Baráttan fyrir aukinni bílaumferð í kvosinni hefur koðnað niður í sólskininu. Reykvíkingar og aðkomumenn spóka sig sumir hverjir í Austurstræti og á Laugavegi í stað þess að fara í Kringluna. Þetta hefur um stundarsakir eflt viðskipti í gamla miðbænum.
Ágreiningur varð í borgarstjórn um opnun Austurstrætis fyrir bílaumferð, því að ýmsir, sem vildu styðja kaupmenn, skildu ekki áhuga þeirra á að fá bíla í stað fólks í þessa götu. Góða veðrið gerði borgarfulltrúum kleift að beita hinni vinsælu aðferð að fresta málinu.
Þegar byrjar að rigna og blása í haust, færist verzlunin aftur inn í Kringlu og kaupmenn í gamla miðbænum byrja að heimta bíla á nýjan leik. Þá verður enn að taka málið upp á pólitískum vettvangi og þá rætist sennilega hinn sérkennilegi draumur um bíla í Austurstræti.
Æskilegt er að hleypa bílunum í þessa götu, ekki af því að það sé skynsamlegt, heldur af því að stundum er ekki hægt að hafa vit fyrir mönnum án þess að láta þá hafa sitt fram. Þá geta þeir af eigin reynslu áttað sig á, að bílar í Austurstræti efla ekki viðskipti.
Kaupmenn í gamla miðbænum minn á mann, sem raknar úr roti og heldur, að þeir, sem standa yfir honum, hafi rotað hann. Kaupmenn hafa jafnvel haldið fram, að fjölgun kaffistofa og veitingahúsa, svo og stefnulítið rölt ungmenna hafi fælt veltuna á brott.
Þetta er órökrétt skoðun. Hin raunverulega ástæða fyrir hnignun verzlunar í gamla miðbænum er Kringlan, þar sem fólk getur ekið inn undir þak og verzlað í logni og þurru verði, í stað þess að hætta sér út í stormgjár hins hefðbundna verzlunarhverfis miðbæjarins.
Velgengni Kringlunnar sýnir, hvað fólk vill ekki. Það vill ekki rok og rigningu, svell og snjóalög. Í meira en áratug hefur hér í blaðinu verið hvatt til, að gamli miðbærinn yrði lífgaður að hætti Kringlunnar, með því að byggja gegnsætt þak yfir Austurstræti og Laugaveg.
Fólk vill geta komizt í eigin bílum eða strætisvögnum í bílageymslur, sem liggja að Austurstræti og Laugavegi. Það vill geta farið undir þaki úr bílageymslunum inn á þessar götur og gengið um þær í eilífu, þurru sumri, eins og hefur ríkt þessa dagana í borginni.
Í stað þess að taka undir sjónarmið af þessu tagi, láta kaupmenn eins og þeir séu að rakna úr roti. Þeir ímynda sér, að lausn vandræða sinna felist í að opna Austurstræti fyrir bílum. Þvert á móti felst lausnin í að loka fleiri götum og byggja yfir þær gegnsætt þak.
Þar sem þeir eru rökheldir, er rétt, að þeir fái að hafa sitt fram. Í vetur mun strax koma í ljós, að opnun Austurstrætis eykur ekki verzlun. Þá munu þeir líklega átta sig á stöðunni og heimta lokun þess á nýjan leik. Að öðrum kosti munu þeir ekki koma meira við sögu.
Í máli þessu er þáttur borgaryfirvalda daprastur. Hinir kjörnu fulltrúar hafa horft á gamla miðbæinn fjara út innan um dauðar langhliðar banka og opinberra stofnana og ekki getað mannað sig upp í róttækar aðgerðir til að sprauta lífi í hverfið á nýjan leik.
Enn er ekki of seint að grípa í taumana, því að gamli miðbærinn er í eðli sínu skemmtilegri dvalarstaður en Kringlan, af því að hann er tilviljanakenndur og óskipulagður. Það, sem vantar, er að hlífa viðskiptavinum við íslenzri veðráttu, roki og rigningu, svelli og snjókomu.
Það eru ekki göngugötur, heldur ranghugmyndir kaupmanna og borgaryfirvalda, sem flýta fyrir hægu andláti gamla miðbæjarins sem verzlunarmiðstöðvar.
Jónas Kristjánsson
DV