Ríkið ver sennilega til lyfja tvöföldu því fjármagni, sem það leggur í Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Lyfjakostnaður ríkisins er líklega svipaður og samanlagður kostnaður þess af húsnæðislánakerfinu. Lyfin kostuðu fyrir þremur árum 4% af ríkisútgjöldum.
Síðustu opinberu upplýsingar um lyfjakostnað ríkisins eru frá 1983. Þá greiddi Tryggingastofnunin niður lyf fyrir 493 milljónir og sjúkrahúsin greiddu lyf fyrir 145 milljónir. Samtals voru þetta 638 milljónir eða 4% af allri veltu ríkisins á því ári, hrikalegt hlutfall.
Ef lyfjakostnaður verður á þessu ári sama hlutfall af ríkisútgjöldum og hann var fyrir þremur árum, má reikna með, að hálfur annar milljarður króna hverfi í þessa hít. Það er hærri upphæð en svo, að unnt sé að láta sér hana í léttu rúmi liggja.
Ríkið virðist vera meira eða minna varnarlaust gegn hóflausri ávísun lækna á lyf af hvers kyns tagi. Sjúklingarnir sjálfir greiða einungis málamyndaupphæð af hverju lyfi, sem þeir fá, en ríkið greiðir meginhlutann. Þetta er óhjákvæmilegt í velferðarþjóðfélagi.
Þar með er ekki sagt, að ríkið þurfi að vera varnarlaust. Bent hefur verið á ýmislegt, sem betur mætti fara. Gagnrýnin beinist einkum að fjórum atriðum.
Í fyrsta lagi er haldið fram, að tímahrak lækna valdi því, að þeir láti hraðvirka útgáfu lyfseðla, einkum um síma, koma í stað erfiðra og langdreginna samtala við sjúklinga og skoðun þeirra. Héraðslæknirinn í Bolungarvík benti nýlega á þetta í samtali við DV.
Hann sagði, að notkun sýklalyfja mætti að skaðlausu minnka niður í þriðjung af því, sem hún er. Svíar væru ekki nema hálfdrættingar á við okkur á þessu sviði. Ef allir læknar ávísuðu eins og hann sjálfur gerði, sagði hann að mætti spara 50100 milljónir króna á ári.
Í öðru lagi er haldið fram, að notkun fúkalyfja sé svo óhæfileg hér á landi, að þau reynist í sumum tilvikum gagnslaus, þegar fólk þarf raunverulega á þeim að halda. Samkvæmt þessu á ströng takmörkun notkunar slíkra lyfja að fela í sér raunhæfa heilsuvernd.
Í þriðja lagi er haldið fram, að lyf séu ekki rétt valin. Í mörgum tilvikum sé vísað á dýr lyf, þótt ódýr lyf komi að sama gagni. Þetta kom fram í skýrslu tveggja heilsugæzlulækna í Hafnarfirði og Garðabæ. Henni hefur verið dreift á vegum heilbrigðisráðuneytisins.
Stundum þurfa sjúklingar raunverulega hin dýrari lyf. En í öðrum tilvikum koma hin ódýrari að nákvæmlega sama gagni. Læknarnir tveir lögðu til, að ábendingar til lækna um lyfjaverð og lyfjaval yrðu gefnar út tvisvar á ári til að ná niður kostnaði hins opinbera.
Þeir tóku dæmi af fimm lyfjategundum, sem þeir völdu af handahófi. Verðmunur dýrustu og ódýrustu lyfjanna nam tæpum 40 milljónum króna, þegar miðað var við ársnotkun þjóðfélagsins. Og þetta voru aðeins fimm tegundir af hinum mikla fjölda, sem notaður er.
Í fjórða lagi er haldið fram, að sumum læknum sé laus höndin við ávísun á lyf, sem notuð eru sem fíkniefni. Raunar hefur verið sagt, þótt ekki sé sannað, að slík fíkniefnanotkun sé algengari og umfangsmeiri en notkun smyglaðra efna á borð við hass og maríhúana.
Þessi fjórþætta gagnrýni sýnir, að líklega má spara hundruð milljóna króna árlega og meira að segja bæta heilsu þjóðarinnar með meiri sjálfsaga lækna við útgáfu lyfseðla og með meira eftirliti af hálfu ríkisins. Þetta hlýtur að teljast meðal brýnni verkefna þjóðfélagsins.
Jónas Kristjánsson
DV