Var að skoða brot úr svörum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum við erfiðum spurningum. Í sjónvarpinu komu þeir vel fyrir og virtust hafa sómasamleg svör við öllu. Síðan bar ég þau saman við sömu svör í bókstöfum, eins og þau sjást á prenti. Þá fyrst sá ég gegnum svörin, hvílíkt rugl þau voru. Prentmiðlar eru óvæginn vettvangur skoðana, þar sjást keisarar án klæða. Í sjónvarpinu kemur karisma, meintur persónuleiki, til sögunnar og varpar dulu yfir keisarana. Þess vegna vilja stjórnmálamenn koma fram í sjónvarpi, en ekki í prentmiðlum. Sjónvarpið blekkir fólk, en textinn frelsar það.