Eðlileg vaxtahækkun

Greinar

Seðlabankinn hefur hækkað bankavexti sína og verðbréfatilboð sín um 0,4% til að sporna við verðbólgu, sem er farin að skjóta upp kollinum eftir nokkurra ára hlé. Undanfarna mánuði hefur hún verið um 2,5%, sem er nokkru hærra en í nágranna- og viðskiptalöndum okkar.

Vaxtahækkunin var tímabær og þörf, þótt hún sé óþægileg. Hún felur í sér eðlileg viðbrögð Seðlabankans við því, að þjóðin er byrjuð að nýju að eyða um efni fram. Hún virðist telja, að varanlegt góðæri sé í uppsiglingu og er þegar byrjuð að eyða væntanlegri tekjuaukningu.

Í febrúar var spáð 1,3 milljóna króna viðskiptahalla landsins, í júní 6,1 milljónar króna viðskiptahalla og nú er spáð 7-10 milljóna króna halla. Þannig hefur ört sigið á ógæfuhliðina mestallt þetta ár, svo að vaxtahækkun Seðlabankans núna er raunar fremur seint á ferðinni.

Fyrir hækkunina voru íslenzkir skammtímavextir rúmlega tveimur prósentustigum hærri en hliðstæðir vextir voru í útlöndum. Eftir hækkunina eru þeir tæplega þremur prósentustigum hærri en erlendir. Þetta segir mikla sögu um mismunandi eyðslusemi þjóða.

Vextir þurfa greinilega að vera þremur prósentustigum hærri hér á landi til þess að vera sami hemill á eyðslu fólksins í landinu og vextir eru í útlöndum. Þetta er auðvitað umtalsverður herkostnaður fyrir atvinnulífið og skerðir samkeppnisgetu þess gagnvart útlöndum.

Eyðslusemin kemur fram hjá öllum meginaðilum þjóðfélagsins, almenningi, fyrirtækjum og opinberum aðilum. Ríkið er raunar sá sukksamasti af þessum aðilum og eyddi í fyrra 13,3% um tekjur fram. Á næsta ári ætlar það að bæta ráð sitt og ná hallalausum rekstri.

Væntingar um góðæri eru ágætar, svo framarlega sem þær valda nauðsynlegri bjartsýni og knýjandi áræði í atvinnulífinu, en skaðlegar, ef þær valda því, að menn rasa um ráð fram. Flest bendir til, að væntingarnar hafi verið nokkuð hátt spenntar að undanförnu.

Engin ástæða er til að reikna með framhaldi á góðum aflabrögðum. Reynslan sýnir, að afli er miklum sveiflum háður og að margir hafa áður farið flatt á að framreikna góðæri líðandi stundar. Stórframkvæmdir á borð við smíði álvera eru ekki heldur varanlegur þáttur.

Affarasælast er að fara með löndum og eyða ekki of miklu af peningum, sem ekki eru enn komnir í hús. Þetta skilja flestar þjóðir, en Íslendingar hafa hins vegar löngum átt bágt með sig. Þessi munur hefur áratugum saman verið Akkillesarhæll íslenzkra efnahags- og fjármála.

Vandi líðandi stundar er meiri en ella fyrir þá sök, að stéttaskipting hefur farið vaxandi að undanförnu. Fjölmenn undirstétt á bótum eða á strípuðum taxta- og dagvinnulaunum hefur ekki séð neitt af góðærinu, sem talað er um, og tekur ekki þátt í eyðslukapphlaupinu.

Tilraunir til að halda niðri kostnaði við félagslega þjónustu og til að hindra sprengingar í töxtum fjölmennra stéttarfélaga koma að sjálfsögðu illa við undirstéttina, sem enga ábyrgð ber á þeirri auknu eyðslu, sem er ástæða aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Aðhald í ríkisfjármálum og hærri vextir eru spor í rétta átt, en taka ekki tillit til sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu, svo sem vaxandi stéttaskiptingar. Þetta eru út af fyrir sig of einhliða aðgerðir, of hefðbundnar skólabókaraðgerðir, sem hljóta að kalla á andóf.

Ríkisaðhald og vaxtahækkun eru samt sem áður nauðsynleg byrjun, því að án þeirra er ekki hægt að taka af viti á neinum öðrum vandamálum og verkefnum.

Jónas Kristjánsson

DV