Dýrkeypt menntanet

Greinar

Íslenzka menntanetið á umtalsverðan þátt í heimsmeti Íslendinga í notkun Internetsins, sem er 50% útbreiddara hér á landi en í upphafslandinu Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur haft forgöngu um fræðslunotkun netsins og mótað nýja möguleika í menntakerfinu.

Þetta skiptir miklu í strjálbýlu landi. Netið er happasending fyrir þjóð, sem vill búa vítt um dreifðar byggðir og ná samt efnahagslegri hagkvæmni þéttbýlis. Með netinu getur fólk stundað fjarnám með áhrifamiklum hætti og það getur einnig stundað arðbær störf í einrúmi.

Fjarnámstækni á netinu er orðin svo þróuð, að unnt er að stunda nám við bandaríska háskóla og taka þar próf án þess að mæta í skóla nema einu sinni á ári eða sjaldnar. Athuganir benda til, að fjarnemendur séu áhugasamari og standi sig betur en staðarnemendur.

Íslenzka menntanetið er einkafyrirtæki, sem hefur vakið athygli víða um heim fyrir frumkvæði í notkun netsins í menntakerfinu. Það lagði í vetur í fjárfestingu við að koma upp netþjónum í öllum símaumdæmum landsins og varð sú fjárfesting fyrirtækinu ofviða.

Menntaráðuneytinu rann blóðið til skyldunnar. Það keypti gjaldþrota fyrirtækið með manni og mús fyrir 21 milljón króna til að tryggja, að áfram héldist þjónustan, sem Menntanetið veitir skólakerfinu og er talin vera ómissandi vegna 300 fjarnemenda á netinu.

Ráðuneytið fór offari í þessu efni. Það gat tryggt hagsmuni hinna 300 fjarnemenda með broti af þessari upphæð. Það hefði getað greitt áskriftargjöld fyrir þá og skóla landsins hjá öðrum einkafyrirtækjum, sem bjóða sömu þjónustu og Menntanetið á svipuðu verði.

Ráðuneytið hefði stuðlað að heilbrigðri samkeppni í þjónustu við netið með því að bjóða út netviðskipti skólakerfisins. Starfrækt eru í landinu nokkur fyrirtæki á þessu sviði, þannig að Menntanetið er ekki lengur ómissandi, þótt það eigi merka afrekasögu.

Búnaðurinn, sem ráðuneytið fékk með kaupunum á Menntanetinu, nemur í verðmætum um helmingi af upphæðinni, sem það greiddi fyrir kaupin. Þannig felur hálf upphæðin í sér óeðlilegt handafl á markaðnum og hinn helmingurinn felur í sér þakklætisvott ráðuneytisins.

Þegar ráðuneyti vill ganga svona langt í björgunaraðgerðum, sem fela í senn í sér markaðsmismunun og þakklætisvott, átti ráðuneytið að leita samþykkis þeirra aðila, sem fara með fjárveitingavaldið í landinu. Það gerði menntaráðherra ekki og gróf þannig undan þingræðinu.

Ef ráðuneytið tekur þessa 21 milljón af tölvukaupafé, svo sem fullyrt hefur verið því til afsökunar, verða íslenzkir skólar mörgum tugum tölva fátækari en ella hefði orðið. Ráðuneytið hamlar þannig gegn brýnni tölvuvæðingu skólanna með kaupum sínum á Menntanetinu.

Komið hefur í ljós, að flestir þingmenn eru eftir á að hyggja sammála kaupum ráðuneytisins á Menntanetinu og vilja væntanlega veita sérstaklega fé til þeirra, svo að það verði ekki tekið af tölvukaupafé skólanna. Vonandi láta þeir verkin ekki tala síður en orðin.

Sighvatur Björgvinsson þingmaður stóð einn í gagnrýni sinni á kaupin. Hans gagnrýni var eigi að síður réttmæt. Kaupverðið var hátt yfir raunvirði. Ráðuneytið hefði sparað peninga með því að bjóða út þjónustuna og reyndi ekki einu sinni að ganga úr skugga um það.

Mál þetta sýnir ráðuneyti, sósíaliskan ráðherra og Alþingi, sem sameiginlega eru ófær um að hugsa mál á grundvelli alþjóðlega viðurkenndra markaðslögmála.

Jónas Kristjánsson

DV