Dublin göngur

Ferðir

Hér verður lýst einni langri gönguferð um miðborgina. Á leiðinni tínum við upp flesta skoðunarverða staði, sem verða á vegi okkar og tökum nokkra króka til að komast yfir flest það, sem máli skiptir í Dublin yfirleitt.

St Michan’s

Við hefjum gönguna við helztu minjar víkinga í Dublin, kirkjuna St Michan’s. Hún er norðan árinnar Liffey, rétt vestan við Four Courts dómhöllina, við götuna Church Street, sem liggur upp frá ánni.

St Michan’s er elzta kirkja borgarinnar. Hún var upprunalega reist í rómönskum stíl af dönskum víkingum 1095, endurbyggð 1686 og fékk þá núverandi svipmót. Turninn er sumpart upprunalegur víkingakirkjuturn.

Ferðamenn skoða helzt heillega líkama frá lokum sautjándu aldar, sem eru til sýnis í kjallaranum. Kalksteinninn í kirkjuveggjum dregur raka úr andrúmsloftinu og hefur komið í veg fyrir rotnun hinna látnu. Aðgangur £1,20 (A4).

Four Courts

Við göngum Church Street 150 metra niður að Liffey og tökum á okkur 100 metra krók eftir Inns Quay á norðurbakka árinnar.
Hér er dómhöll borgarinnar, Four Courts, reist 1786-1802. Hún ber mikið og koparlagt hvolfþak, sem gnæfir á háu súlnariði yfir umhverfið. Framhliðin að ánni er í grískum musterisstíl með sex súlna riði undir gaflaðsþríhyrningi.

Höllin brann í fallstykkjaárás í borgarastyrjöldinni 1922. Þá eyðilagðist þjóðskjalasafnið, sem var þar til húsa. Hún hefur síðan verið endurreist í upprunalegum stíl (A4).

St Audoen’s

Við göngum 100 metrana til baka að brúnni, förum yfir hana og fáum okkur kollu í elztu krá borgarinnar, Brazen Head, sem er hér við árbakkann. Síðan förum við 100 metra upp brekkuna Bridge Street.

Hér til hægri er Cook Street með heillegum hluta gamla borgarmúrsins. Yfir múrnum gnæfa kirkjurnar St Audoen’s, önnur kaþólsk og hin anglíkönsk. Nálægt kirkjunum er hlið frá 1275 á múrnum.

Við förum 100 metra meðfram múrnum, inn um hliðið og upp tröppur að kirkjunum.

Hin minni St Audoen’s er ein af elztu kirkjum borgarinnar, reist á 12. öld í gotneskum stíl af Normönnum frá Rouen í Frakklandi. Vesturportið og turninn eru frá þeim tíma, en sjálft kirkjuskipið er frá 13. öld og gluggar þess frá 15. öld (A3).

Liberty

Áður en við skoðum höfuðkirkjuna Christ Church, sem er hér framundan, tökum við krók frá High Street tæpa 100 metra vestur yfir torgið í átt að götunni Cornmarket, en beygjum af torginu til vinstri inn John Dillon Street að markaðshúsunum.

Liberty og Iveagh Markets eru helztu flóamarkaðir borgarinnar, báðir við John Dillon Street og ná þar yfir töluvert svæði. Höfuðáherzlan er á notuðum fatnaði og í öðru lagi á heimilisáhöldum (A3).

St Patrick’s

Frá markaðshúsunum höldum við áfram 200 metra eftir John Dillon Street og beygjum á götuenda til vinstri og komum eftir 50 metra að garði St Patrick’s dómkirkjunnar.

St Patrick’s er ein af elztu kirkjum borgarinnar og stærsta kirkja Írlands, reist í enskri útgáfu af gotneskum stíl 1254, með turni frá 1370. Kirkjunni hefur síðan verið breytt, síðast á nítjándu öld, en er enn með gotnesku yfirbragði.

Í garði kirkjunnar er lind, þar sem heilagur Patrekur er sagður hafa skírt fólk á 5. öld. Þar eru einnig minnisvarðar þriggja nóbelsskálda Íra og nokkurra annarra höfuðrithöfunda þeirra.

Á kirkjulóðinni er einnig elzta almenningsbókasafn Írlands, Marsh’s Library, frá 1710, þar sem verðmætar bækur eru hlekkjaðar við púltin (A2).

Dublinia

Við förum frá vesturstafni dómkirkjunnar norður eftir Patrick Street og Nicholas Street og áfram niður Winetavern Street undir fíngerða húsbrú milli kirkjuþinghúss og Christ Church, alls um 300 metra leið. Handan brúarinnar beygjum við til vinstri að inngangi safnsins Dublinia í kirkjuþinghúsinu frá áttunda tug 19. aldar.

Dublinia er margmiðlunarkynning í máli og myndum á miðaldalífi í Dublin frá innrás Normanna 1170 og fram til 1540. Reynt er að sýna raunsæja mynd af iðnaðarmönnum og aðalsmönnum þess tíma, að hluta til leikin og sýnd á sjónvarpsskjám, með lykt og öllu. Í aðalsal er stórt líkan af Dublin miðalda, baðað kastljósum í samræmi við ítarlega lýsingu af segulbandi. Aðgangur kostar £4 og felur líka í sér aðgang að Christ Church dómkirkjunni.

Áður var hér sýning af Dublin víkingaaldar. Þeirri sýningu hefur verið lokað og verður hún væntanlega opnuð aftur í nágrenninu, sennilega í tengslum við endurnýjun götunnar Temple Bar (A3).

Christ Church

Við förum um húsbrúna úr safninu inn í dómkirkjuna.

Christ Church er ein elzta kirkja borgarinnar, reist 1230 í blöndu af síðrómönskum og gotneskum stíl, en verulega breytt árið 1875. Norðurveggur kirkjuskipsins ásamt svifsteigum, þverskipin og vesturhluti kórsins eru upprunaleg. (Sjá mynd framan á kápu)
Farið er út úr kirkjunni um glæsilegar suðurdyr í síðrómönskum stíl. Þar fyrir utan sjást leifar bænhúss frá 1230.

Þar sem Christ Church er núna, var áður timburkirkja víkinga frá 1038.

Villimenn borgarstjórnarinnar í Dublin létu fyrir nokkrum árum reisa ógnvekjandi borgarskrifstofur ofan á minjum víkingaaldar norðan við Christ Church og eyðilögðu við það tækifæri nokkuð af elzta hluta borgarinnar (A3).

City Hall

Við förum til vesturs frá kirkjunni eftir Christ Church Place og Lord Edward Street, alls um 200 metra leið að ráðhúsi borgarinnar.
City Hall var reist 1769-1779 sem mikilúðleg kauphöll borgarinnar, en breytt í ráðhús 1852. Voldugar kórintusúlur varða dyr á öllum hliðum hallarinnar. Í hringsal anddyris eru veggferskur, sem sýna borgarsöguna (B3).

Dublin Castle

Við förum meðfram City Hall upp að borgarkastalanum, sem er beint aftan við ráðhúsið, og förum um undirgöng inn í efri kastalagarðinn.

Dublin Castle var reistur 1204 til varnar brezkum yfirráðum yfir Írlandi. Smám saman var kastalanum breytt í stjórnarhöll, sem nú er sumpart frá síðari hluta 17. aldar og sumpart frá miðri 18. öld.

Andspænis okkur eru ríkissalirnir, sem eru opnir almenningi, aðgangur £1, gengið inn úr neðri kastalagarðinum að austanverðu.
Fyrir aftan okkur, þar sem við komum inn í efri garðinn, er Castle Hall, fallegt hús með háum turni frá 1750. Úr þeim turni var krúnudjásnunum stolið árið 1907 og hafa þau síðan ekki fundizt.

Í neðra garði er Most Holy Trinity kirkjan frá 1814 og fyrir aftan hana púðurturninn, sem er elzti hluti kastalans, frá 1202-1228 (B3).

Temple Bar

Við göngum frá kastalanum út á Dame Street, yfir götuna og nokkrum metrum austar niður Sycamore Street um 150 metra leið niður á Temple Bar, þar sem við beygjum til hægri.

Temple Bar er líflegasta kráa-, kaffihúsa- og kokkhúsagata borgarinnar um þessar mundir. Þetta er þröng göngugata með ýmsum hliðarsundum, fullum af lífi og fjöri. Einhvern veginn hefur þessi gata sloppið að mestu við voðaverk borgarskipulagsins. Hún er orðin að vin í eyðimörkinni (C4).

Ha’penny Bridge

Við beygjum úr Temple Bar nokkra metra niður sundið Merchant’s Arch og komum þar að göngubrú yfir ána Liffey.

Ha’penny Bridge dregur nafn af brúartolli, sem tekinn var af vegfarendum allt fram til 1919. Þessi smíðajárnsbrú var reist 1816 og er skemmtilegasta brúin af ótalmörgum, sem tengja vinstri og hægri bakka árinnar Liffey (C4).

O’Connell Street

Við förum yfir brúna, beygjum til hægri eftir árbakkanum Bachelors Walk tæpra 300 metra leið og síðan til vinstri inn í O’Connell Street, helztu breiðgötu borgarinnar.

Breiðar gangstéttir og breið eyja veita trjám og höggmyndum og vegfarendum skjól fyrir stríðri bílaumferð. Einu sinni var þetta helzta rúntgata miðbæjarins, en fyrir löngu orðið að víkja fyrir göngugötunni Grafton Street. Enn eru hér kvikmyndahús og skyndibitastaðir (C5).

General Post Office

Við göngum tæpa 200 metra inn O’Connell Street, þar sem fyrir okkur verður mikil höll á vinstri hönd.
Aðalpósthús borgarinnar er í mikilli höll frá 1814 við vesturhlið O’Connell Street og snýr miklu og jónísku súlnariði að götunni.
Frægust er hún fyrir hlutverkið í páskauppreisninni 1916. Lýðveldisyfirlýsingin var lesin upp af tröppum hennar. Hún var þá höfuðstöð uppreisnarmanna og varð fyrir skothríð brezkra hermanna. Hún ber enn ör frá þeim tíma, þótt að mestu hafi verið gert við skemmdirnar (C5).

Custom House

Við göngum til baka niður að ánni og síðan 300 metra til vinstri eftir bakkanum.

Hér er Custom House, löng og lág höll frá 1791, með hvolfþaki og dórískri súlnaframhlið, af sumum talin fegursta hús borgarinnar. Þetta var áður tollhús, en er nú stjórnarskrifstofa. Höllin hefur verið endurreist eftir mikinn bruna, sem varð þar 1921 (D5).

Bank of Ireland

Við höldum til baka eftir árbakkanum, förum yfir O’Connell brúna, sem frægust er fyrir að vera breiðari en hún er löng, og göngum 200 metra inn breiðgötuna Westmoreland Street, þar sem við komum inn á torgið College Green. Okkur á vinstri hönd er Bank of Ireland.

Bogadregin höll Írlandsbanka í nýgnæfum stíl var áður þinghús Írlands, reist að mestu leyti 1728. Gamli aðalinngangurinn að sunnanverðu er varðaður jónískum súlnaröðum umhverfis ferhyrnt port, og út frá því liggja bogadregnar hliðarálmur hallarinnar.

Bank of Ireland tók við höllinni 1803, en húsakynni Lávarðadeildarinnar og hin fínu veggteppi hennar hafa verið varðveitt óbreytt. Hægt er að fá að skoða þau með því að spyrja leyfis á staðnum (C4).

St Andrew’s

Við förum úr bankanum og aftur út á College Green, sem sveigist eftir framhlið bankans. Handan torgsins, 100 metrum vestar, er lítil gata, St Andrew Street, upp að St Andrew’s kirkjunni, tæpum 50 metrum ofan torgsins.

Þar sem St Andrew’s kirkjan er nú, var miðstöð víkinga, þegar þeir réðu í Dublin fyrir tíu öldum. Þá var hér “Þingmót”, þar sem víkingar komu saman til þings á svipaðan hátt og á Íslandi á sama tíma (C3).

Trinity College

Við förum til baka niður brekkuna og austur College Green. Handan torgsins að austanverðu er Trinity College, skáhallt á móti Írlandsbanka.

Trinity College var stofnaður 1592 sem prestaskóli ensku biskupakirkjunnar, en er nú almennur borgarháskóli með 7000 nemendum. Við förum hér inn um aðalinnganginn, sem reistur var 1755-1759, og komum inn á 16 hektara háskólasvæði með mörgum höllum umhverfis steinlagðar stéttir og gróna garða (D4).

Book of Kells

Við stefnum yfir stéttina að strangri höll frá 1712-1732, hægra megin fyrir miðju.

Það er bókasafn skólans, eitt fjögurra höfuðbókasafna landsins. Höllin var áður léttari að svip, þegar opin súlnagöng voru á jarðhæðinni.

Hin frægu fornrit Íra eru í bókasafni Trinity College. Hæst ber þar Kells-bók, fagurlega lýst kálfskinnshandrit guðspjallanna fjögurra á latínu frá upphafi níundu aldar. Bókin er til sýnis í safninu ásamt fleiri dýrgripum af því tagi, svo sem Durrow-bók frá upphafi áttundu aldar, Dimma-bók og Armagh-bók. Aðgangur £1,75, lokað sunnudaga.

Einnig er gaman að skoða aðalsal bókasafnsins, langan og mjóan og háan sal á tveimur hæðum (D3).

Grafton Street

Við förum aftur út um aðalinngang háskólans og beygjum þar til vinstri meðfram framhliðinni um 100 metra leið, förum yfir Nassau Street og inn í Grafton Street göngugötuna.

Grafton Street liggur milli Trinity College og St Stephen’s Green og er burðarás miðbæjarins. Þaðan er stytzt til allra átta ferðamannsins og þar er skemmtilegast mannlífið. Hér er líka kaffihúsið Bewley’s, sem telja má miðpunkt borgarinnar.

Hér á götunni reyna tónlistarmenn að vinna sér inn skilding og hér eru seld blóm á götuhornum. Hér er mest af glæsilegustu verzlununum og nokkur vöruhús í dýrari kantinum. Hér streymir mannhafið alla daga vikunnar frá morgni til kvölds (C3).

Powerscourt

Við förum beint frá Grafton Street um húsasund rétt sunnan við Bewley’s eða tæpum 50 metrum sunnar frá þvergötunni fyrir framan Westbury hótel inn verzlanasund hótelsins, og komum í báðum tilvikum að bakhlið Powerscourt við Clarendon Street. Þar beygjum við til vinstri og förum inn í Powerscourt á suðausturhorni þess.

Powerscourt er í borgarhöll frá 1771. Höllinni og hallarportinu hefur verið breytt af nærfærni og smekkvísi í skemmtilega verzlanakringlu á þremur hæðum undir léttu timbur- og glerþaki, full af svölum út og suður, sumar úr 200 ára gömlum viði. Þar eru skemmtilegar smábúðir og mjög góð veitingahús. Á efstu hæð er verzlun, sem rekin er af handverksráði Írlands. Í hádeginu eru oft klassískir tónleikar á palli í portinu. Þarna er hægt að vera allan daginn í góðu yfirlæti (C3).

Hibernian Way

Við förum sömu leið til baka til Grafton Street og förum í hina áttina tæpa 100 metra inn Lemon Street og áfram inn í verzlanamiðstöðina Hibernian Way.

Margar fínustu tízkubúðir borgarinnar eru í Hibernian Way (D3).

Mansion House

Við förum út úr Hibernian Way út á Dawson Street, þar sem við beygjum til hægri og göngum 100 metra, þar sem við sjáum litla og ljúfa höll handan götunnar.

Mansion House var reist 1705 og gerð að borgarstjórasetri 1715. Að hallarbaki er stærsti veizlusalur borgarinnar, reistur 1821. Þar fundaði fyrsta þing Írlands 1919 til að samþykkja sjálfstæðisyfirlýsingu landsins (D2).

St Stephen’s Green

Við förum áfram eftir Dawson Street tæpa 100 metra út að garðinum St Stephen’s Green og förum inn í garðinn.

St Stephen’s Green er 9 hektara garður í enskum stíl, með tjörnum og brúm, gosbrunnum og öndum, blómahafi og vel slegnum flötum, barnaleikvelli og myndastyttum, upprunalega girtur 1663, en opnaður almenningi 1877.

Ýmsar þekktar hallir snúa út að garðinum, svo sem Shelbourne-hótel að norðanverðu og utanríkisráðuneytið, Iveagh House, að sunnanverðu.

Frá hornum garðsins liggja þekktar götur, svo sem Grafton Street til norðurs frá norðvesturhorninu og Merrion Row til austurs frá norðausturhorninu (CD2).

National Museum

Við förum út úr garðinum að norðanverðu, á svipuðum slóðum og við komum inn í hann, göngum að Shelbourne-hóteli og förum inn þvergötuna við hlið þess, Kildare Street. Þá götu göngum við 150 metra að inngangi þjóðminjasafnsins á hægri hönd.

