Í ár fer kostnaður við stríðið gegn hryðjuverkum upp fyrir kostnaðinn við stríðið gegn Víetnam. Með sama áframhaldi fer kostnaðurinn fram úr síðara heimsstríðinu. Þetta segir Spiegel og vitnar í bandarísk blöð og fræðimenn. Blaðið segir, að sumir noti hærri tölur. Þeir gera ráð fyrir kostnaði við lífeyri slasaðra og óvinnufærra hermanna og kostnaði við dýrari olíu í kjölfar stríðsins. Samkvæmt slíkum tölum er stríðið gegn Afganistan og Írak orðið dýrasta stríð veraldarsögunnar. Í upphafi spáði Bush, að stríðið mundi alls kosta einn tíunda af því, sem það er nú þegar komið upp í.