Dularfullt sinnuleysi

Greinar

Óskiljanlegt er með öllu, hversu lítinn áhuga tryggingafélög hafa á brunavörnum í landinu. Í hverjum stórbrunanum á fætur öðrum kemur í ljós, að tryggingafélög gera lítinn og helzt engan greinarmun á mannvirkjum, sem hafa brunavarnir í misjafnlega góðu lagi.

Flest virðist hafa farið úrskeiðis í brunavörnum í stórhýsinu að Réttarholti 2. Samt hafði mannvirkið fengið brunatryggingu á almennum kjörum hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar, alveg eins og þau mannvirki, þar sem farið er eftir bókstaf brunavarna.

Húsatryggingar Reykjavíkurborgar eru ekki einar um þetta skeytingarleysi. Frystihús brenna ótt og títt víðs vegar um land. Við lesum þá jafnan í fréttum, að ekki hafi verið sinnt athugasemdum eldvarnareftirlits. Samt borga og brosa tryggingafélögin í sífellu.

Fljótt á litið virðast markaðslögmál ekki gilda um tryggingar á Íslandi. Tryggingafélög virðast ekki telja sér hag í að afla sér betri kjara hjá endurtryggjendum úti í heimi með því að sýna fram á lægri tjónagreiðslur í kjölfar strangara aðhalds og misjafnra iðgjalda.

Tryggingafélögum í landinu virðist nákvæmlega sama, þótt venjulegir viðskiptavinir þeirra þurfi að borga óþarflega há iðgjöld, af því að skussarnir í brunavörnum greiða of lág iðgjöld og af því að iðgjöldin brenna upp í greiðslum bóta til þessara sömu skussa.

Tryggingafélög geta ekki kannað öll smáatriði brunavarna. En eðlilegir viðskiptahættir fælust í, að þau tækju sjálf út þau mannvirki, sem þyngst vega í tjónagreiðslum, og gengju í öðrum tilvikum hart eftir, að farið væri strax og í hvívetna eftir kröfum eldvarnaeftirlits.

Oft hafa tryggingafélögin verið spurð, hverju þetta sæti. Engin haldbær svör hafa enn fengizt. Sofandaháttur þeirra væri skiljanlegur, ef þau væru opinberar stofnanir á borð við Búnaðarfélagið. En þau vaka ekki eins og samkeppnisaðilar á opnum tryggingamarkaði.

Það hlýtur að vera krafa endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, að tryggingafélögin vakni til lífsins. Og það hlýtur að vera merkilegt rannsóknarefni vísindamanna í hagfræði að kanna, af hverju markaðslögmál gilda ekki um íslenzk tryggingafélög.

Ekkert væri jafnlíklegt til að efla brunavarnir í landinu og aukið aðhald af hálfu tryggingafélaga. Þau eiga að kynna sér betur, hvaða brunagildrur þau eru að leggja á herðar endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, sem borga brúsann af sinnuleysinu.

Tryggingafélögum ber að neita að taka verstu brunagildrurnar í tryggingu fyrr en að loknum endurbótum. Þeim ber að leggja hátt álag á syndaseli, er fá tryggingu, en trassa að koma upp eldvörnum, sem krafizt er. Þeim ber að lækka iðgjöld almennra viðskiptamanna.

Reykvískir útsvarsgreiðendur þurfa nú að borga marga tugi milljóna, ef ekki eitt hundrað milljónir vegna vanrækslu Húsatrygginga Reykjavíkurborgar og kæruleysis Eldvarnaeftirlits Reykjavíkurborgar. Vonandi verður sá biti til að hreyfa við brunavörnum í borginni.

Mikilvægast er að finna, hvernig í ósköpunum stendur á, að tryggingafélög haga sér ekki eins og samkeppnisaðilar á markaði, heldur eins og opinberar stofnanir, sem sofa værum svefni og lyfta ekki litla fingri í þágu almennra iðgjaldagreiðenda og endurtryggjenda.

Ef vísindaleg skýring finnst á hinu dularfulla sinnuleysi, ætti að vera unnt að finna leiðir til að komast framhjá því og draga úr óþörfu brunatjóni í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV