu aldar borgarhúsum við söngkráagötuna Baggot Street er 33 herbergja Georgian House, 300 metrum frá St Stephen’s Green og 600 metrum frá Grafton Street.
Hótelið er í fjölskyldueigu. Í fremur þröngu og lyftulausu anddyri neðan við þrönga stiga var vingjarnlegt starfslið. Í veitingakafla bókarinnar er sérstaklega fjallað um ágætan fiskréttasal hótelsins, Ante Room, sem er í kjallaranum. Þar er morgunverður borinn fram.
Herbergi 124 er víðáttumikið og sneri út að götunni, vel búið gömlum og góðum húsgögnum, fremur þungum. Baðherbergi var fremur vel búið.
Verðið var £81 fyrir tvo með morgunverði.
(The Georgian House, 20-21 Lower Baggot Street, sími 661 8832, fax 661 8834, E2)
Fitzwilliam
Ódýrt smáhótel er í átjándu aldar borgarhúsi á horni Baggot Street og Fitzwilliam Street, 400 metrum frá St Stephen’s Green og 800 metrum frá Grafton Street. Fitzwilliam heitir það og hefur aðeins 12 herbergi, mörg hver búin fornum húsmunum.
Starfslið var vingjarnlegt og þægilegt, enda hótelið í fjölskyldueigu. Gestir fá útidyralykil, þegar þeir fara út á kvöldin. Morgunverður er framreiddur í kjallara.
Herbergi 32 er gamaldags, fremur stórt, búið þremur rúmum og snýr út að götu, sæmilega búið, þar á meðal sjónvarpi og síma. Baðherbergi er líka gamaldags, en í góðu lagi.
Verðið var £60 fyrir tvo með morgunverði, næstlægsta verð bókarinnar.
(Fitzwilliam Guest House, 41 Upper Fitzwilliam Street, sími 660 0448, fax 676 7488, C4, E1)
Kelly’s
Ódýrasta höfuðborgarhótelið í þessari bók er lítið og notalegt, hreinlegt og gamaldags, 24 herbergja Kelly’s, afar vel í sveit sett í miðbænum, 200 metrum frá Dame Street og 400 metrum frá Grafton Street.
Anddyri hótelsins er á annarri hæð. Þar er líka skemmtilegur bar með háum gluggum og leðursætum, setustofa og ágæt morgunverðarstofa. Þjónusta er góð, enda er hótelið í fjölskyldueigu. Útidyr eru læstar að nóttu, en gestir hringja bjöllu til að fá opnað fyrir sér.
Herbergi 23 er afar lítið, en smekklega innréttað og með flestum þægindum, þar á meðal hárþurrku, síma og sjónvarpi. Hnausþykkt teppi er yfir brakandi trégólfi. Teppalagt baðherbergi er lítið og smekklegt, vel búið að öllu leyti.
Verðið var £57 fyrir tvo með morgunverði, lægst í þessari bók, enda komið niður í Bed & Breakfast verð miðbæjarins í Dublin.
(Kelly’s, 36 South Great Georges Street, símar 677 9277, fax 671 3216, B3)?
1995
© Jónas Kristjánsson