Ástæða er til að óttast, að forráðamenn Alusuisse kunni sér ekki hóf í fégræðgi. Endurskoðun hefur leitt í ljós, að þeir hafa látið Ísal borga allt of mikið fyrir súrál og hugsanlega einnig allt of mikið fyrir rafskaut.
Þar með er fengin skýring á erfiðum rekstri Ísals, þrátt fyrir hlægilega lágt raforkuverð. Og einnig er nokkurn veginn ljóst, að hinir makalausu Svisslendingar hafa komizt of létt frá opinberum gjöldum á Íslandi.
Undanfarin fimm ár hefur Ísal greitt 16-19 milljónum dollara meira fyrir súrál en tíðkast í viðskiptum óskyldra aðila. Jafnframt hefur súrálið hækkað í hafi um 22-25 milljónir dollara, sem bendir til, að Ástralir séu líka hlunnfarnir.
Að baki þessum tölum liggur mjög ítarleg skýrsla hinna brezku endurskoðenda, auk þess sem kallaðir hafa verið til margir aðrir sérfræðingar, er hafa lagt hönd á plóginn. Samningsbrot Alusuisse er sennilega óvefengjanlegt.
Ekki er hægt að líta á ofangreindar tölur sem endanlegar. Þær eru helmingi lægri en tölurnar, er Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra sló fram í vetur, enda hafa endurskoðendur nú tekið tillit til ýmissa útskýringa Alusuisse.
Hugsanlegt er, að Alusuisse hafi eitthvað fleira sér til málsbóta, ef til vill á öðrum sviðum. Það kemur þá væntanlega í ljós, þegar menn setjast niður til að leiðrétta viðskiptin, bæði aftur í tímann og fram á við.
Nú sjá allir, að það var rétt hjá Hjörleifi að efna til hinnar umfangsmiklu rannsóknar á viðskiptum Alusuisse og á alþjóðlegum álviðskiptum. Rannsóknin er dýrt spaug, en nauðsynleg, þegar viðsemjandinn er gráðugur.
Að vísu átti Hjörleifur að bíða með fullyrðingar í vetur og láta fyrst þessa skýrslu líta dagsins ljós. Hann efndi þá til óheppilegs stjórnmálaþjarks um mál, sem ætti að vera utan flokkadeilna. En það er búið og gert.
Nú skiptir miklu, að Hjörleifur opinberi skýrsluna um endurskoðunina, svo að almenningur geti komizt að hinu nákvæmlega rétta. Rannsóknablaðamenn hafa staðið sig vel, en fólk þarf meira en mola af borðum innvígðra.
Vel upplýstur almenningur er forsenda þess, að rétt verði haldið á spilum í framtíðinni. Hún skiptir meira máli en fortíðin, sem verður vafalítið gerð upp á þann hátt, að Alusuisse greiði til baka ranglega fengið fé.
Fólk þarf að geta metið, hvort Alusuisse sé fyrirtæki, sem heiðarlegar þjóðir eigi ekki að koma nálægt. Eða hvort það sé erfiður samningsaðili, sem með lagi sé hægt að halda í skefjum í frekara samstarfi.
Eðlilegast er að nota tækifærið til að knýja fram lagfæringu á hlægilega lágu orkuverði Ísals til Landsvirkjunar, þannig að Ísal borgi hér eftir minna fyrir súrál og rafskaut, en meira fyrir rafmagnið.
Viðskiptin við Alusuisse hafa verið okkur góður skóli, en dýr. Og dýrastur hefur skólinn orðið á þann hátt, að hallt gengi okkar gagnvart Alusuisse hefur magnað andstöðu gegn orkufrekum iðnaði og tafið framgang hans.
Og ekki er gaman að standa nú andspænis því, að annar af tveimur möguleikum okkar til að nýta fyrirvaralaust orku frá Blöndu, Fljótsdal eða Sultartanga er einmitt að semja við hina makalausu Svisslendinga um tvöföldun álversins!
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið