Kosningin um sameiningu sveitarfélaga var sóun á peningum skattgreiðenda. Framhaldskosningarnar í marz verða líka sóun á opinberu fé. Þessar kosningar byggjast nefnilega ekki á neinum vitrænum upplýsingum um viðhorf fólks til ýmiss konar sameiningar.
Atkvæðagreiðslur almennings um ýmis mál eru ágæt efling lýðræðis. En þær eiga að hanga á reglubundnum kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, svo að ekki sé varið óþarflega miklum fjármunum til þeirra. Sérstakar kosningar um hugdettur eru utan ramma skynseminnar.
Hugdettur á að prófa í tiltölulega ódýrum skoðanakönnunum og ekki fara með málin í dýra kosningu fyrr en skoðanakannanir hafa sýnt, að einhverjar af þessum hugdettum hafi möguleika á að ná fram að ganga. Slíkar aðferðir kosta ekki nema brot af núverandi aðferðum.
Í skoðanakönnun á völdum stöðum á landinu hefði verið hægt að finna, að íbúar dreifbýlishreppa eru yfirleitt ekki hrifnir af sameiningu við þéttbýlishrepp, af því að þeir óttast, að kaupstaðurinn eða kauptúnið gleypi sveitina, sem verði útkjálki nýs sveitarfélags.
Í slíkri skoðanakönnun hefði einnig verið hægt að finna, hvort íbúar dreifbýlishreppa geti fremur hugsað sér að sameinast öðrum dreifbýlishreppum til þess að búa til nýtt sveitarfélag, sem haldi í megindráttum sögulegum og félagslegum einkennum gömlu hreppanna.
Að fengnum þessum upplýsingum og fleiri af því tagi hefði verið hægt að leggja áhugaverðar sameiningartillögur fyrir dóm kjósenda í tengslum við næstu almennu kosningar í landinu, svo að ekki sé verið að fleygja tugum milljóna króna í atkvæðagreiðslur út í loftið.
Ferli sameiningarmálsins hefur farið úr böndum. Lagt var upp með þá hugmynd, að sameina þyrfti fámenna hreppa, sem einkum eru dreifbýlishreppar, til þess að gera þá færa um taka við fyrirhuguðum verkefnum frá ríkinu, svo sem grunnskólum og öldrunarþjónustu.
Síðan leiddist málið út í hugdettu um víðtæka sameiningu, þar sem dreifbýlishreppar yrðu sameinaðir þéttbýlisstöðum, sem voru nógu fjölmennir fyrir; og þar sem fjölmennir þéttbýlisstaðir yrðu sameinaðir öðrum enn fjölmennari. Þessi hugdetta kolféll í kosningunum.
Svo virðist sem þær nefndir heimamanna, sem sömdu hinar föllnu tillögur, hafi annaðhvort gert sér litla grein fyrir viðhorfum heimamanna eða ekki unnið starf sitt í alvöru. Útreið umdæmanefndanna er ágæt, en dýrkeypt kennsla í, hvernig ekki eigi að standa að málum.
Í mars er svo ráðgert að prófa aðra hugdettu, sennilega þá, að sveitahreppar vilji sameinast öðrum sveitahreppum. Skynsamlegt er að falla frá þessari kostnaðarsömu tilraunastarfsemi og koma í staðinn með ódýra könnun á viðhorfum fólks til slíkrar sameiningar.
Ef í ljós kemur í slíkri könnun, að einhver hugdetta af því tagi sameiningar hafi marktækan hljómgrunn meðal fólks, að minnsta kosti sem öflug minnihlutaskoðun, er hægt að fara með málið í almenna kosingu, sem væri samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Niðurstaðan er, að hugdettur á að prófa í tiltölulega ódýrum og svæðisbundnum skoðanakönnunum. Þegar hinni félagsfræðilegu vinnu eru lokið, má síðan fara í kosningar með þær hugdettur, sem marktækar hafa reynzt, og hafa þetta samhliða öðrum kosningum.
Flaustur umdæmanefnda hefur hins vegar orðið til skammar öllum þeim, sem að málum hafa staðið; og til stórfelldra útgjalda fyrir skattgreiðendur landsins.
Jónas Kristjánsson
DV