Þegar leiðtogar sjö helztu auðríkja heims hittast og fá í heimsókn leiðtoga annars helzta herveldisins, ætti að vera unnt að stíga mikilvæg skref í framfara- og velferðarmálum mannkyns. Það segir sorgarsögu um forustu þeirra, að ekkert slíkt skuli hafa gerzt í London.
Eina markverða niðurstaða forustumannanna var tillaga um, að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verði komið upp eftirliti með sölu hergagna og skráningu á viðskiptum með þau. Ef staðið verður við hugmyndina, mun hún vafalaust stuðla að öryggi í heiminum.
Hins vegar sker í augu, að leiðtogar sjö helztu auðríkja heims skuli ekki geta komið sér saman um að leysa viðskiptahnútinn, er embættismenn þeirra hafa hnýtt í svonefndum Uruguay-viðræðum á vegum tollfrelsissamtakanna Gatt um samdrátt viðskiptahindrana.
Ástandið er orðið þannig, að þrjár helztu aflstöðvar heimsviðskipta, Bandaríkin, Evrópubandalagið og Japan, standa í harðnandi viðskiptastríði, sem mun leiða til nýrra og hærri hindrana í vegi heimsviðskipta, er munu draga verulega úr hagþróun um allan heim.
Það eru þröngir sérhagsmunir á borð við landbúnað, sem gætt er í ráðuneytum málsaðila þessa viðskiptastríðs. Sérhagsmunirnir halda niðri lífskjörum í auðríkjunum og takmarka möguleika þriðja heimsins og Austur-Evrópu á að hagnast á sölu landbúnaðarafurða.
Ennfremur sker í augu, að leiðtogar sjö helztu auðríkja heims skuli ekki geta komið sér saman um rismiklar aðgerðir til verndunar vistkerfis mannkyns, svo sem gegn eyðingu ózonlags, gegn gróðurhúsaáhrifum og gegn mengun af völdum iðnaðar og orkuvinnslu.
Það er til lítils að bókfæra 2% hagvöxt á hverju ári, ef það er svo hastarlega á kostnað vistkerfis mannkyns, að jörðin verði um síðir næsta óbyggileg. Það er verkefni leiðtoga sjö helztu auðríkja heims að taka öfluga forustu í að tryggja framtíð mannkyns í umhverfi sínu.
Ef leiðtogarnir sjö plús einn væru mikilmenni og starfi sínu vaxnir, mundu þeir hafa höggvið í London á hnúta alþjóðaviðskipta og umhverfisverndar. En því miður eru þetta allt saman andlegir dvergar, hversdagslegir pólitíkusar eins og við þekkjum þá á Íslandi.
Þriðja stóra verkefnið, sem leiðtogar auðríkjanna ættu að taka á sínar herðar, en gera ekki, er skýr og skynsamleg afstaða til óska þjóða um að segja skilið við sitt ríkisvald. Júgóslavía og Sovétríkin eru nýjustu dæmin um fjölþjóðaríki, sem eru orðin óstarfhæf.
Leiðtogum auðríkjanna dugar ekki að hætta að tönnlast á klisjum um friðhelgi fjölþjóðaríkja og fara að muldra í barm sér nýjar klisjur um hlutverk “þjóða” Júgóslavíu. Þeir þurfa að taka markvissari og jákvæðari afstöðu til óska þjóða um frelsi sér til handa.
Hvort sem litið er til Spánar eða Indlands, Tékkóslóvakíu eða Korsíku, Eþíópíu eða Súdan, Burundi eða Írak, eru þjóðir að rísa gegn því að vera kúgaðar til þátttöku í ríki, sem þær óska að segja skilið við. Þetta skapar gífurlega hættu á staðbundnu blóðbaði.
Að baki leiðtoga sjö helztu auðríkja heims er afl þeirra hluta, sem gera skal. Frá þeim ætti að koma jákvæð forusta, sem hinn vestræni heimur getur fylgt inn í 21. öldina; forusta í auknu viðskiptafrelsi, í hertri umhverfisverndun og í uppstokkun úreltra landamæra.
Fundurinn í London er merkastur fyrir, að meðal sjö eða átta útvalinna er ekki lengur neinn, sem reynir að takast á við raunveruleg verkefni heimsleiðtoga.
Jónas Kristjánsson
DV