Ef bara áttin er rétt

Greinar

Vönduð og heiðarleg vinnubrögð hafa smám saman rutt sér til rúms í hinum hefðbundnu fjölmiðlum á Íslandi. Til dæmis gæta pólitísk málgögn sín betur en áður á eðlislægri hlutdrægni sinni. Fjölmiðlar virða höfundarétt, svo sem ljósmynda, betur en áður tíðkaðist.

Lengi mætti telja dæmi um aukinn siðferðilegan aga hinna hefðbundnu fjölmiðla, dagblaða, útvarps og sjónvarps. Enn skortir þó nokkuð, að þeir jafnist á við ýmsa erlenda fjölmiðla, sem til dæmis neita að þiggja ferðir eða góðgerðir án þess að borga fyrir.

Um leið hafa komið til skjalanna hér á landi nokkrir fjölmiðlar, sem hafa stigið ýmis skref aftur á bak í siðferðilegum aga, þótt þeir hafi að mörgu öðru leyti haft jákvæð áhrif. Alvarlegast er, hvernig þeir hafa deyft hin skýru mörk auglýsinga og upplýsinga.

Á sama tíma og sérstök auglýsingablöð með viðtölum við auglýsendur voru að hverfa úr dagblöðum sagðist þáverandi aðstoðarfréttastjóri sjónvarpsins hafa einfaldan smekk í klæðaburði. Sú stefna hans hefur fengið byr undir báða vængi á hinni nýju sjónvarpsstöð.

Einar Karl Haraldsson hefur í tveimur kjallaragreinum hér í blaðinu réttilega bent á vandamál af þessu tagi og hlotið fyrir málefnasnautt skítkast af hálfu sjónvarpsstjóra og einkum fréttastjóra Stöðvar tvö. Ástæða er til að vekja athygli á sjónarmiðum Einars Karls.

Alls staðar eru hættur á ferðinni. Hér á blaðinu létum við nýlega gabbast til að birta óperugrein eftir blaðamann úti í bæ, sem síðan kom í ljós, að var á mála hjá áróðursfyrirtæki íslenzku óperunnar. Okkur þykir það miður og hyggjumst gæta okkar betur næst.

Auglýsingar í efni eru mest áberandi hjá hinum nýju fjölmiðlum, Rás tvö, Bylgjunni og einkum þó og sér í lagi hjá Stöð tvö. Þar fellur jafnvel eldamennska kokksins í skugga af upplýsingum um, hvar sé hægt að kaupa fötin, sem hann klæðist. Þar er klukkan líka auglýsing.

Helgarpósturinn hefur lent í annars konar vanda. Hafandi komið á framfæri afar nytsamlegum upplýsingum um vafasöm viðskipti hefur blaðið klæðzt skikkju lögreglustjóra. Sem slíkt hefur það lagt menn í einelti óralangt umfram hina upprunalegu upplýsingaskyldu.

Á endanum var ritstjóri blaðsins staðinn að óheiðarlegum auglýsingaviðskiptum, er voru nánast nákvæmlega eins og viðskiptin, sem blaðið hafði áður harðlega gagnrýnt. Ritstjórinn hafði sem betur fer manndóm til að segja af sér, svo að vænta má betri tíma þar á bæ.

Sorglegt er að sjá fagmann í blaðamennsku á borð við fréttastjóra Stöðvar tvö fara í eins konar gervi Sverris Hermannssonar og ráðast ómálefnalega á stéttarbróður, sem ekki gerði annað en að hvetja til bættra mannasiða blaðamanna og annarra fjölmiðlunga.

Blaðmannastéttin þarf ekki á að halda fólki með hinn illræmda, einfalda smekk. Hún þarf fólk, sem tekur mark á viðvörunum Einars Karls. Fólk, sem áttar sig á, að það er ekki bara pólitísk hætta, er sækir að fjölmiðlunum, heldur einnig önnur auglýsingahætta.

Fjölmiðlarnir þurfa ennfremur ekki á að halda fólki, sem vokir eins og hrægammar yfir bókum og plötum, þorramat og flugeldum, sem berast ritstjórnum í kynningarskyni. Blaðamennska er göfugt fag, þar sem herfangshyggja á síður heima en í nokkru öðru fagi.

Blaðamenn og fjölmiðlar eiga að feta og geta fetað í átt til aukins sjálfstæðis gagnvart öflum þjóðfélagsins. Hraðinn þarf ekki að vera mikill, ef bara áttin er rétt.

Jónas Kristjánsson

DV