East Side og Arnarnesið

Greinar

Íbúar höfuðborgarsvæðisins leggjast ekki í hverfi eftir stéttum eins og sjá má víðast hvar erlendis. Forustufólk í stjórnmálum, fjármálum og embættissýslu býr ekki í aðskildum hverfum, heldur hér og þar á svæðinu innan um fólk, sem hefur minni völd og peninga.

Þótt Íslendingar séu sagðir ameríkaniseraðir og þótt höfuðborgarsvæðið sé dreift skipulagt, þá gildir ekki sú regla hér á landi, að menn búi því lengra frá borgarkjarnanum, sem þeir megi sín meira, og helzt í sérbyggðum og meira eða minna lokuðum hverfum.

Í Bandaríkjunum hafa gamlar miðborgir lagzt í auðn og yztu og yngstu úthverfin blómstað. Hér hafa menn haldið áfram að búa á gömlu stöðunum, þótt þeir hafi komizt í álnir eða til mannvirðinga. Þetta kom fram í úttekt, sem birtist í Fókusi, fylgiriti DV, í gær.

Flest er fyrirfólkið á Melunum, í gamla vesturbænum og í gamla austurbænum. Þótt húsakynni séu þrengri og húsaskipan þéttari en annars staðar, heldur fólk tryggð við rætur sínar. Margir búa þar í sambýlishúsum, þótt þeir hafi ráð á einbýlishúsum úthverfanna.

Fyrir tveimur áratugum voru gömlu hverfin að breytast í þreytuleg ellihverfi, meðan barnafólkið byggði á hæðunum í kring. Um langt skeið hefur þetta verið að snúast við. Ungt fólk hefur gert upp litlu íbúðirnar í þröngu götunum og gætt hverfin lífi að nýju.

KR var á sínum tíma að fjara út vegna skorts á börnum og unglingum í vesturbænum. Nú er félagið farið að blómstra á nýjan leik. Nýir skólar hafa hreinlega verið reistir í vesturbænum til að rúma aukningu barna og unglinga á skólaskyldualdri.

Þannig hefur dregið úr aldursskiptingu hverfa. Ekki er lengur eindregið, að ungar barnafjölskyldu komi sér upp húsnæði í nýjustu hverfunum og gamla fólkið ráfi einmana um stássstofur sínar í gamla bænum. Aldurshóparnir eru farnir að blandast meira.

Athyglisvert er, að ekki hafa tekizt tilraunir til að hanna sérstök glæsihverfi handa fyrirfólki. Arnarnesið er bezta dæmið. Þar gekk lengi illa að selja lóðir. Handhafar auðs og valds kærðu sig ekki um að flytja þangað, svo að úr varð gott millistéttarhverfi.

Með því að skipuleggja lóðir fyrir stór einbýlishús hefur Garðabæ að vísu tekizt að draga til sín betri skattgreiðendur en sem nemur meðaltali höfuðborgarsvæðisins. En bænum hefur ekki tekizt að magna þessa sveiflu með því að fá fyrirmenn til að draga aðra að.

Vafalaust eru margar ástæður þessarar sérstöku og athyglisverðu íbúaþróunar á höfuðborgarsvæðinu. Miklu máli skiptir, að Reykjavíkurborg keypti markvisst allt land og skipulagði hverfi blandaðrar íbúðabyggðar, þar sem dýrar íbúðir og ódýrar eru saman í hverfi.

Svo virðist líka sem virðingarfólk á höfuðborgarsvæðinu sækist ekki eftir ytri táknum velgengni sinnar á sama hátt og hliðstætt fólk í lokuðu úthverfunum í Bandaríkjunum. Hér eru menn sáttir við þröngar götur, gömul hús og hófleg þægindi innan dyra.

Ein afleiðingin og kannski ekki síður orsök um leið, er, að þjóðfélagið er jafnara en önnur þjóðfélög. Stéttirnar búa ekki í aðskildum lögum eins og mismunandi þjóðir. Hér er hvorki að finna Harlem né East Side. Hverfin eru ekki svört og hvít, heldur mismunandi grá.

Þegar ráðherrann getur gengið í vinnuna og heilsað fólki á förnum vegi, er þjóðfélagið sennilega betur statt en ýmis önnur, sem kenna sig við lýðræði.

Jónas Kristjánsson

DV