The National Museum er bókstaflega gullnáma. Þar er mikið af skartgripum úr gulli frá forsögulegum tíma á Írlandi og frá keltneskum tíma, hálsfestar, armbönd, hljóðfæri, kaleikar og leikföng. Margir gripanna eru frá 1. öld f.Kr., en glæsilegustu gripirnir eru frá 8. öld, frá því rétt áður en víkingar hófu ránsferðir 795.

Safngripunum er haganlega fyrir komið, svo að rúmt er um þá, þótt safnið sé ekki stórt. Vegna rúmleysis er gert ráð fyrir, að hluti safnsins verði innan tíðar fluttur á annan stað í miðbænum.

Óvenjulega góð veitingabúð er í safninu (D2).

Leinster House

Við innganginn er rimlagirðing. Handan hennar sjáum við þjóðarbókhlöðuna andspænis þjóðminjasafninu og þinghús Írlands hægra megin, milli safnanna.

Írska þingið situr í Leinster House, sem var reist 1745 og gert að þinghúsi 1922. Hægt er að fá aðgang að þingpalli neðri deildar, og þegar þingið situr ekki, er hægt að fara í skoðunarferðir um höllina (D2).

National Library

Við göngum áfram norður Kildare Street um 50 metra að inngangi þjóðarbókhlöðunnar.

The National Library er fyrst og fremst áhugaverð fyrir Íra og þá, sem leita að forfeðrum sínum. Þar eru yfir ein milljón bóka og mikið af fornum handritum, auk landakorta og gamalla dagblaða. Húsbúnaður er úr dökkum viði og lampaskermar eru grænir (D3).

National Gallery

Við höldum áfram 100 metra norður Kildare Street, beygjum til vinstri í Leinster Street og áfram Clare Street, 200 metra leið, og svo til hægri að West Merrion Square. Við göngum innan við 100 metra frá götuhorninu og komum að inngangi þjóðlistasafnsins.

The National Gallery er hefðbundið listaverkasafn, sem leggur áherzlu á evrópska listasögu. Þar eru verk brezkra, hollenzkra og ítalskra listamanna fyrri alda. Þar eru einnig verk Jack B. Yeats, mesta málara Írlands og bróður rithöfundarins William Yeats (D3).

Merrion Square

Við förum út úr safninu og inn í garðinn handan götunnar.

Merrion Square er einn fegursti garður miðbæjarins, lagður 1762, friðarreitur í umferðarþunga miðbæjarins. Kringum hann eru stílhrein hús með hinum þekktu, vel máluðu írsku útihurðum. Við garðinn sýna oft alþýðlegir málarar listaverk sín (E2).

Natural History Museum

Við förum aftur úr garðinum að inngangi þjóðlistasafnsins og göngum götuna til suðurs, framhjá lokuðum garði þinghússins að náttúrugripasafninu, Museum of Natural History, um 100 metra leið.

Í náttúrugripasafninu eru beinagrindur af hinu forna og útdauða dádýri Írlands, af hvölum og öðru því, sem tíðkast í slíkum söfnum. Uppstilling safnsins er gamaldags (E2).

Baggot Street

Við höldum áfram eftir Upper Merrion Street framhjá stjórnarráði Írlands, rúmlega 100 metra leið að næstu gatnamótum.

Hér mætast hægra megin Merrion Row og vinstra megin Lower Baggot Street, helztu götur söngkráa, sem eru írsk sérgrein. Frægar krár við Merrion Row eru Donoghue’s og Foley’s og við Lower Baggot Street eru Doheny & Nesbitt’s, Baggot Inn og Toner’s. Á þessum slóðum eru líka góð veitingahús (DE2).

Fitzwilliam Square

Frá enda Upper Merrion Street göngum við um 100 metra til vinstri og austur Lower Baggot Street og beygjum síðan til hægri inn í Lower Pembroke Street, þar sem 150 metra leið er að Fitzwilliam Square.

Fitzwilliam Square er bezt varðveitti garðurinn frá georgískum tíma, lagður 1825. Í kringum hann eru stílhrein hús þess tíma, mörg hver með skartmáluðum útihurðum (E1).

Hér ljúkum við gönguferðinni um miðbæinn í Dublin, förum til baka til Baggot Street og hvílum okkur á einni af kránum þar.

1995

© Jónas Kristjánsson