Duus

Veitingar

Erfitt er að átta sig á, hvað ætlast fyrir flestar hinna nýju bjórkráa í landinu, hvort þær séu miðaðar við matargesti eða bjórdrykkjumenn. Þær eru tvíátta sem veitingahús og krár í senn, ekki aðeins til að sýnast fyrir yfirvöldum, heldur virðast þær af misjöfnum mætti reyna að halda úti matreiðslu í hefðbundnum stíl veitingahúsa.

Þetta er ekki auðvelt í framkvæmd, enda virðist ríkja svæðaskipting og tímaskipting milli borðhalds og bjórdrykkju í þessum krám. Góður matur og bjór fara sjaldan saman, svo sem greinilega sést í útlöndum. Fólk fer annaðhvort út til að fá sér kollu eða til að halda sér matarveizlu. Ef það stefnir á bjórinn, lítur það á hugsanlegan snæðing sem nauðsynlegt snarl með bjórnum. Í Bretlandi fá menn sér til dæmis hina kunnu kjöt- og nýrnakássu.

Duus í Fischersund er greinilega að þreifa sig í átt til eiginlegrar bjórkrár. Síðast þegar ég kom þar í hádegi, var búið að setja upp hlaðborð með kæfum, súrmeti og salati, dálítið í átt við það, sem víða má sjá í erlendum bjórkrám. Til viðbótar var svo boðið upp á mjög stuttan, hæfilega stuttan matseðil með sjö réttum í hádeginu og þrettán á kvöldin.

Duus er samt ekki venjuleg bjórkrá að útliti, að minnsta kosti ekki að flatarmáli. Niðri er að vísu kráarsvipur í þröngu skoti, sem rúmar um 30 bjórdrykkjumenn. Uppi er hins vegar langur matsalur, sem rúmar yfir 70 matargesti og lítur út eins og matsalur.

Angurvær eftirsjá

Húsbúnaður er þar svipaður og niðri, en allur þó af vandaðri gerð, einkum borðin. Þau eru gamaldags, úr heilum viði, með tveimur breiðum fótum og trébandi á milli. Við þau eru fallegir pílárastólar í sama dökkbrúna litnum, sem og stiginn upp á hæðina og barskenkirnir tveir með bjórglasarekkum fyrir ofan.

Stoðir og bitar burðarvirkis hins gamla húss sjást greinilega. Á ljósum veggjum eru nokkrir tugir gamalla ljósmynda, flestra frá Reykjavík fyrri tíma. Þeir eru líka prýddir mörgum skipslugtum og nokkrum speglum. Stíllinn er í samræmi við lúið trégólfið og magnar eins konar angurværa eftirsjá fyrri og þá sennilega betri tíma.

Dúklausar borðplötur bera mottur undir diska og á kvöldin kertaljós að auki. Munnþurrkur voru úr nokkurra gramma léttum pappír. Eitt kvöldið sat enn eftir í loftinu bjórfnykur hádegisins. Í hin skiptin var salurinn hreinn og ferskur. Niðursoðinn hávaði var stundum nokkuð hátt stilltur. Minna hefði dugað til að yfirgnæfa drafið í tveimur bjórgestum.

Þjónusta reyndist góð og fremur fagleg í tvö skiptin. Í þriðja sinnið var þó hluta kaffisins hellt á undirskálina. Þjónustan sagði “úps”, en gerði ekkert frekar í málinu, jafnvel þótt munnþurkur gesta séu ekki af þeirri stærðargráðu, að þær nýtist sem pollaþurrkur.

Matseðlarnir voru með tiltölulega einföldum og fljótlegum réttum. Seðlarnir einkenndust af réttum, sem fást í tveimur veitingahúsum af hverjum þremur, svo sem sniglum, laxatvennu, síldarþrennu og djúpsteiktum camembert. Þetta kom ekki á óvart, en hitt kom á óvart, að flest, sem prófað var, reyndist allt að því nærfærnislega eldað, mun betur en í meðal-veitingahúsi.

Ekki fór svo sem fyrir mikilli matreiðslu í rækjuskál með sveppum og kotasælu. En rækjurnar voru ferskar og bragðgóðar og sveppirnir gáfu þeim ekkert eftir. Hvort tveggja var í töluverðu magni og með nær engu gumsi í kring. Ofan á var kotasæla, en ekki sósa.

Soðin ýsa var frekar bragðgóð, ekki eins gífurlega mikið soðin og víða tíðkast hér, borin fram með stinnum, hvítum kartöflum og bræddu smjöri, sem var í sérstakri skál og ekki fljótandi um allt á diskinum eins og víða tíðkast hér.

Kokkurinn virtist hafa meira en í meðallagi gott lag á fiski, því að léttristaður silungur frá Laugarvatni var frekar milt eldaður. Hann var þess vegna bragðgóður, borinn fram í litlu smjöri og steinselju. Að þessu sinni voru hvítu kartöflurnar ofsoðnar, en eins og í hinu tilvikinu var mest af smjörinu borið fram í sérstakri skál.

Piparsteikin hét nautabuff

Nautabuffsteikin var hrásteikt eins og um var beðið. Í henni var gott hráefni, svo að hún var meyr. En hún var allt of mikið pipruð og hefði ef til vill getað gengið sem piparsteik, en um slíkt hafði bara ekki verið beðið. Enn meiri pipar var í sósunni, sem hét raunar piparsósa og var óviðkunnanlega mjölmikil. Með fylgdu ferskir sveppir pönnusteiktir, léttsoðnar gulrætur og brokkál, svo og bökuð kartafla með kotasælu í sárinu.

Hrásalatið með aðalréttunum var ómerkilegt. Það var mestmegnis ísberg, skreytt með einum tómatbáti og líklega verksmiðjuframleiddri eggjasósu. Meiri reisn var yfir brauðkörfunni, sem jafnan var sett á borð. Þar var smjör með mörgum sneiðum af tvenns konar brauði.

Áðurnefnt hlaðborð fól í sér tvenns konar kæfu keimlíka, en frambærilega; ennfremur þrenns konar brauð; fábrotið hrásalat, svo sem hvítkál, tómata, gúrku, sveppi og lauk, einnig ólífur, sýrðar gúrkur og smágúrkur; og loks tvenns konar síld með rúgbrauði. Borðinu fylgdi eggjasósa og hæfilega krydduð kotasæla. Aðgangur að borðinu kostaði 280 krónur.

Bezti rétturinn, sem prófaður var, reyndist vera loftmikil ostaterta með kiwi ofan á, vínberjum til hliðar og þeyttum rjóma í skál. Ég hef satt að segja ekki fengið betri ostatertu hér á landi, ekki einu sinni á dýrum stöðum.

Kaffið var ágætt, ekki borið fram með rjómablandi, heldur hreinum rjóma. En það kostaði líka 60 krónur. Vínlistinn í Duus er sami skrípaleikurinn og í flestum bjórkrám landsins. Þar er Santa Christina eini ljósi punkturinn innan um atriði, sem mundi varða við meiðyrðalög að lýsa nánar.

Ef frá er skilið fremur ódýrt kalda hlaðborðið með kæfunni, er Duus í meðalflokki verðlags veitingahúsa. Þríréttaður matur með hálfri flösku af frambærilegu víni og kaffi kostaði að miðjuverði 1104 krónur að kvöldi og 862 í hádeginu. Þetta er svona svipað og Bixið og heldur ódýrara en Fógetinn og Torfan, sem mega teljast í þessum sama verðflokki.

Ég bjóst ekki við miklu af bjórkrá og var tiltölulega ánægður með útkomuna í Duus. En frá sjónarhóli matargerðarlistar hefur staðurinn ekkert sérstakt fram að færa.

Jónas Kristjánsson

Hádegi:
110 Rjómalöguð blómkálssúpa
160 Gúllassúpa Duus
185 Rækjuskál með sveppum og kotasælu
195 Gratineruð rækjubrauðsneið með salati
280 Paté hlaðborð með súrmeti og salati
245 Síldardiskur að hætti hússins
275 Pönnusteikt smálúða með dillsósu
210 Soðin ýsa með hvítum kartöflum og bræddu smjöri

Kvöld:
265 Ristaðir sniglar á teini með kryddgrjónum
245 Laxatvenna með piparsósu og ristuðu brauði
155 Gúllassúpa Duus
160 Sjávarréttasúpa með rækjumauki
375 Ristuð smálúðuflök a la porteri, hrísgrjón pilau
365 Léttristaður Laugarvatnssilungur með hvítu smjöri
485 Humar og hörpuskelfiskur au gratin og camembert-sósa
465 Sinnepskrydduð lambahryggsneið með ristuðum sveppum og spergilkáli
545 Steiktar grísalundir Grecy með gulrótum og ætiþistilbotnum
665 Nautabuffsteik Duus með humarhölum og rjómapiparsósu
168 Djúpsteiktur camembert með ristuðu brauði
145 Ostaterta sælkerans
125 Rjómaís með kahlúa-líkjör og kiwi

DV