Dugði í fyrra, en ekki í ár.

Greinar

Við getum ekki endalaust látið ofveiði fiskistofna mæta nýjum vandamálum í utanríkisviðskiptum okkar. Við gerðum það í fyrra og erum nú komnir vel á veg með að endurtaka það í ár.

Með þessu erum við að éta útsæðið. Við höldum jafnvægi á líðandi stund með því að búa okkur til gífurleg vandræði í náinni framtíð. Slíkt getur aldrei gengið til lengdar.

Olía hækkaði mjög í verði á síðasta ári, fór úr 12% innflutningsins í 19%. Þessi breyting rýrði viðskiptakjör okkar gagnvart útlöndum um 10% og dró úr þjóðartekjum sem svarar4%.

Við vitum, að olían mun halda áfram að hækka í verði. Við vonum, að það verði ekki á þessu ári, að minnsta kosti ekki í verulegum mæli. En satt að segja vitum við ekkert um næstu skriðu.

Hitt áfall síðasta árs var hrunið í tekjum okkar af flugi yfir Norður-Atlantshafið. Það eitt olli rúmlega helmingi af 16 milljarða króna tapi á þjónustujöfnuðinum gagnvart útlöndum.

Við vitum, að samkeppnin í fluginu mun áfram verða grimm. Við vonum, að við getum dregið úr tilkostnaði okkar. En við vitum, að hinum miklu flugtekjum náum við ekki aftur.

Áföllum flugs og olíu mættum við í fyrra með því að auka sjávarvöruframleiðsluna um 12-15% og útflutninginn í kjölfarið um tæp 10%. Þetta nægði nokkurn veginn til að halda jafnvægi.

Viðskiptajöfnuðurinn í fyrra varð aðeins óhagstæður um rúma sjö milljarða króna, sem jafngildir tæpu einu prósenti þjóðarframleiðslunnar. Út af fyrir sig lítur þetta vel út.

Á yfirborðinu virðist skuldabyrðin gagnvart útlöndum einnig vera í lagi. Afborganir og vextir eru 14% af árlegum tekjum af útflutningi, svo sem verið hefur í nokkur ár.

Þar eru hins vegar blikur á lofti, því að upp eru greidd gömul lán með lágum vöxtum, en í staðinn tekin ný með háum vöxtum. Að óbreyttu mun því skuldabyrðin þyngjast mjög á næstu árum.

Meðan við ofveiðum til að hafa upp í útgjöld okkar, erum við að lifa um efni fram. Í fyrra jókst einkaneyzla um 2% og samneyzla um 2%. Hvort tveggja hefði átt að standa í stað.

Af þessu má sjá, að nú og á næstunni getum við ekki bætt lífskjörin. Það eina, sem hægt er að gera, er að lagfæra launakjör hinna lægst launuðu á kostnað hinna, sem betur mega.

Enn augljósara er, að ríki og sveitarfélög verða að stöðva þenslu samneyzlunnar þegar í stað. Á erfiðum tímum höfum við ekki efni á að bæta við meintar sameiginlegar þarfir okkar.

Erfiðara verður fyrir okkur að spara í fjárfestingu. Hún hefur á fimm árum minnkað úr 33% af þjóðarframleiðslu í 25%. Það er hættulegt að klípa meira af henni en orðið er.

Við getum hins vegar dregið úr opinberri stýringu fjárfestingarinnar til óarðbærra greina á borð við landbúnað og til óhóflega stórs fiskiskipaflota. Við getum nýtt fjárfestingarkrónurnar betur.

Aflatakmörk nægja ekki ein til að koma þorskafla ársins niður í 300 þúsund tonn og hindra ofveiði í öðrum stofnum. Núverandi kerfi er sjávarútveginum of dýrt í skauti.

Finna þarf leiðir til að minnka flotann, sem notaður er, og til að tryggja um leið, að arðbærasti hluti hans sé notaður. Uppboð eða sala veiðileyfa er hugsanleg leið til þess.

Ef ekki tekst að finna leið til að sameina minnkun afla og hagkvæmari útgerð fiskiskipa, er aðeins um það að ræða að sameina minnkun afla og minnkun á einkaneyzlu og samneyzlu okkar allra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið