Dýrir flokkar og kjósendur.

Greinar

Tjón Útvegsbankans og þar með þjóðarinnar af gjaldþroti Hafskips er ekki stórvægilegt í samanburði við ýmislegt annað tjón, sem gert hefur verið upp þessa dagana- Ber þar hæst 2037 milljón króna tjón ríkisins og þjóðfélagsins af Kröfluævintýrinu.

Ekki skorti aðvaranir, þegar stjórnmálamenn þriggja flokka steyptu sér í Kröflu á sínum tíma. Ekkert mark var tekið á slíku, enda hafa úrtölur löngum verið óvinsælar hér á landi. Orkuverið var nánast fullbúið, áður en sannreynt var, hvort orku væri að hafa.

Heildarskuldir Kröflu nema 3207 milljónum króna. Landsvirkjun er nú að kaupa orkuverið af ríkinu á 1170 milljónir. Mismunurinn nemur 2037 milljónum. Verður sá reikningur sendur skattgreiðendum í áföngum á næstu árum, hinn fyrsti á næsta ári.

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag stóðu að Kröflu. Ef tjóninu er skipt á þessa þrjá Kröfluflokka, koma 679 milljónir á hvern flokk. Það getur verið dýrt að kjósa yfir sig stórhuga og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn.

Fleiri gjaldþrot hafa verið gerð upp að undanförnu. Afskrifaður hafa verið rafmagnslínur í sveitum, svokallaðar byggðalínur, fyrir 1000 milljónir króna. Allir gömlu flokkarnir tóku þátt í því ævintýri. Kostnaðurinn er 250 milljónir á hvern þeirra.

Ríkissjóður þurfti í ár að reiða fram rúmlega 350 milljón króna hlutafé til að bjarga járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga frá gjaldþroti. Til viðbótar við þá tölu kemur svo niðurgreiðsla á orku til verksmiðjunnar.

Gömlu flokkarnir fjórir eiga allir þátt í Grundartanga. Alþýðubandalagið er heppið að skulda ekki nema fjórðung af tjóninu. Ef sá flokkur hefði fengið að ráða, ætti ríkið eitt verksmiðjuna og þyrfti að bera hlutfallslega þyngri byrði af henni.

Í fjórða sæti í þessari upptalningu kemur svo 350 milljón króna tjón Útvegsbankans af völdum Hafskips. Bankaráð þess banka er skipað fulltrúum fjórflokksins. Bankastjórarnir eru pólitískt skipaðir, þar af einn á vegum Alþýðubandalagsins.

Áfram má rekja fjárhagslega afrekaskrá stjórnmálaflokkanna. Nokkrir togarar hafa lent á Fiskveiðasjóði á undanförnum vikum. Tjón sjóðsins og þar með þjóðarinnar nemur 240 milljónum króna. Tjónið getur orðið enn meira, ef illa gengur að selja skipin.

Slíkt tjón var meira eða minna fyrirsjáanlegt, þegar togarakaupaæðið rann á stjórnmálamenn á sínum tíma. Ennfremur var fyrirsjáanlegt, að raðsmíðaverkefni fiskiskipa, sem nú stendur yfir, yrði meira eða minna á kostnað þjóðarinnar vegna skorts á kaupendum.

Nýju flokkarnir geta hrósað happi yfir að vera ekki flæktir í þessi mál. Þeir eru þó ekki alveg saklausir. Þeir taka til dæmis þátt í að verja almannafé til að forða pólitískum blöðum frá gjaldþroti. Þannig eru studd öll dagblöðin nema DV.

Sérhverjum hinna rótgrónu stjórnmálaflokka mætti senda reikning upp á hundruð milljóna fyrir afglöpin, sem hér hafa verið rakin. Margt er ótalið, svo sem landbúnaðarstefna þeirra, er kostar milljarða á ári.

Slíkt er þó tilgangslítið, því að bak við stjórnmálaflokkana eru sjálfir kjósendur, sem hafa kjörið og endurkjörið flokkana til að fjalla um þessi mál á þann ábyrgðarlausa hátt, sem kjósendur eiga skilið.

Jónas Kristjánsson

DV