Dublin skemmtun

Ferðir

Krárnar eru auðvitað hornsteinn skemmtanalífsins í Dublin. Við munum í þessum kafla nærri eingöngu dvelja við þá hliðina. Við förum í stórum dráttum frá norðvestri til suðvesturs í miðborginni, þannig að þræða má alla staðina í einu kráarrölti, ef mikið liggur við. En fyrst eru það íþróttirnar.

Gaelic Football

Vinsælasta flokkaíþrótt Íra er Gaelic Football, ákaflega hörkulegur leikur, sem er á bilinu milli knattspyrnu og rugby. Þegar úrslitaleikur landsmótsins er háður á Croke Park leikvanginum í Dublin, liggur við mannauðn í héruðunum að baki úrslitaliðanna.
Hurling er líka vinsæl íþrótt, leikin á sömu völlum og football, en boltinn er sleginn með kylfu.

Veðreiðar eru í Phoenix Park og góðir golfvellir eru auðvitað út um allt land.

Brazen Head

Elzta krá borgarinnar er Brazen Head og lætur lítið yfir sér niðri við ána Liffey, þar sem Lower Bridge Street liggur niður að henni, um 500 metrum frá Christ Church.

Veitingaleyfið er frá 1666, en talið er, að krá hafi verið hér frá 13. öld. Kráin er að öðru leyti frægust fyrir, að Robert Emmet skipulagði þar hina misheppnuðu uppreisn gegn Bretum árið 1803.

Kráin er tvískipt með ýmsum rangölum inn af steinlögðu porti. Lágt er til lofts og lýsing daufleg, kráargestir friðsælli en víðast hvar, en þægilegir viðskiptis eins og aðrir Írar. Ljóðalestur og írsk tónlist eru hér í hávegum höfð.

(The Brazen Head, 20 Lower Bridge Street, A3)

Palace

Dæmigerð reykjarmakkarkrá er Palace á góðum stað í götunni, sem liggur í framhaldi af Temple Bar að Westmoreland Street, sömu megin götunnar og hótelið Temple Bar.

Viðarskilrúm með speglum mynda stúkur við þungan eðalviðarbar og virðulegan barskápavegg. Inn af kránni er ferningslaga setustofa, þar sem eru sófar og kringlótt sófaborð.

Hér er mikið drukkið og enn meira reykt. Gestir virðast aðallega vera verkamenn og fjölmiðlafólk.

(Palace Bar, 21 Fleet Street, C4)

Mulligan’s

Þreytulega blaðamannakráin Mulligan’s við Poolbeg Street rétt hjá höfninni, dagblöðunum og Trinity-háskóla er ein af elztu krám borgarinnar, frá 1782, og ber aldurinn með sér. Hennar er getið í skáldsögunni Dubliners eftir James Joyce.

Kráin liggur í U með einum bar á hvora hlið og setuklefa þar á milli úti við glugga. Lágt er til lofts, dimmt og drungalegt, og húsbúnaður eins slitinn og frekast getur orðið. Tvö herbergi eru inn af kránni, óvistleg með öllu. Húsbúnaður er tilviljanakenndur, fátæklegur og ósmekklegur.

Gestir eru margir ölmóðir, enda er bjórinn talinn einna beztur í borginni. Hér rennur hann í stríðum straumum frá morgni til kvölds. Hingað koma blaðamenn af skrifstofunum í kring, hafnarverkamenn og námsmenn.

(Mulligan’s, 8 Poolbeg Street, D4)

Stag’s Head

Bezta kráarmatreiðsla miðbæjarins er í gamalli og torfundinni krá frá 1770, Stag’s Head, sem er í litlu sundi samsíða Dame Street.
Þessi fegursta krá borgarinnar var færð í núverandi búning rétt fyrir aldamót og bjargaði nýlega lífi sínu með aðstoð húsfriðunarmanna.

Hún er í fögrum Viktoríustíl með stórum speglum og bogariði yfir bar, gömlu timburlofti, miklum hjartarhaus yfir miðjum bar, mahóníborðum með marmaraplötum, steindum gluggum og fagurgrænum sófum.

Matreiðslan er einföld og maturinn bragðgóður, soðið beikon og hvítkál, írsk kjötsúpa, samlokur og borgarar með frönskum.
Gestir eru margir hverjir vel stæðir, meðal annarra mikið af lögmönnum.

(Stag’s Head, 1 Dame Court / Dame Lane, C3)

Old Stand

Helzta íþróttaáhugakrá miðborgarinnar er Old Stand í hliðargötunum að baki Grafton Street, um 100 metrum frá Powerscourt verzlunarmiðstöðinni.

Þetta er fremur björt krá, tvískipt, og óvenjulega rúmgóð, hreinleg og einföld að allri gerð, ekki mjög gömul að húsbúnaði. Innan dyra er hægt að ganga slitið trégólfið hringinn umhverfis barina tvo.

Hér safnast margir áhugamenn um keppnisíþróttir, svo sem veðreiðar og írskan slagsmálabolta. Margir fá sér snæðing.

(Old Stand, Exchequer Street, C3)

O’Neill’s

Nærtækasta stúdentakrá miðbæjarins er O’Neill’s á horninu andspænis St Andrews kirkju, 100 metrum frá aðalfumferðartorginu College Green, þar sem er aðalinngangur Trinity háskóla.

Einkennistákn kráarinnar er stór klukka yfir öðrum innganginum. Þetta er stór, hreinleg, vel viðuð og lítið skreytt krá með töluverðu setuplássi.

Kráin er vel sótt, bæði af stúdentum og borgurum. Menn sækja ekki bara í bjórinn, heldur líka í snarlið.

(O’Neill’s, 2 Suffolk Street, C3)

Bailey

Ein af þremur frægum krám við hina stuttu hliðargötu Duke Street út frá Grafton Street er Bailey, sem skartar dyrunum að 7 Eccles Street, þar sem Leopold Bloom bjó, söguhetjan í Ódysseifi eftir James Joyce.

Þetta er fín krá, teppalögð og búin vönduðum húsgögnum, þar á meðal notalegum sófum og hægindastólum, speglum á áberandi stöðum, meðal annars að barbaki. Hún er björt og nánast nútímaleg. Stórir gluggar snúa að götu, setustofur framan við og innan við og veitingasalur uppi á annarri hæð.

Nú orðið er mest um ferðamenn hér og aðra fína gesti, en áður var þetta samkomustaður skálda og listamanna, blaðamanna og stúdenta. Maturinn er vinsæll.

(The Bailey, 4 Duke Street, C3)

Davy Byrne’s

Tízkukrá uppanna í miðbænum er Davy Byrne’s, andspænis Bailey við Duke Street, frægust fyrir gorgonzola-ostinn og Búrgundarvínið, sem Leopold Bloom fékk sér þar í skáldsögunni Ódysseifi eftir James Joyce.

Innréttingar þessarar björtu kráar eru að hluta til í millistríðsárastíl, með veggmyndum af þekktum rithöfundum, sem voru uppi eftir aldamótin. Að aftanverðu er nýtízkulegri bar með amerísku hanastélssniði.

Hér er flest fólk vel klætt, ungt fólk á uppleið í viðð svipað fólk úr hópi ferðamanna.

(Davy Byrne’s, 21 Duke Street, C3)

Duke

Aðeins innar við sömu götu er ósvikin krá gamla Viktoríutímans, The Duke, fín og rúmgóð og björt, með múrmálverkum og fremur litlu af viði.

Barstólarnir eru bólstraðir og standa á parkettgólfi. Barinn er með steindu gleri að baki. Fínt teppi er á gólfi við útidyr og gefur tóninn. Sófar eru á pöllum við veggi og háir barstólar niðri á gólfinu framan við pallana.

Gestir eru margir hverjir úthverfafólk í innkaupaferð, sem fær sér bjór og snarl í hléi milli búða, enda er verðlagið hagkvæmt, þótt staðurinn sé fínn og snyrtilegur.

(The Duke, 9 Duke Street, D3)

McDaid’s

Bókmenntakráin í miðbænum er hin örsmáa McDaid’s við örstutta þvergötu frá Grafton Street, nánast undir Westbury hóteli. Hér sátu Brendan Behan og fleiri þekktir rithöfundar.

Kráin er fallega skreytt að utan og innan. Afar háir gluggar snúa út að götu, sumpart steindir. Skrautlegar postulínsflísar eru á veggjum undir myndum af Samuel Becket og minna frægum skriffinnum.

Enn þann dag í dag er bókmenntasvipur á kránni, því að hingað koma háskólakennarar og nemendur í bókmenntum til að halda hefðinni við.

(McDaid’s, Harry Street, C3)

Neary’s

Leikhúskrá miðbæjarins er auðvitað að baki Gaiety leikhússins. Leikarainngangur Gaiety og bakinngangur Neary’s standast nokkurn veginn á, en aðalinngangur kráarinnar er við þvergötu út frá Grafton Street.

Kráin er tvískipt, fremur lítil, með stórum speglum. Sérkennilegir gasljósastaurar úr smíðajárni eru á bleiku marmara-barborði. Fínt teppi er á gólfi og þykkar setur í stólum, enda er þetta ekki slordónastaður.

Í hópi viðskiptavina er slæðingur af leikurum og tónlistarmönnum innan um ferðamennina. Peter O’Toole er sagður halda til hér, þegar hann er í Dublin.

(Neary’s, 1 Chatham Street, C2)

Horseshoe

Frægasti hótelbar borgarinnar er Horseshoe Bar í austurenda jarðhæðar Shelbourne-hótels, afar lítill og þétt skipaður.

Með útveggjum eru leðursófar við hringlaga tréborð með öldubrjóti og í miðjunni er skeifulaga barborð með fínum barstólum. Hátt er til lofts og lítið um skreytingar, en mikið um spegla.

