Dýrar kosningar

Greinar

Þetta verða dýrar kosningar. Með hjálp stjórnarandstöðunnar fór ríkisstjórnin á taugum í marz og hefur gefið út hvern kosningavíxilinn á fætur öðrum. Samanlagt munu víxlarnir eyðileggja markmið þjóðarsáttarinnar og koma verðbólguöflum af stað á nýjan leik.

Ljósast er þetta af seðlaprentuninni. Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur ríkissjóður farið úr 300 milljóna inneign í Seðlabanka niður í 8,6 milljarða skuld. Staðan hefur versnað um níu milljarða á þessum tíma. Á síðasta ári versnaði hún um þrjá milljarða á sama tíma.

Samt eru kosningaloforðin ekki enn gjaldfallin. Sparifjáreigendur eru hins vegar þegar farnir að halda að sér höndum. Þeir kaupa ekki ríkisvíxla, af því að þeir vita, að vextir þeirra eru of lágir og munu hækka eftir kosningar, þegar nýtt umboð vanþroska kjósenda er fengið.

Forsætisráðherra kemur stundum inn í raunveruleikann og er alltaf jafn hissa á, hvað allt sé ómögulegt, alveg eins og hann sé öllum stundum á öðrum hnöttum. Hann nöldrar um, að vextir séu of háir, og kemur þannig í veg fyrir nýjan sparnað til kaupa á ríkisvíxlum.

Önnur atriði hafa áhrif á tregðu sparifjáreigenda. Traust ríkissjóðs hefur minnkað. Menn óttast, að einn góðan veðurdag segi fjármálaráðherra, að framvegis muni hann borga 2% vexti, en ekki 6%. Eða þá, að hann segist alls ekki ætla að borga þessa ósanngjörnu víxla.

Fordæmið er fengið úr viðskiptum fjármálaráðherra og forsætisráðherra við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Fyrst sömdu þeir um ákveðin kjör og skrifuðu undir. Síðan tilkynntu þeir, að ekki mundi verða farið að samningum, og fengu það staðfest fyrir dómi.

Taugastríð pólitíkusa undir lok alþingis í marz hækkaði niðurstöðutölur lánsfjárlaga úr 12 milljörðum í 25 milljarða. Þetta var bein afleiðing þess, að kosningar voru framundan, en veldur því um leið, að ríkisstjórnin hefur ekki lengur neinar ekta rósir í hnappagatinu.

Samtals munu þessi áform stjórnvalda um auknar lántökur hins opinbera hækka vexti um 1,5% eftir kosningar og auka verðbólguna úr 7-8% í 12%. Þar með eru forsendur þjóðarsáttar foknar á braut. Þegar sjást merki um aukna ókyrrð á vinnumarkaði og peningamarkaði.

Það er í stíl við ruglið í pólitíkinni, að forsætisráðherra hefur flutt kosningabaráttuna suður á Rínarbakka. Hann segir kosningarnar vera þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópubandalaginu. Búast má við, að kjósendur trúi þessu sem hverju öðru nýju neti hans.

Ekki er að sjá, að stjórnarandstaðan hefði gert mikið betur. Hún hneigist fremur til yfirboða en tilrauna til að segja kjósendum sannleikann um, að kosningavíxlarnir séu hefndargjöf. Enginn talar um þau mál, sem raunverulega skipta þjóðina máli um þessar mundir.

Enginn þorir að tala um afnám opinbers stuðnings við hefðbundinn landbúnað og afnám innflutningsbanns á búvöru. Enginn þorir að tala um, hvað við getum boðið Evrópubandalaginu til að komast á frían tollasjó án þess að þurfa að láta veiðiheimildir af hendi.

Enginn þorir að tala um, að sjávarútvegurinn stendur á krossgötum, þar sem frystitogarar og fiskmarkaðir heima og erlendis eru að taka við af gamla kerfinu. Þetta getur fært þjóðfélaginu mikinn gróða um leið og það kippir fótum undan mörgum sjávarplássum.

Enginn þorir að tala um neitt, sem máli skiptir. Enda virðast kjósendur una því, að einkum sé fjallað um orðaleiki og aukatariði, en hvergi komið að kjarna máls.

Jónas Kristjánsson

DV