Mikið framboð af veitingahúsum er í miðborginni. Hér eru valdir staðir, sem allir eru góðir, en misjafnlega dýrir og hver með sínum sérkennum og matreiðslu. Samanlagt gefa þeir góða hugmynd um veitingamennsku borgarinnar. Veitingahúsin eru talin í stafrófsröð.
Ante Room
Einna beztu sjávarréttir miðbæjarins fást í fremur dýru veitingahúsi, Ante Room, í kjallara hótelsins Georgian við Baggot Street, þar sem flestar söngkrárnar eru.
Hann er í ruddastíl, þröngt setinn á hörðum timburstólum, þegar ferðahópar koma, en öðrum þræði rómantískur við kertaljós. Hann er í nokkrum kimum, svo að stærðin leynir á sér.
Matreiðslan er yfirleitt einföld og traust, með bragðgóðri niðurstöðu, þótt undantekningar séu á því, einkum þegar mikið er umleikis vegna ferðahópa. Þjónusta er fagmennskuleg.
Bragðgóður krabbaskelfiskur (crab clams) í hvítlaukssmjöri var borinn fram í miklu magni. Sama var að segja um krækling (mussels) í skelinni. Reyktur villilax var prýðilegur. Þetta voru forréttir.
Hvítvínssoðin risaharpa (king scallops) í rjómasósu með kartöflustöppu (piped potatos) var afar góð og meyr, bæði vöðvinn og fiskurinn.
Pönnusteiktar risarækjur (tiger prawns) í hvítlauk, með graslauk og pasta voru hins vegar ekki nógu meyrar. Úrbeinaður og ofnbakaður Dover-koli með sítrónusmjöri var einstaklega bragðgóður.
Súkkulaðiterta var góð og enn betri var eins konar ís með karamellubitum (parfait).
Gott hvítvín er á boðstólum, til dæmis góður Muscadet á £16.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði £44 auk drykkjarfanga.
(Ante Room Seafood Restaurant, 20 Lower Baggot Street, sími 660 4716, E2)
Bewley’s
Við miðja göngugötuna Grafton Street, sem er burðarás miðbæjarins, er ódýra kaffistofan Bewley’s, sem um langan aldur hefur verið þekktasti áningarstaður borgarbúa í verzlunarferðum. Þetta er móðurstöð samnefndrar kaffihúsakeðju, í senn morgunverðarstofa, kaffihús og hádegismatstaður.
Fremst er bakarí, en inn af því og upp af því eru samtals þrír sjálfsafgreiðslusalir og tveir þjónustusalir. Skemmtilegast er að vera í þjónustusalnum á millihæðinni ofan við bakaríið, helzt við litlu marmaraborðin úti við opna glugga með útsýni niður á göngugötuna.
Fallegust innrétting er í sjálfsafgreiðslusal inn af bakaríinu, þar sem eru stórir og fallegir gluggar steindir ofan við þykka og rauða sófa. Þar er yfirleitt mest um að vera.
Hér sitja borgarbúar lon og don og lesa blöðin, fá sér te og hafragraut (porridge); skóna (scones) eða múffur (muffins); egg og beikon; hádegissalöt og létta rétti, kalda og heita. Kaffi og te eru af mörgum gerðum. Sumir ferðamenn fá sér morgunverð hér fremur en á hótelinu.
Hádegismatur fyrir tvo kostaði £14 auk drykkjarfanga.
(Bewley’s, 78-79 Grafton Street, sími 677 6761, C3)
Blazing Salads
Bezta grænmetisréttastofa miðbæjarins er ódýr sjálfsafgreiðslustaður á þriðju hæð verzlunarkringlunnar Powerscourt.
Viðarinnréttingar eru grófar, opin skilrúm og lakkað gólf, gegnheilar borðplötur á renndum fótum og tréstólar með tágasetu.
Staðurinn býður ferskt pressaða ávaxtasafa kryddaða, lífrænt ræktað borðvín, marga rétti dagsins og salöt af ýmsu tagi, að flestu leyti fjölbreyttara úrval en tíðkast á slíkum stöðum. Í matreiðslunni er hunang notað í stað sykurs og grænmetisseyði í stað kjötseyðis. Gestir eru flestir ungir.
Bezt er að fara eftir tilboðum dagsins, sem skráð eru á krítartöflu ofan við afgreiðsludiskinn. Í bland við þau fást svo hefðbundnir réttir þessarar tegundar matreiðslu.
Grænmetiskássa (couscous) bjó yfir sætu, góðu bragði, með ívafi sterkrar paprikusósu (harissa). Þangvafið grænmeti frísklegt var ekki síður gott. Olíuvætt hrásalat (tabbouleh) með sprengdu hveiti (cracked wheat), tómötum og grænmeti er þekktur írskur réttur, afar góður á þessum stað. Hefðbundið kartöflusalat var líka gott, svo og baunakássa. Gulrótarterta með þeyttum rjóma var sérstaklega góð.
Hádegismatur fyrir tvo kostaði £12 auk drykkjarfanga.
(Blazing Salads, Powerscourt Townhouse Centre, Clarendon Street, sími 671 9552, C3)
Cave
Ein notalegasta matstofa miðbæjarins er fremur ódýr og ekta frönsk bistró, lítil kjallarahola, La Cave, í hliðargötu út frá Grafton Street.
Það komast varla nema 30 manns fyrir í þessum rauða og dökka stað, með rauðum veggjum, rauðu teppi, rauðum borðlömpum og dökkum sófum og pílárastólum. Hvítir og rauðir pappírsdúkar eru á borðum, svo og rauðar pappírsþurrkur. Barinn tekur mikið af plássinu.
Edith Piaf og franskir raularar heyrast lágt af bandi. Frönsk ljóð eru lesin upp á sunnudagskvöldum. Þetta er fyrst og fremst franskur staður franskrar matreiðslu. Hér er vinstri bakki Signu kominn á hægri bakka Liffu.
Þjónusta er góð og hröð. Nóg af brauði og smjöri er á boðstólum. Þjónustugjald er ekki sett á reikninga, svo að gestir þurfa sjálfir að bæta því við.
Tabbouleh var afar gott forréttasalat. Það er raunar írskur réttur með írsku nafni, olíuvætt hrásalat með sprengdu hveiti, tómötum og grænu laufi. Sveitakæfa (terrine de campagne) var frönskuleg og góð.
Góð sjávarréttapanna (cassoulet de fruits de mer) hafði að geyma krækling, litlar rækjur, smokkfisk og fisk í tómatsósu. Lambasteik var fallega milt elduð og bragðgóð eftir því.
Bourdalou-terta reyndist vera eins konar peru-pæ með perugraut, afar gott.
Á svona stað var auðvitað hægt að fá sterkt espresso-kaffi samasem beint í æð.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £14 og kvöldverður £28 auk drykkjarfanga.
(La Cave, 28 South Anne Street, sími 679 4409, C2)
Chicago
Beztu pizzur borgarinnar eru í Chicago Pizza Pie Factory, fremur ódýrum veitingasal niðri í kjallara á horninu, þar sem Grafton Street mætir St Stephen’s Green. Þetta eru þykk pönnupizzu-pæ í bandarískum Chicago-stíl.
Einkenni staðarins er mikill glerveggur milli veitingasalar og bars, þar sem eru 700-800 áfengisflöskur. Salurinn er víður og hár, með plakötum og umferðarskiltum á rauðum veggjum. Hárauðir og dimmgrænir borðdúkar eru á borðum. Á gólfi er fínasta parket.
Hér eru fjölskyldur velkomnar og mikið látið með börnin, sem fá stórar blöðrur og óskafæðu, allt frá pizzum yfir í rjómaísa. Þjónusta er fremur vingjarnleg og góð, en ung og óskóluð.
Pizzur kostuðu £4, tveggja manna £8 og þriggja manna £12. Þær hurfu í stríðum straumum í gesti um allan sal.
Fylltir sveppir með smjöri, brauðmylsnu, osti og hvítlauk voru fremur góðir.
Grískt salat var í meðallagi gott og í miklu magni, með jöklasalati, olífum, feta-osti, gúrku og tómati, en ég saknaði rauðlauks og oregano, sem gefa snerpu og áttu að fylgja.
Súkkulaðiterta með súkkulaðisósu var fremur góð og ákaflega matarmikil.
Hádegisverður eða kvöldverður fyrir tvo kostaði £28 auk drykkjarfanga.
(Chicago Pizza Pie Factory, St Stephen’s Green, sími 478 1233, C2)
Cooke’s Café
Einn helzti tízkustaður miðbæjarins er lítið og einfalt veitingahorn vandaðrar matreiðslu og afar hátimbraðs verðlags, Cooke’s Café, með stórum gluggum fyrir framan aðalinngang verzlunarkringlunnar Powerscourt.
Miðjarðarhafsmyndir eru málaðar beint á veggi og hansatjöld milda risagluggana. Opið er inn í þröngt eldhús. Þröngt er líka setið á hörðum tréstólum við gólfdúkuð borð á flísagólfi. Þetta á að gefa slitinn Miðjarðarhafsbaksvip og tekst ágætlega.
Gestir eru málglaðir og háma í sig olífur meðan þeir bíða eftir matnum. Þeir slóra ekki við matinn, því að nokkur holl gesta eru á hverju kvöldi. Staðurinn er umsetinn fjársterku menntafólki.
Matreiðslan er í nútímalegum stíl, ættuðum frá Kaliforníu, en hér að mestu leyti að ítölskum hætti. Þetta er vönduð matreiðsla með Hollywood-stælum í framsetningu. Brauðið er heimabakað og afar gott.
Reykt þorskhrogn með sýrðum rjóma voru hrogn úr túbu með óhrærðum, þéttum rjóma beint úr dollunni. Rauðpiparsúpa með geitaosti var hins vegar sérstök og eftirminnileg.
Pönnusteiktur hafurriði (sea bass) með pipar, tómati, kryddi, hvítvíni og olífuolíu var afar góður á bragðið. Sömuleiðis ristuð og meyr akurhæna með blaðseljufrauði og sítrónu-blóðbergssmjöri. Pasta er talið gott á þessum stað.
Bláber með þeyttum rjóma voru stór og bragðgóð, með óþarfri vanillusósu til hliðar.
Þetta er einn fárra gæðastaða, sem eru opnir á sunnudögum í miðbænum. Ekki er hægt að setja þjórfé á krítarkort.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £35 og kvöldverður £70 auk drykkjarfanga.
(Cooke’s Café, 14 South William Street, sími 679 0536, C3)
Elephant & Castle
Annar tízkustaður vandaðrar matreiðslu er milliverðsstofan Elephant & Castle í veitingahúsagötunni Temple Bar.
Þar er alltaf fullt og gestir leysa hverjir aðra ört af hólmi. Ekki er tekið við pöntunum, gestir eru látnir bíða á kránni á móti eftir lausu borði og eru sóttir í fyllingu tímans. Biðin er ekki löng.
Húsakynni eru óformleg, borðplötur berar, sætaskipun fremur þröng og kliður töluverður. Karlar fara úr jökkum og taka til óspilltra málanna við snæðinginn. Þjónusta er markviss og skjót, fellur greinilega í geð gesta.
Matreiðslan er fyrsta flokks og minnir dálítið á Hard Rock Café-keðjuna. Hráefnið er yfirleitt mjög gott og kokkarnir eru ungt fólk á uppleið.
Maíssúpa (corn chowder) var bragðmikil og góð, en mexíkósk piparsúpa (chilli soup) var þó enn bragðmeiri og betri. Bezti forrétturinn var hrærð eggaldin-samloka (guaccamole).
Pastaþræðir (fettucini) með kjúklingakjöti voru mjög góðir, sömuleiðis grilluð nautasteik, sem elduð er eins lítið og gesturinn vill. Hér fást líka hamborgarar og hliðstæð lýðræðisfæða fyrir ungt fólk.
Verðið er teygjanlegt í báða enda. Kvöldverður kostaði okkur £40 auk drykkjarfanga. Hægt er að borða fyrir mun lægra verð.
(Elephant & Castle, 18 Temple Bar, sími 679 3121, C4)
Frères Jacques
Annað af tveimur beztu veitingahúsum bæjarins er Frères Jacques við Dame Street, fremur dýr staður andspænis Dublin Castle og City Hall.
Gengið er inn í veitingahúsið úr litlu göngusundi út frá Dame Street. Staðurinn er lítill og langur og mjór og tvískiptur. Annar hluti er frá barnum og út að götu, en hinn er yfir eldhúsinu, sem er innan við barinn. Innbú er franskt að sjá, skápar með Feneyjahurðum, virðulegt veggfóður og vandlega dúkuð borð.
Þjónusta er frönsk og afar kurteis, en mettuð írskri ljúfmennsku. Hér er svo notalegt að vera, að margir gestir koma einir til að ná stemmningu frá fremsta matargerðarlandi heims. Matreiðslan sveiflast frá hefðbundinni línu yfir í nýfranska.
Kræklingur í afar þunnri tómatsósu var mjög mjúkur og góður. Enn betri var andalifur í púrtvínssósu. Lambalifur var undurljúf, með chanterelle-sveppum. Kræklinga- og fennikkusúpa var nánast fullkomin.
Sjóbleikja var afar ljúf, enda hæfilega lítið elduð, vafin þunnt sneiddri skinku, sem gaf fiskinum heitreykt bragð. Kjúklingabringa í mildri karrí og mangósósu hvarf í skuggann, þótt góð væri.
Heitur hrísgrjónabúðingur með aprikósum var góður og efnismikill eftirréttur. Hindberjafroða Romanoff í stökku horni, með jarðarberjum og rifsberjum á diskrönd, var konungleg.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £30 og kvöldverður £45 auk drykkjarfanga.
(Les Frères Jacques, 74 Dame Street, sími 679 4555, B4)
Gallagher’s
Írska sveitaeldhúsið hefur ágætan fulltrúa í miðbænum, milliverðsstaðinn Gallagher’s við veitingahúsagötuna Temple Bar.
Þetta er dimmur og þröngur staður, með gömlum viðarveggjum, gömlum tréborðum og gömlu trégólfi, einkar notalegur staður. Írskt raul er í hátölurum og logandi eldur í arni, einnig í hádeginu.
Móttökur eru írskar og ágætar, en staðurinn oftast fullur og ekki tekið við pöntunum, svo að fólk fer í krána á móti og bíður eftir að verða sótt.
Írskt kjötseyði var ágætt, einnig smjörvuð og mjúk baunakæfa (butter bean paste) með afar þykku og grófu rúgbrauði.
Sérgrein hússins er boxty, þykkar og seigar pönnukökur úr kartöfludeigi, sem eru vafðar utan um heitan rétt. Í gamla daga voru þær borðaðar einar sér, voru fátæklingamatur landsins og þá gerðar án nokkurs hveitis, sem þótti of dýrt, ef það var fáanlegt.
Lamba-boxty með jógúrt og mintusósu var borið fram með rauðkáli, blómkáli og gulrótum. Nauta-boxty með piparrótarsósu var betra. Bauna-boxty var einna bezt, enda mest í stíl.
Einnig er hægt að fá frægasta rétt Írlands, kjötsúpuna Irish Stew, svo og annan þekktan þjóðarrétt, blómkál með beikoni.
Brauð- og smjörbúðingur með rúsínum, þeyttum rjóma og eggjahvítur var verðugur endir á þessu þjóðlega borðhaldi.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £16 og kvöldverður £36 auk drykkjarfanga.
(Gallagher’s Boxty House, 20-21 Temple Bar, sími 677 2762, C4)
Good World
Bezta Kínahúsið í Dublin er hið ódýra Good World við eina af aðalgötum miðbæjarins, South Great George’s Street, sem liggur niður á Dame Street rétt austan við Dublin Castle.
Þetta er mjög skemmtilegt fjölskylduveitingahús, fjörlegast í hádeginu á sunnudögum, þegar fjölmennar kínverskar fjölskyldur halda upp á daginn með því að fara út að borða Dim Sum, kínverska smárétti, sem eru ættaðir frá Hong Kong. Allir virðast þekkja alla við það tækifæri.
Good World er fremur fínt og virðulegt af kínverskum veitingastað að vera, búið vönduðum húsgögnum og teppalagt í hólf og gólf. Lítið er um kínverskar skreytingar, sem einkenna lakari staði af þessu tagi.
Smáréttirnir koma í turnum af gufusuðuskálum úr málmi. Sumir eru gufusoðnir og aðrir djúpsteiktir. Hver réttur kostar £2. Gestir velja það, sem þeim lízt á, og úrvalið verður fjölbreytt, þar sem fjölmennt er við borð.
Réttirnir eru ótal margir, sumir mjúkir og aðrir harðir, sumir sætir og aðrir súrir, sumir sterkir og aðrir mildir. Með þessu eru snædd hrísgrjón og drukkið grænt te, til dæmis jasmínute.
Djúpsteikt og stökkt Won Ton; límkenndar og uppvafðar pönnukökurnar Cheung Fun úr hrísgrjónahveiti, fylltar svínakjöti; og djúpsteiktu kjötbollurnar Char Siu eru dæmi um fjölbreytni í smáréttunum.
Hádegisveizla fyrir tvo kostaði £18 auk drykkjarfanga.
(Good World, 18 South Great George’s Street, sími 677 5373, BC3)
Grey Door
Einn virðulegasti matstaður miðbæjarins er Grey Door, fremur dýr salur á samnefndu hóteli í rólegu hverfi átjándu aldar húsa milli Baggot Street og Leeson Street og hefur rússneska og finnska matreiðslu að sérgrein sinni, einkum á kvöldin.
Staðurinn er í þremur stofum á fyrstu hæð hússins, einni rauðri, annarri blárri og hinni þriðju grænni. Gömul málverk hanga á veggjum, ljósakrónur í loftum, hvítt og þykkt er á borðum og bláfóðraðir stólar eru þægilegir.
Rússneskar pönnukökur (blini) voru eftirminnilegar, ýmist með reyktum laxi, styrjuhrognum, laxahrognum eða sveppum. Kálfalifrarkæfa var góð, borin fram með sultu, ristuðu brauði og salati. Laxasúpa með lauki, gúrku og kapers var sérstaklega góð.
Léttreyktur lax, ofnbakaður undir osta- krabba- og kryddskorpu, borinn fram með sólseljusósu úr sýrðum rjóma var til fyrirmyndar.
Ofnsteikt lambalæri í hvítlauks- og sædaggarsafa var ljúft, með nýjum hýðiskartöflum og blönduðu grænmeti soðnu. Nautasteikursneiðar á víxl við laxasneiðar með sinneps- og svepparjómasósu voru fremur góðar, en fullmikið eldaðar.
Eftirréttir eru mestmegnis tertur af vagni.
Í kjallaranum er einfaldari og alþýðlegri matstofa, Blushes, sem notar sama eldhús.
Í Grey Door kostaði hádegisverður fyrir tvo £32 og kvöldverður £50 auk drykkjarfanga.
(The Grey Door, 23 Upper Pembroke Street, sími 766 3286, D1)
Guilbaud
Bezti matstaður borgarinnar og einn sá dýrasti er Patrick Guilbaud í sérhönnuðu og yfirlætislausu múrsteinshúsi í lítilfjörlegri hliðargötu að baki kastala Írlandsbanka við Baggot Street.
Lágt er til lofts í miðhluta veitingasalarins, afar hátt í innsta hlutanum og hátt og bjart á gróðursælli garðstofunni, sem er fremst. Allt er í gulmildum tónum.
Þetta er fagmennskustaður fram í fingurgómana, og um leið næsta ópersónulegur. Allt stefnir traustlega að sama marki, húshönnun, þjónusta og matreiðsla. Þetta er musteri franskrar matargerðarlistar, þar sem þrautskipulagið þjónar listinni, en ekki öfugt.
Kjúklingalifur og rækjur í kæfu á graslauk var mildur og ljúfur forréttur. Hörpudisks-kastarhola var hins vegar hressileg og bragðmikil. Svartpylsa var eftirminnileg.
Gufusoðinn hafurriði með saffrankryddaðri kartöflustöppu og rauðpiparsósu var yfirlýsing um, að þetta væri sérstakur staður.
Villigæsabrjóst með fíkjum var í verðlaunaklassa. Nautasteik með sykruðum gulrótum var fullkomlega elduð.
Peruterta var góð, sömuleiðis berja- og súkkulaðiterta, báðar af eftirréttavagni.
Hádegisverður kostaði £36 fyrir tvo og kvöldverður £74 auk drykkjarfanga.
(Patrick Guilbaud, 46 James Place, Lower Baggot Street, sími 676 4192, E1)
Imperial
Ágætur Kínastaður og ódýr í nútímastíl er Imperial við Wicklow Street, aðeins steinsnar frá Grafton Street.
Þetta er hreinlegur veitingastaður í vestrænum tízkustíl, nokkurn veginn laus við kínverskar skreytingar. Viðskiptavinir eru eigi síður margir hverjir úr heimahögunum í Kanton eða Hong Kong, ekki sízt í hádeginu á sunnudögum.
Á matseðlinum eru einkum kantonskir réttir, sérstaklega Dim Sum, hádegissmáréttir, sem kosta £2-3 stykkið, þar á meðal Char Siu og Cheung Fung, en alls eru nærri 40 slíkir á matseðlinum.
Við prófuðum m.a. gufusoðin rækjufiðrildi og djúpsteiktar uxahalabollur, hrísgrjón í lótuslaufi, baunakæfu og soðið nautakjöt, allt saman staðnum til sóma.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £14 og kvöldverður £30 auk drykkjarfanga.
(Imperial, 12a Wicklow Street, sími 677 2580, C3)
Lord Edward
Andspænis Christ Church er hefðbundinn sjávarréttastaður á miðlungsverðlagi, Lord Edward, sem verður að háværum lögmannaklúbbi í hádeginu, því að stuttan veg er að fara frá dómhöll borgarinnar.
Barinn er á annarri hæð í gömlu og berskjölduðu húsi og lítil veitingastofan á þriðju hæð. Brattir og þröngir stigar vísa veginn. Sandblásinn viður er í borðum, fallegt teppi á gólfi og skemmtileg gluggaskot mynda ramma utan um þrískipta sófa.
Þetta hefur áratugum saman verið höfuðstöð hefðbundinnar sjávarréttamatreiðslu og felur í sér dálitla ofeldun, en ekki mikið annað umstang, og hefur að hornsteini afar ferskt hráefni, sem berst að tvisvar á dag. Matseðillinn byggist á um það bil sex tegundum hráefnis, svo sem rækju, lax, kola, þykkvalúru og hafbleikju; og þremur-fjórum einföldum matreiðsluaðferðum á hverri tegund.
Þjónusta er í góðum millistríðsárastíl, maturinn kemur á fötum og þjónarnir skammta á diskana.
Þykk tómatsúpa með rækjum (prawn bisque) var vel rjómuð og góð. Fyllt lárpera með rækjum og krabbakjöti var einnig góð.
Grilluð sjóbleikja var heldur þurr, en rauð og góð, með léttelduðu, stöðluðu meðlæti hússins, kartöflustöppu, rófu- og gulrótastöppu og blómkáli. Sama meðlæti var með grillaðri þykkvalúru, sem einnig var fremur þurr, enda matreiðslan í hefðbundnum stíl, en eigi að síður góð.
Marens með ís, ávöxtum og þeyttum rjóma var ágætur eftirréttur, sömuleiðis búðingur (crème brulée) með ávöxtum og þeyttum rjóma.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £34 og kvöldverður £46 auk drykkjarfanga.
(Lord Edward, 23 Christchurch Place, sími 454 2420, B3)
Periwinkle
Skemmtileg og hversdagsleg og afar ódýr sjávarréttastofa er á jarðhæð verzlanakringlunnar Powerscourt í borgarmiðju og býður einna ferskastan fisk í bænum.
Þetta er lítill staður í skúmaskotum undir miklum hvelfingum. Þröngt er setið á lágum og háum stólkollum við mjóar, grófar og lakkaðar tréborðalengjur. Flísar eru á gólfum og berar vatnspípur hanga í loftinu.
Fengur dagsins er skráður á krítartöflu ofan og aftan við sjálfsafgreiðsluborðið. Nokkurt úrval er jafnan af skelfiski.
Fiskisúpa (fish chowder) dagsins var mjög góð, boðin í tveimur stærðum, borin fram með góðu, heimabökuðu rúgbrauði. Sömuleiðis skeldýraþrenna, krabbaklær, rækjur og kræklingur með sama heimabakaða rúgbrauðinu.
Fiskisalat með rækjum, kræklingi, þorski og hrásalati var afar gott. Fiskur dagsins var ljómandi ferskur koli með ostafroðuþaki í kastarholu. Krabbaklær í hvítlaukssmjöri nutu sömu góðu eldamennskunnar og allt annað.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £6 auk drykkjarfanga.
(Periwinkle, Powerscourt Townhouse Centre, William Street South, sími 679 4203, C3)
Pigalle
Eitt af örfáum góðum veitingahúsum í frönskum bistró-stíl er milliverðsstaðurinn Pigalle við veitingagötuna Temple Bar.
Farið er þröngan stiga upp á aðra hæð í fremur rustalega stofu með svörtu lofti og hvítum múrsteinsveggjum berum, þungum gluggatjöldum að utanverðu og dökkum furuvegg að innanverðu, blómapottakrónum í lofti, en hvítum dúkum og þurrkum á borðum. Húsgögn eru af ýmsu tagi og hnífapörin einnig.
Þjónusta er góð og vís, eins og á öðrum stöðum af þessu tagi í miðbænum. Írsk hlýja og kurteisi fer vel við tilfinninganæma matreiðslu af frönsku ætterni. Edith Piaf og franskir raularar heyrast í bakgrunni.
Matreiðslan er skemmtileg og hráefnið í ýmsum tilvikum ekki það algengasta. Villibráð er víða á matseðlinum. Þetta er staður, sem kitlar bragðlaukana. Og hann bregzt aldrei. Matseðillinn er á föstu verði, með nokkru úrvali forrétta, aðalrétta og eftirrétta.
Sterk og óvenjuleg appelsínu- og gulrótarsúpa (crème de carotte a l’Orange) var afar góð. Hefðbundnara, en jafngott, var kolkrabbasalat (salade tiede de calamares) með bráðnu smjöri.
Steikt kornhæna með grænum pastareimum (caille rotie aux poivre vert) var í bezta lagi. Sömuleiðis niðursneidd perluhæna með frábæru innmatarmauki sveppablönduðu (supreme de pintade duxelle de champignons et vin blanc).
Ískrap úr rauðum ávöxtum (sorbet aux fruits rouges) var hressandi eftirréttur. Hindberjafroða (mousse aux framboises) var í sama stíl.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £24 og hádegisverður £38 auk drykkjarfanga.
(Pigalle, 14 Temple Bar, Merchant’s Arch, sími 671 9262, C4)
Rajdoot
Höfuðvígi indverskrar matreiðslu er meðalverðsstaðurinn Rajdoot Tandoori í húsakynnum Westbury-hótels við Grafton-Street, gengið inn að aftanverðu, frá Clarendon Street. Indversku veitingahúsin í London gerast ekki betri.
Þetta er afar mikið innréttað veitingahús. Fremst er á palli fagur bar með djúpum hægindastólum, vönduðum viði í veggjum, pjátri og messing á borðum. Neðar er teppalagður veitingasalur með útskurði á veggjum og fallega dúkuðum borðum.
Hér fást hornsteinar norður-indverskrar matreiðslu, eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Við prófuðum teinarétti á borð við lambakjöt á teini (shish kabab) og rækjur á teini (prawn kabab), jógúrtrétti á borð við lambakjöt (lamb korma), svo og rétti húðaða í karríi og jógúrt og eldaða í leirofni (tandoori). Með þessu eru snædd hrísgrjón, einföld (pillau) og saffrankrydduð (biryani), svo og pönnusteikt brauð (nan).
Matseðillinn er viðamikill, en einfalda má valið með því að velja fastar, þríréttaðar máltíðir. Tandoori er sérgrein staðarins, glansandi rautt og bragðmagnað.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £25 og kvöldverður £40 auk drykkjarfanga.
(The Rajdoot Tandoori, 26-28 Clarendon Street, Westbury Centre, sími 679 4274, C3)
Russell
Fíni matsalurinn á Westbury hóteli við Grafton Street er Russell Room, með fínum teppum, miklu af blómum, speglum, ljósakrónum og glæsilegum stólum. Þetta er einn af fegurstu matsölum miðbæjarins, fremur dýr, en þó ekki eins og ætla mætti.
Þjónustan er virk og góð og andrúmsloftið er létt og gott, þrátt fyrir virðulegan svip húsakynna.
Bragðsterk andakæfa (foi de canard) með fögru hrásalati var góður forréttur. Góð sveskjusúpa kom skemmtilega á óvart.
Nautasteik var ofelduð eins og hættir til á Írlandi, borin fram með sæmilegu grænmeti, svo sem djúpsteiktu blómkáli og grænmetisþráðum.
Skorpuönd með sítrónu, lime og coriander var miklu betri. Einnig sjóbirtingur með heslihnetum og hunangssósu.
Smjördeigskaka með jarðarberjum og afar sterkri jarðarberjasósu var nokkuð góð.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £28 og kvöldverður £46 auk drykkjarfanga.
(Russell Room, Westbury Hotel, Grafton Street, sími 679 1122, C3)
Sandbank
Þriðji merki veitingasalurinn á Westbury-hóteli og hinn ódýrasti þeirra er Sandbank, annasamur og skemmtilegur og fremur ódýr fiskréttastaður.
Steindar rúður stórar eru í gluggum og skilrúmum í salnum. Lýstir speglar að baki barsins magna skrautið. Þykkur viður útskorinn er víða í innréttingum. Grænir sófar liggja þétt að skilrúmum. Borðin eru dúklaus og skarta fallegum viði.
Þjónarnir bera stráhatta og klæðast síðum svuntum. Stemmningin er notaleg, ekki sízt þegar mikið er að gera, sem er alvanalegt.
Sjávarréttir í smjördeigi (vol-au-vent) voru ágætir og enn betri var eikarreyktur lax. Lifrarkæfa hússins var hversdagsleg.
Sjávarréttagratín var gott, sömuleiðis villtur lax írskur. Heilsteiktur koli var bezti aðalrétturinn.
Eftirréttir voru franskir og fínir, froður, kökur og búðingar.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £32 og kvöldverður það sama auk drykkjarfanga.
(Sandbank, Westbury Hotel, Grafton Street, sími 679 1122, C3)
Stampa
Fegursti matsalur Írlands er á franska veitingahúsinu La Stampa við Dawson Street, sem liggur samsíða Grafton Street. Verðlagið er hátt og matreiðslan er greinilega frönsk, þótt nafnið sé ítalskt.
Hinn stóri matsalur er einstæður. Hátt er til lofts og vítt til veggja og voldugur gluggi í þaki. Risastórir speglar eru í röðum á veggjunum og margalda rýmið. Milli þeirra eru veggsúlur, sem renna í rauðum bogum upp í loftið. Mikill gróður er í stórum pottum við veggsúlurnar og risastór blómaskreyting í miðjum sal. Hafsjór kertaljósa framan við spegla magnar veizlutilfinninguna.
Rúm er fyrir marga gesti og yfirleitt er mikið að gera í hávaðasömum salnum. Þjónarnir óðu renningana á trégólfinu fram og aftur með stóra piparstauka á lofti og misstu smám saman tökin á verkefni sínu, létu til dæmis tilviljanakennt sum borð hafa brauð og önnur ekki.
Matreiðslan er afar góð og hæfir vel glæsibrag húsakynna.
Kryddlegnir sveppir með parmiggiano-ostaflögum á salati voru mjög olíuvættir og nokkuð góðir. Betri voru þó pastaræmur með tómatsósu, Toulouse-pylsum og koríander. En bezti forrétturinn var einföld humarsúpa.
Ljúffeng lambarif voru fituskorin og hæfilega lítið steikt, borin fram með kartöflustöppu og afar stórum tómati, sem var fylltur spínatstöppu. Saltfiskur á kartöflustöppu með beikoni í kring var magnaður.
Þunnar melónusneiðar með sýrðum rjóma mintukrydduðum voru góðar, en karamellubúðingur var full límkenndur.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði £30 og kvöldverður £56 auk drykkjarfanga.
(La Stampa, 35 Dawson Street, símar 677 8611 og 677 3336, CD2)
King Sitric
Borgarlestin í Dublin nær til norðurs að smábátahöfninni við höfðann Howt norðan við Dublin. Þar við nyrðri enda hafnargötunnar er afar gamaldags og góður fiskréttastaður, King Sitric, fremur dýr, en peninganna virði.
Þetta er lítill staður í tveimur stofum og þröngt er milli borða. Þykk tjöld eru fyrir gluggum og gefa staðnum miðevrópskan svip.
Ákaflega kurteis yfirþjónn af gamla skólanum hafði góð tök á starfi sínu.
Matreiðslan er gamaldags, en hráefnið ferskt, enda kemur mikið af sjávarafla á land einmitt í þessari höfn. Yfirþjónninn gefur góð ráð um, hvað sé ferskt og gott í dag.
Reyktur Írlandslax með kapers og lauk var afar góður. Villisveppagrautur var einnig góður.
Soðin skata með kapers var fersk og fín. Hörpufiskur með nektarínum og kryddsósu var með afbrigðum meyr.
Rjómaís með marens og súkkulaðisósu er eftirrétta-sérgrein staðarins. Vínlisti staðarins er einn hinn bezti í landinu.
Hádegisverður kostaði £35 og kvöldverður £50 auk drykkjarfanga.
(King Sitric, East Pier, Howth, sími 832 6729)
Na Mara
Til suðurs stanzar borgarlestin við höfnina í Dun Laoghaire, þar sem er annar góður og fremur dýr fiskréttastaður, Restaurant na Mara, í matsal járnbrautarstöðvarinnar, sem er komin á þjóðminjaskrá.
Matstofan er hlýleg, einkum við skin kertaljósa. Þykk teppi eru á gólfi og veggir eru mildilega laxableikir. Þjónusta er afar góð og gefur greinargóðar upplýsingar um það, sem er á boðstólum.
Við prófuðum humarsúpu, sjávarréttapylsu, grillaðan kola og soðna þykkvalúru, allt saman gætilega eldað á nútímavísu. Vínlistinn er óvenjulega góður.
Hádegisverður kostaði £40 og kvöldverður £60 auk drykkjarfanga.
(Restaurant na Mara, 1 Harbour Road, Dun Laoghaire, sími 280 0509)
1995
© Jónas Kristjánsson