Hingað koma vel stæðir ferðamenn, einkum Bandaríkjamenn, því að hér eru löguð hanastél; svo og skartbúið fólk, sem kemur hingað á Benzum og Jagúörum úr úthverfunum.

(The Horseshoe Bar, The Shelbourne Hotel, St Stephen’s Green North, D2)

Foley’s

Söngkrá á uppleið við Merrion Row – Baggot Street kráarásinn reisir íslenzka fánann að húni, þegar tekur að hausta og mörlandar komast í innkaupastuð. Það er Foley’s Lounge Bar, eins konar millistig kráar og veitingasalar.

Þetta er frekar ánægjulegur staður, bjartur og rúmgóður, með teppi á gólfi, imbakassa og málverkasýningu á veggjum og voldugri klukku við endavegg. Brjóstmyndir eru af myndarlegum herrum, en engir eru þeir íslenzkir enn.

Írsk þjóðlög eru leikin og sungin hér öll virk kvöld vikunnar og í hádegi sunnudags, en á sunnudagskvöldum er djassað.
(Foley’s Lounge Bar, Merrion Row, D2)

O’Donoghue’s

Andspænis Foley’s við Merrion Row er ein frægasta söngkrá Írlands, O’Donoghue’s, skuggaleg krá, sem hefur írskar ballöður að sérgrein.

Kráin er lítil og kraðaksleg með rauðum og grænum neonljósum ofan við flöskur og glös í barvegg, þar sem líka eru peningaseðlar frá öllum heimshornum. Á veggjum eru gamlir auglýsingaspeglar.

Kráin hefur verið í fararbroddi endurreisnar írsku ballöðunnar. Gestir koma með gítarana sína, enda er tónlistin ekki skipulögð, heldur kemur upp úr grasrótinni. Hér byrjuðu Dubliners frægðargöngu sína um heimsbyggðina.

(O’Donoghue’s, 15 Merrion Row, D2)

Doheny & Nesbitt’s

Hefðbundin og fremur þreytuleg drykkjukrá stjórnmálanna innan um söngkrárnar í Baggot Street er Doheny & Nesbitt, ein frægasta krá miðbæjarins.

Þetta er afar dimm og afar lítil krá með ljótu dúkagólfi og rifnum auglýsingaspjöldum og speglaauglýsingum á veggjum, svo og stórum leirkerjum uppi undir lofti. Spegluð skilrúm eru við barinn og gera hann enn þrengslalegri.

Kráargestir koma úr þinghúsinu og stjórnarráðinu handan við hornið, stjórnmálamenn, þingfréttaritarar og embættismenn.

(Doheny & Nesbitt, 5 Lower Baggot Street, E2)

Baggot Inn

Rokkkrá miðbæjarins er Baggot Inn, snyrtileg krá við samnefnda söngkráagötu.

Kráin er fremur fínleg og björt af söngkrá að vera, U-laga og tvískipt. Speglar eru á súlum og lág skilrúm við veggi, þar sem hanga málverk og ljósmyndir af rokkurum.

Hingað koma gestir til að hlusta á nýjustu rokkhljómsveitirnar, sem einkum halda tónleika á hæðinni fyrir ofan.

(The Baggot Inn, Lower Baggot Street, D2)

Toner’s

Helzta listamannakrá borgarinnar er Toner’s við Baggot Street, 200 ára gömul krá, sem er að mestu leyti með upprunalegu útliti og raunar næsta þreytuleg.

Við barborð úr mahoní eru speglaðar stúkur og þröngar. Í barveggnum eru miklar skúffur og margar, leifar frá þeim tíma, er hér var einnig nýlenduvöruverzlun. Gamlar bækur eru þar fyrir ofan. Mikið flísaskraut er fyrir barenda og glerskápur með minjagripum andspænis barnum.

Meðal gesta er töluvert af samræðugóðum skáldum og fólki, sem heillast af samræðugóðum skáldum.

(Toner’s, 139 Lower Baggot Street, E1)

Abbey Tavern

Á endastöð borgarjárnbrautarinnar við Howth-höfða í norðri er þjóðlagakrá fyrir ferðamenn, sú bezta af því tagi. Það er Abbey Tavern við bratta götu upp frá höfninni.

Dagskráin fer fram í stórum sal að kráarbaki, þar sem margir rútufarmar ferðamanna sitja og fá sér snæðing við kertaljós fyrir skemmtunina, sem verður flestum minnisstæð.

Hljóðfæraleikararnir og söngvararnir spanna yfir breitt svið írskra þjóðlaga frá ýmsum tímum, fornum og nýjum. Þeir leika einkum á fiðlur og gítara, en einnig á skeiðar og blístrur og pípur. Tónlistin er ósvikin og sagnfræðilega rétt, en nær eigi að síður að hjörtum erlendra áheyrenda. Þetta er fyrsta flokks skemmtun.

Aðgangur án matar kostaði £3, en £28 með mat.

1995

© Jónas Kristjánsson