Kenningin um framtíðargróða Íslendinga af álveri á Keilisnesi byggist á spá um, að álverð verði framvegis hærra en það hefur nokkru sinni verið, að árinu 1988 undanskildu. Í spánni er reiknað með, að heimsmarkaðsverð áls verði framvegis 1900 dollarar á tonn.
Íslenzk stjórnvöld hafa oft stuðzt við spár af slíku tagi. Einu sinni voru bændur hvattir með lánum og styrkjum til að fara út í refarækt, af því að spár um heimsmarkaðsverð voru svo góðar. Einu sinni voru at hafnamenn af sömu ástæðum hvattir út í laxeldi.
Landsvirkjun hefur fengið sér spána hjá James F. King. Forsætisráðherra hefur að vísu sagt DV, að spámaðurinn hafi til þessa ekki verið heppinn í spádómum sínum. Og Gunnar S. Andrésson við Cornell-háskóla hefur skrifað í DV, að eftirspurn áls muni minnka.
Aðrir eru þeirrar skoðunar, að verð muni haldast hátt. Financial Times telur, að eftirspurnin muni aukast um 2% á ári í Evrópu næstu fimm árin. Þannig sýnist sitt hverjum. En hin raunverulega niðurstaða er, að verð áls hefur verið, er og verður mjög ótryggt.
Samningur íslenzka ríkisins og Atlantals gerir á þessu stigi ráð fyrir, að orkuverð til álversins ráðist af heimsmarkaðsverði á áli, ekki innan ákveðins ramma eins og í samningnum við Ísal, heldur upp úr þaki og niður úr gólfi eftir ástandi á heimsmarkaði hverju sinni.
Ef spámaður Landsvirkjunar hefur örlítið rangt fyrir sér, verður dúndurtap á sölu orku til Atlantals. Hann þarf ekki að hafa eins rangt fyrir sér og þeir, sem á sín um tíma spáðu um verð á refaskinnum og eldislaxi. Honum dugar að skeika um 10% til að setja málið í tap.
Svo miklar sveiflur hafa hingað til verið í verði áls á heimsmarkaði, að svona nákvæm spá, sem nánast engu má skeika, jafngildir því, að Ísland taki þátt í happdrætti, þar sem miðinn kostar 42 milljarða króna, sem samningamenn Íslands ætla ekki að borga sjálfir.
Bjartsýnismenn hafa sér til huggunar línurit um sveiflur á verði áls. Þetta línurit sýnir, að í stórum drátt um og að gleymdum sveiflum hefur verðið farið hækkandi. Það hefur þrefaldazt úr um það bil 600 dollurum á tonnið árið 1971 í 1800 dollara á tonnið árið 1990.
Hugsanlegt er, að vinningur fáist úr þessu glannalega happdrætti. En það er afar sérkennilegur rekstur á lítilli þjóðarskútu að keyra upp svona stórt happdrætti. Í skynsamlegum og varfærnislegum rekstri ábyrgra manna væri frekar reynt að setja þak á tap og gróða.
Núverandi samningamenn Íslands verða löngu hættir afskiptum af happdrættum, þegar hinn ímyndaði gróði kemur í ljós. Ætlunin er að veita Atlantal mikinn afslátt af orkuverði fyrstu tíu árin. Þann tíma er næstum öruggt, að orkusalan verður rekin með miklu tapi.
Ef ætlunin er að múta Eyfirðingum og annarri landsbyggð til að sætta sig við, að álverið rísi suður með sjó, verða peningar til slíks tæpast aflögu fyrr en árið 2006, ef standast hinar bjartsýnu spár um verð áls og orku. Ef greiða á mútur strax, verður tapið meira.
Dæmið er svo tæpt, að umhverfisráðherra er farinn að gefa í skyn, að álverinu verði sleppt við að setja upp vothreinsibúnað. Umhverfisráðherrann hefur raunar aldrei haft neinn áhuga á umhverfismálum öðru vísi en sem einhverjum óþægindum í sambandi við iðnað.
Eins og dæmið lítur út þessa dagana fer að verða rétt af þjóðinni að leggjast á bæn til að óska þess, að álverið verði fremur reist í Kanada en á Keilisnesi.
Jónas Kristjánsson
DV