Dýrkeypt monthús

Greinar

Allir koma af fjöllum, sem ábyrgð áttu að bera, þegar minnzt er á kostnað við innréttingu þjóðmenningarhúss í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Allra sízt tekur forsætisráðherra neinum afleiðingum gerða sinna, er 300 milljón króna áætlun varð að 400 milljón króna kostnaði.

Bakgrunnur málsins er, að þjóð, sem ekki á nothæft þjóðminjasafn og enn síður náttúruminjasafn, fær í staðinn dæmigert monthús, sem hefur lítið safnagildi og er einkum notað fyrir hanastél hins opinbera, rétt eins og ekki hafi verið til nóg af slíkum húsum hjá ríkinu.

Forsætisráðherra bjó til tvær fínimannsnefndir Þjóðmenningarhúss, aðra skipaða helztu ráðuneytisstjórum ríkisins og hina skipaða fyrrverandi forseta Alþingis og fleira fínu fólki. Þessum virðulegu nefndum til halds og trausts átti að vera Framkvæmdasýsla ríkisins.

Úr þessu varð botnlaus óráðsía. Lóðarframkvæmdir einar fóru 200% fram úr áætlun og enduðu í 44 milljónum króna. Að mestu fóru þeir peningar í að búa til montreið að höfuðdyrum hússins, sem lokið var við á síðustu stundu með því að leggja nótt við dag.

Forsætisráðherra segist ekki hafa vitað um þetta og raunar hafa spurt við opnun hússins í vor, hvort allt væri í lagi með fjármálin, og sér hafi verið sagt, að svo væri. Síðan hafi sannleikurinn komið í ljós í sumar og Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um málið í haust.

Samkvæmt þessu var búið að eyða 400 milljónum króna og opna húsið formlega áður en menn vissu, að þeir væru komnir langt fram úr heimildum. Í alvörulöndum hefðu nokkrir fínimenn fengið að fjúka af minna tilefni, en hér á landi tekur aldrei neinn ábyrgð á neinu.

Svo forstokkaðir eru ábyrgðarmennirnir, að málið var ekki lagt fyrir fjárlaganefnd þingsins í haust. Þingmenn fengu fyrst að vita um það nýlega og það með eftirgangsmunum. Ríkisendurskoðun þagði meira að segja þunnu hljóði á hverjum fundinum á fætur öðrum.

Sjálfur lá forsætisráðherra í þrjá haustmánuði á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Þannig var það ekki fyrr en um síðustu mánaðamót, að fjárveitingavaldið fékk að vita, hvernig peningum skattborgaranna hafði verið grýtt á tvist og bast í Þjóðmenningarhúsi.

Forsætisráðherra segir, að menn læri af þessu. Breytt verði verklagsreglum við opinberar framkvæmdir hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Áður hafa menn þó fengið tækifæri til að læra af fyrri óráðsíu í framkvæmdum forsætisráðuneytisins, en ekki notað tækifærið.

Frægt var, hvernig verkfræðingar og aðrir sérfræðingar léku lausum hala við endurbætur og viðgerðir á Bessastöðum. Þá eins og nú stafaði sukkið af, að ekkert virkt kostnaðareftirlit var af hálfu fína fólksins í framkvæmdanefndinni. Reikningarnir bara flæddu inn.

Önnur dæmi sýna ennfremur, að Ríkisendurskoðun er yfirleitt ekkert gefin fyrir að upplýsa vinnuveitanda sinn, Alþingi, um vandræði í kerfinu. Hún heldur í rauninni að hún sé í vinnu hjá ríkisstjórninni og hafi það hlutverk að halda niðurstöðum í lengstu lög frá Alþingi.

Fyrir Þjóðmenningarhús vissu menn, að eftirlitslausar fínimannsnefndir eru ávísun á vandræði í framkvæmdum og að Ríkisendurskoðun er ekkert að flíka fjárhagslegum vandamálum í kerfinu. Spurningin er, hvort menn læri nokkuð frekar í þetta sinn en í fyrri skiptin.

Ef þessar glötuðu 400 milljón krónur hefðu farið í að opna þjóðminjasafn og efna til veglegs náttúruminjasafns, hefðu landsfeður eitthvað til að monta sig af.

Jónas Kristjánsson

DV