Ef báðir vilja

Greinar

Líta má á deiluefni heimsveldanna tveggja sem stækkaða útgáfu af ágreiningsmálum, sem hversdaglega eru á borðum sáttasemjara ríkisins hér á landi. Ef grannt er skoðað, er gjáin milli deiluaðila ekki meiri en svo, að Guðlaugur Þorvaldsson hefur margoft lamið slík mál saman á styttri tíma en Gorbatsjov og Reagan hafa til umráða í Reykjavík um næstu helgi.

Í Stokkhólmi hafa fulltrúar þeirra þegar samþykkt gagnkvæma tilkynningaskyldu um alla meiriháttar herflutninga og heræfingar, svo og það, sem meiru skiptir, gagnkvæmt eftirlit með, að þessi tilkynningaskylda sé haldin. Þessa skyldu og eftirlit má auðveldlega víkka.

Í Genf hafa verið stigin jákvæð skref í viðræðum heimsveldanna um aðgerðir til að koma í veg fyrir styrjöld af slysni. Talað er um að koma á fót í Moskvu og Washington stofnunum, þar sem heimsveldin skiptist á upplýsingum um hernaðarlegar aðgerðir, svo að þær komi ekki á óvart. Að undirrita slíkt er fimm mínútna verk í Reykjavík um næstu helgi. Ef báðir vilja.

Staðbundin ágreiningsefni er líka hægt að leysa. Stóra málið á því sviði er Afganistan. Fyrr eða síðar komast ráðamenn Sovétríkjanna að raun um, að hernaður þeirra þar í landi kostar of mikið í samskiptum við Arabaheiminn og að skynsamlegra er að semja við Bandaríkjastjórn um breiða afganska ríkisstjórn, sem mundi sýna Sovétríkjunum vinsamlegt hlutleysi.

Ekki ætti síður að vera létt að semja um mannréttindi. Raunar þarf ekki að semja um þau, því að Sovétstjórnin þarf ekki að gera annað en að framkvæma undirskrift sína undir þriðju körfu Helsinkisáttmálans. Hún getur gert það á fimm mínútum, ef hún vill. Augljóst er, að fólk á að hafa leyfi til að fara frá löndum eins og því þóknast sjálfu, svo og að koma til þeirra.

Eitt auðveldasta mál fundar Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík um helgina gæti verið að semja um bann við kjarnorkuvopnatilraunum. Tæknin er komin á slíkt stig, að eftirlit með slíku banni er barnaleikur. Bandaríkjastjórn kemst fyrr eða síðar að raun um, að tregðan gegn þessu verður henni of dýr í almenningsáliti.

Ekkert mælir á móti, að fimm mínútna verk sé að samþykkja að fækka meðaldrægum kjarnaorkuflaugum í Evrópu niður í 100 eða kannski bara 200 til að þóknast hinum svartsýnu. Hvort tveggja er of mikið, en eigi að síður auðveldur álitsauki fyrir hvorn þeirra um sig.

Ekki er lengra verk fyrir þá félaga að semja um, að framkvæmd hins svokallaða stjörnustríðs verði frestað um tíu ár. Gorbatsjov hefur heimtað 15 ár og Reagan hefur samþykkt 7 ár. Guðlaugur hefur séð það svartara, að minnsta kosti einu sinni á ári hverju.

Ef til vill tekur lengri tíma að komast að samkomulagi um bann við framleiðslu eiturefnavopna, eyðingu birgða á því sviði og virkt eftirlit með, að hvort tveggja sé haldið. Það er bara ákvörðun Gorbatsjovs um, hvort hann vill halda áfram að ögra heiminum eða ekki.

Flóknasta mál þeirra félaga er samkomulag um fækkun langdrægra kjarnaodda. Ekki er það þó flóknara en svo, að báðir aðilar hafa kastað á milli sín hugmyndum um 50% eða 30% fækkun, eins og það sé bitamunur en ekki fjár. Erfiðast á því sviði er auðvitað eftirlitið, sem verður að vera gott, alveg pottþétt.

Þannig er tæpast hægt að finna neitt ágreiningsefni heimsveldanna, sem ekki er hægt að semja um á fimm mínútum, hvað þá tveimur dögum. Ef báðir vilja.

Jónas Kristjánsson

DV